Flugger
Flugger

Mannlíf

„Höfum einfaldlega ekkert í höndunum til að segja fyrir um lokin á þessum atburðum“
Mikill kraftur var í eldgosinu á fyrstu klukkustundum þess. Hér er horft til eldstöðvanna úr Arnarseturshrauni. VF/Hilmar Bragi
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
mánudaginn 10. júní 2024 kl. 08:35

„Höfum einfaldlega ekkert í höndunum til að segja fyrir um lokin á þessum atburðum“

segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, um eldsumbrotin við Grindavík

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, segir í samtali við Víkurfréttir að eldsumbrotin við Grindavík séu svipuð því sem sást í Kröflueldum, bara á öðrum tímaskala. Magnús segir engin merki hafa komið fram sem benda til þess að það dragi úr innrennsli kviku að neðan. Meðan svo er, er ekkert hægt að segja til um hve lengi þessi virkni mun standa. „Gosvirkninni sem nú er búin að vera í gangi gæti hætt í sumar, en hún gæti líka staðið í ár í viðbót. Við höfum einfaldlega ekkert í höndunum til að segja fyrir um lokin á þessum atburðum.“

Hver er þín sýn á stöðuna í þessu fimmta gosi á Sundhnúkagígaröðinni?

„Nú eru liðnir sjö og hálfur mánuður síðan kvika tók að streyma að neðan undir Svartsengi. Þann 10. nóvember flæddu um 100 milljón rúmmetrar af kviku inn í ganginn sem myndaðist í þeirri miklu gliðnunarhrinu sem þá varð. Síðan hefur gosið fimm sinnum á Sundhnúkaröðinni. Gróflega metið eru komnir upp kannski 70 til 80 milljón rúmmetrar af hrauni. Gosin hafa heldur aukist með tímanum og meiri kvika komið upp í hverju þeirra. Þetta er svipað því sem sást, þó á öðrum tímaskala væri, í Kröflueldum.“   

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Sérðu þetta halda áfram á svipuðum nótum og síðasta gos?

„Þetta gos hefur hegðað sér svipað og síðasta gos, mjög öflugt í byrjun en síðan dregur hratt úr, eftir það fer hraunflæðið hægt lækkandi. Þess vegna rennur hraunið mun skemmri leið frá gígunum en var í upphafi. Hraunið byggist upp ekki langt frá gígunum. Reikna má með að þessi þróun haldi áfram. Hinsvegar er engin leið að sjá núna hve lengi þetta gos muni vara. Fyrstu vikuna hefur landið haldið áfram að síga á kvikusöfnunarsvæðinu undir Svartsengi-Eldvörpum. Það er breyting frá fyrri gosum. Ekki er þó ástæða til að leggja of mikið út af þessari hegðun, hún er algeng í eldgosum.“

Hraunið rann á talsverðum hraða vestur fyrir byggðina í Grindavík og hrauntungan stöðvaðist á svipuðum slóðum og þar sem varnar- og leiðigarðarnir vestan við bæinn enda. Myndin var tekin um kl. 19 að kvöldi 29. maí. VF/Hilmar Bragi

Hvernig sérð þú framhaldið?

„Enn sem komið er hafa engin merki komið fram sem benda til þess að það dragi úr innrennsli kviku að neðan. Meðan svo er, er ekkert hægt að segja til um hve lengi þessi virkni mun standa. Það sem við vitum er að á 13. öld urðu a.m.k. þrjú eldgos,  Illahraun, Eldvörp, Arnarsetur, á um fimmtán ára tímabili. Magn kviku sem nú er komin upp er ennþá miklu minna en varð í þessum þremur gosum. Því má búast við að virkni á svæðinu verði eitthvað viðvarandi áfram, en ómögulegt er að segja hve lengi.  Vera má að virknin í Fagradalsfjalli ætti að reiknast með. Ef við gerum það er nú komið upp u.þ.b. helmingur þess sem kom í gosunum á 13. öld. Gosvirkninni sem nú er búin að vera í gangi gæti hætt í sumar, en hún gæti líka staðið í ár í viðbót. Við höfum einfaldlega ekkert í höndunum til að segja fyrir um lokin á þessum atburðum.“

Nú hafa gosin farið stækkandi eftir því sem þeim hefur fjölgað. Við getum verið sammála um að síðasta gos hafi verið stærst/aflmest þeirra allra. Erum við að sjá breytta hegðun?

„Gosin fara heldur stækkandi og það má skýra með því að nú er sáralítil gliðnun sem tengist gosunum. Því þarf að byggjast upp meiri þrýstingur nú en í upphafi. Þess vegna verða gosin stærri. Sprengivirknin sem við höfum séð telst minni háttar og stafaði af því að hraunið fossaði ofan í sprungu sem opnaðist og komst þar í snertingu við grunnvatnið, þá er algengt að af stað fari öflug sprengivirkni þar sem hvellsuða vatnsins tætir kvikuna í sundur. En það er engin ástæða til að ætla að við fáum raunveruleg sprengigos á þessum sprungum. Það gæti gerst ef gýs í sjó, eins og má búast við þegar gýs við Reykjanes, hvenær sem það verður. Miðað við söguna er líklegra að það gerist eftir nokkra áratugi eða jafnvel aldir.“ 

Það er horft til sprungu við varnargarðinn sem myndaðist sl. laugardag og svo er hraunrennsli í átt að Grindavíkurvegi. Eru þetta helstu ógnirnar í þessu yfirstandandi gosi?

„Það er ekki útilokað að svona hraun fari eftir sprungum sem opnast, eins og sást í janúar. Bergið er brotið upp og því geta spildur milli sprungna hnikast til, eða einfaldlega sprunga sem er fyrir orðið farvegur fyrir kviku. En það er ólíklegt að svona atburðir geti valdið umtalsverðu hraunflæði.“

Hraun rennur norður fyrir Sýlingarfell og í átt að Grindavíkurvegi. Gossprungan í baksýn. VF/Ísak Finnbogason

Það var gríðarlegt magn sem kom upp á fyrstu klukkustundunum í gosinu og hraun sem náði langt vestur með byggðinni í Grindavík. Og það ferðaðist langt á stuttum tíma. Varnargarðar hafa verið að halda þessu í skefjum fram til þessa. Getur þetta ekki orðið erfiðara viðureignar ef áfram safnast upp sambærilegt magn kviku sem leitar á sömu slóðir?

„Ef við fáum endurtekin gos af sama tagi, með miklu hraunflæði fyrstu klukkustundirnar, getur hraunstafli byggst upp það mikið að lítil vörn verði í varnargörðunum. En þá er ekki annar kostur en að hækka garðana, byggja aðra garða innan við þá sem fyrir eru o.s.frv.  Hvernig þetta endar veit enginn, en það er rétt að halda baráttunni áfram, það getur forðað gríðarlegu tjóni.“

Nú hefur Grindavíkurvegur farið undir hraun á stórum kafla sunnan við Þorbjörn. Hver er skoðun þín á að leggja veg yfir nýrunnið hraun á svona stórum kafla? Ætti þetta hraun að fá að vera óraskað og skoða þyrfti aðra vegtengingu?

„Nú nýtur hraun sérstakrar verndar í náttúruverndarlögum. En þegar hraunið ógnar byggðum og verðmætum geta slík almenn ákvæði ekki ráðið, enda virðist almenn samstaða um þá nálgun á málið. Hinsvegar er kannski rétt að horfa hvort leggja beri vegi annars staðar, t.d. vestan við Þorbjörn, til að vera með öruggari vegtengingar.“