Aldrei verið jafn mikið á stuttermabol
Hulda Newman, flugfreyja verður í Tenesól með sonum sínum um Verslunarmannahelgina
„Ég hef verið mjög heppin með veður í þeim ferðalögum sem ég hef farið í þetta sumarið og ég held ég hafi aldrei verið jafn mikið á stuttermabol eins og núna í sumar,“ segir Hulda Newman, flugfreyja þegar hún er spurð út í sumarið 2025.
„Þetta sumar er búið að vera yndislegt. Búin að fara á tvö fótboltamót þar sem synir mínir hafa verið að keppa, Norðurálsmótið á Akranesi og N1 mótið á Akureyri, sumarbústaðaferðir, gönguferðir í náttúrunni og nokkra Happy hour hittinga í skemmtilegum félagsskap í sólinni. Veðrið hefur spilað stóran þátt í því hvað sumarið hefur verið gott hingað til því það er allt betra og skemmtilegra í góðu veðri.“
Hvaða staðir á Íslandi hafa heillað þig?
„Í sumar er ég tvisvar búin að fara til Akureyrar í góðum félagsskap og þar hefur veðrið leikið við mig í bæði skiptin. Því mundi ég segja að Akureyri væri mest heillandi af þeim stöðum sem ég hef farið á í sumar. En að mínu mati eru mest heillandi náttúruperlur á Íslandi Stuðlagil og Kerlingafjöll.“
Hvað ætlar þú að gera um verslunarmannahelgina?
„Ég ætla að fara með syni mína til Tenerife í eina viku á uppáhalds hótelið okkar Bitacora.“
Hver er eftirminnilegasta verslunarmannahelgin þín?
„Ég mundi segja fyrsta Þjóðhátíðin í Vestmannaeyjum sem ég fór á 19 ára gömul. Þetta var það skemmtilegasta sem ég hafði upplifað á þessum tíma og fór ég í þó nokkuð mörg ár eftir það. Fór síðast árið 2011 á Þjóðhátíð og stefni á að fara aftur á næstu árum því þetta er eitthvað sem mig langar að upplifa aftur. Það er einhver óútskýranleg orka sem myndast þarna í Herjólfsdal og mæli ég með að allir upplifi Þjóðhátíð að minnsta kosti einu sinni.“
Hvað finnst þér mikilvægt að hafa um verslunarmannahelgina?
„Mikilvægt er að hafa fatnað sem hentar í allskyns veðri, því það er oft mjög ófyrirsjáanlegt hér á Íslandi. En það allra mikilvægasta er að hafa góðan og skemmtilegan félagsskap, þá klikkar ekkert,“ segir Hulda Newman.