Shuttle4u
Shuttle4u

Mannlíf

Handrotaður í Þjórsárdal eftirminnilegasta minningin af verslunarmannahelgi
Teitur veiddi þennan væna lax í sumar.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 2. ágúst 2025 kl. 06:20

Handrotaður í Þjórsárdal eftirminnilegasta minningin af verslunarmannahelgi

Teitur Örlygsson þurfti að sleppa mörgum verslunarmannahelgum hér áður fyrr sökum anna við körfuknattleik, m.a. annars þegar keppt var fyrir Íslands hönd. Á unglingsárum náði hann þó að upplifa stuð og oftar en ekki í Þjórsárdal og þegar eftirminnilegasta verslunarmannahelgin var rifjuð upp, bar fyrst á góma saga af því þegar körfuknattleikskappinn var rotaður á einni útihátíðinni í Þjórsárdal. Tárin streymdu hjá blaðamanni og Teiti þegar þessi saga var rifjuð upp og fyrirsögnin fæddist!
Teitur fór einu sinni á þjóðhátíð en þá sem barn og oftar en ekki var hann staddur á Laugarvatni eða annars staðar með liðsfélögum sínum í Njarðvíkurliðinu, ásamt mökum.
Teitur hefur verið forfallinn veiðifíkill frá því að hann var gutti og undanfarin ár hefur golfbakterían náð tökum á honum líka og ef hann þyrfti að velja, yrði veiðin ofan á. Blessunarlega hefur Lísa konan hans fylgt honum eftir í báðum áhugamálum og Teitur getur varla hugsað þá hugsun til enda ef Lísa verður betri kylfingur en hann. Teitur hefur hins vegar engar áhyggjur af því að Lísa taki fram úr honum með veiðistöngina.

Fyrsta minning Teits frá verslunarmannahelgi er af þjóðhátíð.

„Mamma og pabbi fóru með okkur Gunna bróður á þjóðhátíð ´77, ég þá um tíu ára gamall en þetta var fyrsta þjóðhátíðin inni í dal eftir eldgosið. Í minningunni var þetta gaman, maður var klifrandi upp um allt og sprangandi, ég er ekki viss um að ég væri eins rólegur sem foreldri í dag eins og mínir foreldrar voru.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Þegar ég komst á unglingsaldurinn þá var miklu meira í boði en í dag, þjóðhátíðin t.d. var ekki eins stór þá eins og í dag. Straumur okkar Njarðvíkinga lá oftar en ekki í Þjórsárdal og þaðan á ég mína eftirminnilegustu minningu. Ég var að rölta mér að tjaldinu til að bæta á brúsann, man hvað ég var í góðum gír og sé hvar tveir náungar eru að slást og þar sem ekkert nema friður og kærleikur var efst í mínum huga á þessum tímapunkti, ákvað ég að reyna stilla til friðar en það gekk ekki betur en svo að ég rankaði við mér einhverju síðar, aumur í kjálkanum og flöskunni fátækari! Svo hitti ég félagana síðar þetta kvöld og þá gáfu þeir mér sopa úr flöskunni „minni.“ Bestu hljómsveitirnar voru auðvitað að spila á þessum útihátíðum, ég man eftir Bubba en eftirminnilegasta hljómsveitin var Kikk því þarna var ný söngkona kynnt til sögunnar, Sigga Beinteins. Við heyrðum og sáum að þarna var stórstjarna að fæðast.

Teitur með bræðrum sínum, skömmu áður en haldið var í Þjórsárdal árið sem kappinn var rotaður. 

Þegar ég varð eldri og var farinn að einbeita mér meira að körfunni þá fór liðið oftar en ekki saman, t.d. á Laugarvatn og þá var bæði æft og liðið ásamt mökum gerði sér glaðan dag saman. Svo fóru landsliðsverkefni að koma og oftar en ekki yfir verslunarmannahelgina.“

Veiði og golf

Teitur ólst upp við veiði og hefur verið forfallinn veiðiáhugamaður allar götur síðan. Fyrir átta árum gaf hann golfinu séns og sér ekki eftir því og ef hann þyrfti að velja á milli, myndi golfið víkja.

„Pabbi tók okkur bræðurna með sér í veiði og ég komst strax upp á lagið og hef stundað þetta frábæra sport allar götur síðan. Sem betur fer sýndi Lísa þessu áhuga og við förum alltaf í nokkrar veiðiferðir saman á hverju sumri. Ef ég á að nefna minn uppáhalds stað á Íslandi þá er það einhver hinna fjölmörgu áa sem ég hef veitt í, ég get ekki gert upp á milli þeirra. Við höfum lengi farið í frí til Flórída í Bandaríkjunum og þegar við keyrðum fram hjá fjölmörgum golfvöllum hugsaði ég alltaf með mér hvernig fólk nennti þessu! Svo ákvað ég að prófa og sú baktería heltók mig líka. Sem betur fer vildi Lísa prófa líka og það er æðislegt að eiga þessi áhugamál saman. Þar sem ég hafði fengið hana í veiðina og golfið, gat ég ekki sagt nei við hana þegar hún vildi plata mig á skíði og höfum við farið í nokkrar frábærar skíðaferðir til útlanda. Það er hárrétt hjá þér, ég er ekki góður skíðamaður og finnst í raun skemmtilegast í þessum ferðum að njóta á hótelinu og gera vel við mig í mat og drykk. Ég fer í brekkurnar á morgnana og passa mig á að fara ekki of geyst.

Lísa Einarsdóttir, eiginkona Teits.

Golfið gengur upp og niður, ég vil gjarnan ná betri tökum á þessari yndislegu íþrótt og draumurinn er að verða eins góður kylfingur og veiðimaður. Lísa mín mun aldrei verða betri með veiðistöngina en ég en ef ég fer ekki að bæta sveifluna í golfinu, gæti hún hæglega orðið betri en ég. Einhvern tíma hefði það farið fyrir brjóstið á keppnismanninum í mér en ég er að verða svo meir með hækkandi aldri, Lísa mín má alveg verða betri kylfingur en ég en hún mun aldrei ná að toppa mig með veiðistöngina.

Það eru nokkrir landsleikir á þessari mynd - ehhh, reyndar í körfuknattleik...

Sumarið hefur annars verið frábært, veðrið hefur leikið við okkur og það kætir mann alltaf. Ég hef aðeins náð að veiða og á nokkra góða túra inni síðar í sumar. Ég hef spilað hellings golf og mun gera meira, já þetta sumar skorar ansi hátt hjá mér. Ég verð í hlutverki barnapíunnar um þessa verslunarmannahelgi og geri allt eins ráð fyrir að vera bara heima. Fyrst þú spyrð hvað það mikilvægasta væri til að taka með ef ég væri að fara eitthvert um verslunarmannahelgina, þá er það góða skapið,“ sagði Teitur að lokum.

Teitur hefur nákvæmlega engar áhyggjur af því að Lísa verði betri með veiðistöngina en hann...
... en sagan segir að ekki sé langt í að hún verði betri með golfkylfuna.