Bus4u býður starfsmönnum flugstöðvarinnar upp á samgöngulausn
Á flugstöðvarsvæðinu við Keflavíkurflugvelli eru þúsundir starfsmanna á vakt í hverri viku og að koma þeim til og frá vinnu er áskorun, bæði fyrir einstaklingana sjálfa og fyrir umferðina í kringum Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Bus4u hefur síðastliðið ár unnið að lausn á þessu máli í samstarfi við Isavia, Icelandair og fleiri fyrirtæki í flugstöðinni. Í dag kynnir fyrirtækið þjónustuna í blaðinu og við settumst niður með Sævari Baldurssyni framkvæmdastjóra Bus4u og fengum að heyra meira um þessa umhverfisvænu og hagkvæmu samgöngulausn.
Hvað hafið þið verið að þróa þessa lausn lengi?
Við höfum auðvitað verið að keyra fyrir Icelandair í um aldarfjórðung með góðum árangri en þetta þróunarverkefni hefur verið í gangi hjá okkur núna í um eitt ár í samstarfi við Isavia, Icelandair og fleiri fyrirtæki í flugstöðinni.
Hvernig hafa viðbrögðin verið?
Viðbrögðin hafa verið góð. Ferðirnar skipta þúsundum í hverjum mánuði og við höfum verið að sjá mikla aukningu og almenn ánægja með þessa þjónustu. Yfir háannatímann ferðast vel yfir þúsund starfsmenn til og frá flugstöðinni á hverjum degi. Það hefur auðvitað í för með sér umferðar- og bílastæðavanda. Bus4u vill bjóða upp á góða og trygga þjónustu til að koma starfsmönnum við KEF til og frá vinnu til framtíðar.
Hverjir eru helstu kúnnarnir í dag?
Helstu kúnnar þjónustunnar í dag eru starfsmenn Isavia, Icelandair, APA, SSP og Newrest. Fleiri fyrirtæki með starfsemi á KEF hafa verið að bætast í hópinn og við bjóðum starfsmenn þeirra velkomna um borð. En Icelandair og Isavia hafa drifið kerfið áfram og hafa gert við okkur samninga þannig að allir þeirra starfsmenn hafa aðgang að þjónustunni.
Hvernig virkar þetta kerfi?
Viðkomandi starfsmaður fer inn á www.shuttle4u.is og skráir sig inn í kerfið. Um er að ræða pöntunarkerfi og hægt að panta far með allt að klukkutíma fyrirvara. Kerfið er sérstaklega hugsað fyrir vaktavinnufólk þannig að viðkomandi starfsmaður getur pantað þjónustuna einn eða jafnvel fleiri mánuði fram í tímann. Bus4u tryggir síðan að starfsmaðurinn sé kominn bæði fljótt og vel í vinnu á innan við 15 mínútum. Við erum með yfir 40 stoppistöðvar víðs vegar í Reykjanesbæ þar sem starfsmenn geta stigið um borð og eru svo keyrðir upp að dyrum í flugstöðinni. Við erum einnig að vinna í lausnum fyrir starfsmenn víðar á Suðurnesjum og þá sem búsettir eru á höfuðborgarsvæðinu og vinna við KEF.
Hvað er Bus4u orðið stórt fyrirtæki?
Við erum í dag með yfir 50 rútur í rekstri og á annað hundrað starfsmenn yfir háannatímann.
Nú urðuð þið undir í útboði um Strætó í Reykjanesbæ – hefur það mikil áhrif á reksturinn?
Já - við höfum séð um almenningssamgöngur í Reykjanesbæ síðastliðin sjö ár. Þetta hefur verið stórt verkefni og gengið vel. Við tókum líka í notkun fyrstu rafmagnsstrætisvagnana á svæðinu sem reyndust okkur afar vel – bæði umhverfisvænir og hagkvæmir. En við urðum auðvitað undir í síðasta útboði sem kom okkur þónokkuð á óvart en svona eru bara hlutirnir. Ég vil nota tækifærið og þakka íbúum Reykjanesbæjar samfylgdina síðastliðin sjö ár. Við unnum reyndar útboð landsbyggðarstrætós Vegagerðarinnar á Suðurnesjum á móti sem er í raun umfangsmeira verkefni.
Hver er stefna fyrirtækisins?
Fyrirtækið stefnir að því að verða leiðandi í umhverfisvænum fólksflutningum til framtíðar. Við viljum bjóða hagkvæma og sjálfbæra samgöngulausn á svæðinu. Fólksflutningar til og frá flugstöðinni eru í dag t.d. um þriðjungur af kolefnisspori hennar. Með því að minnka notkun einkabíla er hægt að ná kolefnissporinu vel niður og einnig leysa bæði mikinn umferðar- og bílastæðavanda. Svo er þetta bara miklu þægilegra fyrir starfsmenn í KEF í öllum veðrum og vindum.