Bilakjarninn
Bilakjarninn

Mannlíf

Er eins og innfædd Eyjameyja varðandi þjóðhátíð
Rakel í miðjunni á góðri stundu með Bjarka sínum við litla sviðið í Herjólfsdal (Tjarnarsviðið), ásamt hjónunum Eiríki Dagbjartssyni og Sólveigu Ólafsdóttur.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 1. ágúst 2025 kl. 06:15

Er eins og innfædd Eyjameyja varðandi þjóðhátíð

„Síðan ég kynntist Bjarka mínum sem er hreinræktaður Eyjapeyi, hefur þjóðhátíð verið órjúfanlegur hluti af minni verslunarmannahelgi,“ segir Grindvíkingurinn Rakel Einarsdóttir. Hún kynntist eiginmanni sínum, Eyjamanninum Bjarka Guðnasyni, skömmu fyrir þjóðhátíð 2001 og 2006 var hún flutt með honum til Vestmannaeyja, þar sem þau bjuggu til ársins 2017 þegar þau fluttu til Grindavíkur. Þau þurftu auðvitað að rýma Grindavík eins og aðrir og í dag búa þau í Hafnarfirði. Þó svo að þau hafi ekki búið í Vestmannaeyjum undanfarin ár, eru þau alltaf komin til Eyja snemma í þjóðhátíðarvikunni og taka þátt í flestum þeim hefðum sem Eyjamenn hafa búið til í kringum þessa stærstu og flottustu útihátíð Íslands. Fyrsta þjóðhátíðin var haldin árið 1874 og því fagnaði hátíðin 150 ára afmæli á síðasta ári.

Rakel hafði upplifað þjóðhátíð áður en hún kynntist Bjarka.

„Ég veit ekki hvort við Grindvíkingar erum eitthvað sér á báti en þjóðhátíð Vestmannaeyja hefur alltaf verið langvinsælasta útihátíð unglinganna í Grindavík. Ég var fimmtán ára minnir mig þegar ég fór í fyrsta skipti og kom aldrei neitt annað til greina hjá mér um verslunarmannahelgi en þjóðhátíð. Það er einhver ólýsanlegur galdur í gangi í Eyjunni fögru grænu og sérstaklega þegar þessi yndislega hátíð fer fram. Þegar ég kynntist Bjarka og Eyjafólki í kjölfarið, sá ég hversu mikil fjölskylduhátíð þetta er í raun og veru, þótt margir líti kannski á þetta sem unglingadrykkjuhátíð. Börnin í Eyjum alast upp við þjóðhátíð og taka fullan þátt í öllum undirbúningi en hann hefst hjá sumum nokkrum vikum fyrir sjálfa hátíðina.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Venjulega eru um 50-70 manns í kjötsúpu hjá Rakel og Bjarka á föstudagskvöldi á þjóðhátíð.

Hjá okkur er hefð fyrir því að smyrja nóg til að geta boðið gestum okkar í hvíta tjaldinu upp á kræsingar og ég held að nánast allir Eyjamenn eldi kjötsúpu á föstudagskvöldinu. Ég er venjulega með 50-70 manns í mat á föstudagskvöldinu og þegar ég bjó í Eyjum rak ég 66° og var að sjálfsögðu með opið alla verslunarmannahelgina, það kom sér oft vel fyrir gestina, það kom jú fyrir að það rigndi aðeins. Það var mikið að gera í aðdraganda þjóðhátíðarinnar og yfir sjálfa helgina en ég hefði ekki viljað hafa hlutina neitt öðruvísi.

Gestir Gjafar-tjaldsins verða að fá nóg að bíta og brenna.

Einu sinni var hefð hjá Eyjafólki að kapphlaup var um að ná í besta tjaldstæðið fyrir hvíta tjaldið og lá nánast við slagsmálum þegar reynt var að fá besta staðinn. Mér hefur alltaf fundist æðislegt að sjá unga sem aldna saman komna í brekkunni á kvöldin en kvölddagskráin hefst venjulega kl. 20:30 og þá skemmta ungir og gamlir sér saman. Þegar kvölddagskránni lýkur er farið heim með börnin og þeim komið í ró, svo hefst stuðið.“

Rakel í góðra vina hópi á leið í Dalinn - eða úr honum...
Brúðbúnir á setningarathöfn

Rakel þykir vænt um setningarathöfnina.

„Setningarathöfnin er í huga sumra Eyjamanna stærri hluti heldur en sjálf þjóðhátíðin. Mér þykir mjög vænt um hana og mætti alltaf og tók þátt að hætti Eyjamanna en eftir að ég byrjaði með búðina gat ég ekki mætt og hætti þá þeirri hefð og hef ekki byrjað aftur en hver veit nema maður taki upp þá skemmtilegu hefð á ný. Eyjamenn mæta í sínu fínasta pússi í Herjólfsdal, setningin fer alltaf fram innst inni í Herjólfsdal, við klett sem venjulega er kallaður „Ræðuklettur.“ Þar er blandað saman ræðum sem eru ekki of langar, tónlist hjá Lúðrasveit Vestmannaeyja og einhverjum söng. Þegar setningunni er lokið fara allir inn í sín hvítu tjöld ásamt gestum sínum þar sem boðið er upp á veisluhlaðborð með brauðtertum og öðrum kræsingum. Þetta er mjög falleg hefð sem Eyjamönnum þykir vænt um.

Eftir setninguna fer fólk og leggur lokahönd á kjötsúpuna, svo borða allir saman og á þeim tímapunkti er eftirvæntingin komin í hámark. Svo koma allir sér í Dalinn og dagskráin hefst. Ég hef mest gaman af því að vera inni í okkar hvíta tjaldi, sem við nefndum „Gjafar-tjaldið“ en Guðni tengdapabbi heitinn, átti bát með því nafni. Ég hef afskaplega gaman af því að taka á móti gestum og gæti ég trúað að nokkur hundruð manns rúlli í gegnum tjaldið okkar á hverri þjóðhátíð, við þekkjum marga og finnst gaman að taka á móti vinum okkar. Við erum alltaf með besta gítarleikarann í Dalnum inni í okkar tjaldi og er stundum ólýsanlega mikið stuð þegar tjaldið er nálægt því að rifna vegna fjölda og hávaða! Sem betur fer eru gítarleikararnir farnir að vera með magnara en einn góður Grindvíkingur stundaði það á sínum þjóðhátíðum að biðja um að fá gítarinn, byrjaði svo að syngja Stál og hníf eða Hjálpaðu mér upp, allir sungu með og hann byrjaði að spila á gítarinn án þess að kunna eitt grip, það heyrðist hvort sem er ekkert í honum, þetta var mjög fyndið. Ég hlakka mikið til að taka á móti gestum okkar í ár sem fyrr,“ sagði Rakel að lokum.

Stuðið í Gjafar-tjaldinu er oft á tíðum ævintýralegt, hér er mágkona Rakelar, Ragnheiður Guðfinna Guðnadóttir, og Grindvíkingurinn Páll Árni Pétursson á gítarnum en hann er ekki talinn einn besti gítarleikarinn í dalnum...