Flott dagskrá í Hljómahöll á Ljósanótt
Það verður heilmargt um að vera í Hljómahöll á Ljósanótt í ár. Fjölbreytt og skemmtileg dagskrá fyrir alla verður á boðstólum. Stuðið hefst í Hljómahöll fimmtudagskvöldið klukkan 20:00 þar sem KK & Mugison munu fylla Hljómahöllina af sögum, söng og sál. Langt er um liðið frá því að þeir spiluðu saman síðast í Reykjanesbæ og því alveg kominn tími á tónleika með þeim félögum.
Föstudagskvöldið er ekki síðra, klukkan 20:00 mun grínistinn og skemmtikrafturinn góðkunnugi, Pétur Jóhann, stíga á stokk og skemmta fólki í Stapa í Hljómahöll. Pétur lofar því að ef þú átt erfitt með að hlægja, þá er þessi viðburður eitthvað fyrir þig en líka fyrir þá sem eiga auðvelt með að hlægja.
Á eftir Pétri á föstudagskvöldinu, klukkan 22:30, verða eðalmennirnir og Aldamótahetjurnar Magni, Hreimur og Gunni Óla með stórtónleika. Þeir munu taka helling af þjóðhátíðarlögum, júró-lögum og öll hin frábæru dægurlögin sem þeir eiga sín á milli. Áhorfendur er hvattir til að syngja með því þetta verður alvöru partý.
Svo að lokum á laugardagskvöldinu, verður Stuðlabandið, vinsælasta ball hljómsveit landsins, ásamt Siggu Beinteins og Helga Björns með alvöru Stapaball sem hefst klukkan 23:00 og stendur fram á rauðanótt. Ball sem enginn vill láta framhjá sér fara.
Ljóst er að fjölbreytt dagskrá verður í Hljómahöll þessa Ljósanæturhelgi og ættu allir að geta fundið sér eitthvað við sitt hæfi, segir í tilkynningu frá Hljómahöll.