Vinnvinn
Vinnvinn

Fréttir

Hagnaður Blue minnkar um 38% og arðgreiðsla óákveðin
Magnús er formaður körfuknattleiksdeildar Keflavíkur.
Miðvikudagur 30. júlí 2025 kl. 18:12

Hagnaður Blue minnkar um 38% og arðgreiðsla óákveðin

Bílaleigan Blue Car Rental hagnaðist um 721 milljón króna á árinu 2024 en sami hagnaður árið á undan var 1.168 milljónir. Þetta gerir 38 prósenta samdrátt í hagnaði milli ára. Ársreikningur félagsins var birtur á dögunum og þar kemur fram að ekki sé búið að taka ákvörðun um arðgreiðslur en á Blue greiddi hluthöfum sínum rúman milljarð í arð á seinasta ári.

„Það sem af er ári hefur gengið vel en hver lokaniðurstaða ársins er ómögulegt að segja til um núna,“ sagði Magnús Sverrir Þorsteinsson, stærsti hluthafi Blue.

Heildartekjur Blue Car Rental námu 6.333 milljónum króna árið 2024, sem er 2,7 prósenta aukning frá árinu áður, þegar þær voru 6.168 milljónir króna. 

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Rekstrargjöld hækkuðu talsvert á milli ára, eða um 26 prósent, og námu 3.345 milljónum króna árið 2024. Hækkunin stafaði að mestu vegna aukins kostnaðar við rekstur bílaleigubíla, sem hækkaði um 68 prósent og nam alls 1,1 milljarði króna. Fjöldi starfsmanna var 92 en var 90 árið áður.

Þrír af hverjum fjórum starfsmönnum eru karlar en laun og launatengd gjöld á árinu námu 1.246 milljónum króna.

Lækkandi útleiguverð og hækkandi rekstrarkostnaður

Í skýrslu stjórnar segir að rekstur félagsins hafi gengið vel þrátt fyrir áskoranir. Þær helstu hafi verið lækkandi útleiguverð og hækkandi rekstrarkostnaður. Stjórnendur telja að vel hafi tekist að bregðast við þessum breytingum.

Einnig kemur fram að bókunarstaðan fyrir árið 2025 sé góð og að ákveðinn stöðugleiki hafi myndast á markaði eftir miklar sveiflur síðustu ára. Stjórnendur hyggjast nýta þetta tækifæri til að auka skilvirkni með því að hækka útleiguverð í takt við verðlag og draga úr rekstrar- og fjármagnskostnaði.

Sérstök áhersla var lögð á að styrkja vörumerki Blue Car Rental á bæði innlendum og erlendum mörkuðum á síðasta ári. Gert er ráð fyrir áframhaldandi vinnu í því skyni, sem styrkja á undirstöður sölu- og markaðsstarfs félagsins til lengri tíma. Einnig verður lögð aukin áhersla á að selja þjónustu í gegnum eigin bókunarrásir.

Aukin fjárfesting í bílaflota fram undan

Heildareignir félagsins voru bókfærðar á 10,3 milljarða króna í árslok 2024. Eigið fé félagsins í lok árs nam 2,1 milljarði króna. Meginhluti hlutafjár, eða 90 prósent, er í eigu M&G Fjárfestinga ehf., sem aftur er í eigu hjónanna Magnúsar Sverris Þorsteinssonar og Guðrúnar Sædal Björgvinsdóttur. Félagið Óskasteinn Þ&E ehf., í eigu Þorsteins Þorsteinssonar og Elísu Óskar Gísladóttur, á 10 prósenta hlut. Þorsteinn og Magnús Sverrir eru bræður.