Bragi Guðmundsson - Báruklöpp
Bragi Guðmundsson - Báruklöpp

Fréttir

Rauði krossinn býður ungu fólki úr Grindavík á námskeið
Mánudagur 1. september 2025 kl. 10:14

Rauði krossinn býður ungu fólki úr Grindavík á námskeið

Ungu fólki úr Grindavík á aldrinum 16-25 ára býðst í haust og vetur að sækja ókeypis námskeið sem hluta af verkefninu Viðnámsþróttur Suðurnesja. Markmiðið er að efla seiglu og sjálfstraust og veita hagnýt verkfæri sem nýtast í daglegu lífi til framtíðar. Sérfræðingar Litlu Kvíðameðferðarstöðvarinnar standa að námskeiðunum og eru þau í boði Rauða krossins. Fyrirtækið Rio Tinto er styrktaraðili verkefnisins.
„Verkefnið Viðnámsþróttur Suðurnesja, sem Rauði krossinn heldur úti, snýst um að styðja íbúa svæðisins, einkum Grindvíkinga, í kjölfar þeirra áskorana sem samfélagið hefur staðið frammi fyrir,“ segir Jasmina Vajzovic Crnac, verkefnastjóri verkefnisins. „Með þessum námskeiðum fá ungmenni tækifæri til að styrkja sig, læra aðferðir til að takast á við álag og byggja upp trú á eigin getu.“
Í boði verða þrjú námskeið: HAM-fræðsla um aðferðir hugrænnar atferlismeðferðar, Hættu að fresta þar sem unnið er með frestunarvenjur og hagnýtar leiðir til að rjúfa vítahringi og Vertu þú! sem snýst um að efla sjálfsmynd og sjálfstraust.
„Við viljum styðja ungt fólk sem hefur orðið fyrir miklum breytingum og álagi undanfarið,“ segir Ellen Sif Sævarsdóttir, sálfræðingur hjá Litlu Kvíðameðferðarstöðinni. „Markmiðið er að styrkja innri seiglu, efla sjálfstraust og bjóða ungmennum öflug verkfæri til að takast á við lífið, ný tækifæri og þær áskoranir sem bíða þeirra.“
Námskeiðin verða haldin á tveimur stöðum: Í húsnæði Litlu kvíðameðferðarmiðstöðvarinnar í Síðumúla 13 í Reykjavík og í húsnæði Rauða krossins að Smiðjuvöllum 8 í Reykjanesbæ.
Skráning fer fram hjá Litlu Kvíðameðferðarstöðinni. Miðað er við að á hverju námskeiði verði að hámarki tuttugu þátttakendur.
Jasmina hvetur ungmenni til að skrá sig tímanlega.
„Þetta er einstakt tækifæri til að styrkja sjálfan sig, byggja upp trú á eigin getu og fá verkfæri sem nýtast alla ævi.“
Nánari upplýsingar um námskeiðin sem í boði eru og hvernig skal haga skráningu eru að finna á vef Rauða krossins. 
Bílakjarninn
Bílakjarninn
Reykjanes Optikk ljósan25
Reykjanes Optikk ljósan25