Bilakjarninn
Bilakjarninn

Mannlíf

Hestaferð um hálendið
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 4. ágúst 2025 kl. 06:55

Hestaferð um hálendið

Hestamannafélagið Brimfaxi í Grindavík fór í sína árlegu hestaferð laugardaginn 5. júlí sl. og stóð ferðin í eina viku.

Ferðin hófst á Rjúpnavöllum í Landssveit, þaðan var riðið inn á Landmannaafrétt og gist í Landmannahelli og Landmannalaugum. Síðan var haldið áfram eftir Fjallabaksleið í  Hólskjól og suður í Skaftártungu. Næst var farið vestur yfir Mýrdalssand með áningu í Hafursey og að lokum var riðið upp í Þakgil og endaði síðan ferðin á Engigarðsmýri norðvestan við Vík í Mýrdal. Farnir voru samtals yfir 200 km á þessum sjö dögum.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Ferðin gekk mjög vel fyrir utan hörmulegt slys þar sem að einn hestur slasaðist alvarlega á fyrsta náttstað. Einnig þurfti að breyta reiðleiðinni yfir Mýrdalssand þar sem að hlaup var komið í ánna Skálm, þannig að hópurinn þurfti að ríða niður að brú við Þjóðveg 1 í stað þess að fara beint yfir Mýrdalssand. Veðrið lék við bæði hesta og menn nær alla dagana.

Ferðahópurinn taldi 22 manns, þar af voru nokkrir góðir vinir Brimfaxafélaga úr öðrum hestamannafélögum. Borðaður var góður matur í ferðinni og haldið var líka upp á eitt afmæli. Þessar ferðir eru mjög mikilvægar samverustundir fyrir hestamenn í Grindavík sem eru nú með aðstöðu fyrir sína hesta í hinum ýmsu sveitarfélögum. Það er fátt sem gleður sálina jafn mikið og að vera í góðum félagsskap manna og hesta á hálendi landsins í blíðskapar veðri. 

PB