Króatía, Feneyjar og Pólland stendur upp úr sumrinu
Ania Rubaj fæddist og ólst upp í Póllandi til 21 árs aldurs, þegar hún flutti til Íslands, n.t. til Reykjanesbæjar. Hún tekur á móti gestum Réttarins með sínu fallega brosi í hverju hádegi og varla er hægt að greina á mállýsku hennar eða í riti, að hún sé ekki íslensk í húð og hár. Sumarið var heldur betur fjölbreytt og skemmtilegt og hún hlakkar mikið til komandi Ljósanætur og ætlar að reyna sjá sem mest.
„Sumarið var geggjað, það var mikið að gera hjá strákunum mínum í hinum ýmsu fótboltamótum víðsvegar um Ísland og svo fór ég í brúðkaup til Póllands, fór í frí með fjölskyldunni til Króatíu og gat farið í einn dag til Feneyja á Ítalíu. Króatía var algjör paradís, frábært veður, sjórinn gegnsær, fallegt landslag og góður matur, ég þarf ekki meira. Það var líka gaman að koma til Feneyja, þar er margt að skoða. Allar þessar litlu, þröngu götur sem bara er hægt að sigla á. Ekta ítölsk pizza, limoncello og gelato, það var æðislegt að prófa þetta allt.
Það sem kom mér mest á óvart hér á Íslandi var veðrið, ég hef ekki upplifað annað eins síðan ég flutti til Íslands. Hitabylgjan í maí var ótrúleg, hitinn hér í Reykjanesbæ var lygilegur og yfir höfuð var veðrið í sumar æðislegt, það mætti vera meira svona.
Mér finnst Ísland ótrúlega fallegt land og á erfitt með að nefna einn uppáhalds stað en ef ég verð að nefna eitthvað þá segi ég Jökulsárlón. Mér finnst líka mjög gaman að koma til Akureyrar en í raun skiptir ekki máli hvar ég er eða hvert ég fer, mér finnst alltaf gaman.
Ég er ekki með neitt sérstakt á stefnuskránni í vetur, vil ferðast meira, vera dugleg í ræktinni, læra fleiri tungumál og njóta lífsins.“
Ljósanótt
Ania hefur verið mikill aðdáandi Ljósanætur og hlakkar mikið til komandi viku.
Mér finnst allt við Ljósanótt geggjað, ég elska Ljósanótt! Ég ætla að reyna sjá smá af öllu, skoða sýningarnar, kíkja á tónleika og gera eitthvað skemmtilegt með börnunum.
Mín besta minning af Ljósanótt er þegar veðrið lék við okkur allan tímann fyrir nokkrum árum, það var æðisleg hátíð. Veðrið skiptir svolítið miklu máli á svona hátíðum, það verður að segjast eins og er og þegar hausta tekur eru kannski minni líkur á góðu veðri en yfir sumarið. Vonandi munu veðurguðirnir brosa í ár.
Þær hefðir sem hafa skapast hjá mér er að á fimmtudagskvöldum hittumst við vinkonurnar og tökum rúnt í búðirnar. Á föstudögum borða ég kjötsúpu og fer með krakkana í tívolí og svo á laugardeginum reyni ég að njóta alls sem er í boði. Alltaf gaman að fara á tónleikana á laugardagskvöldinu sem endar með æðislegri flugeldasýningu. Ég hlakka mikið til og get varla beðið eftir að hátíðin hefjist,“ sagði Ania að lokum.