Halla opnar í Smáralind og tekur við Loksins bar á Keflavíkurflugvelli
Er að opna í nýrri mathöll í Smáralind og stefnir á „pop up“ viðburði í Grindavík í haust og vetur
„Það var leitað til okkar með að taka við rekstri Loksins café & bar og við ákváðum að stökkva á það. Við tökum við 1. nóvember eins og sakir standa og opnum nýjan hjá höllu-stað, sama dag í nýrri mathöll í Smáralind,“ segir veitingakonan Halla María Svansdóttir, kennd við eigin stað, hjá höllu. Halla er Grindvíkingur, var með veitingastað þar og var nýflutt í húsnæði í iðnaðarhverfinu í Grindavík með stærra eldhúsi, þegar hamfarirnir riðu yfir bæinn. Húsnæðið gjöreyðilagðist en Halla fékk inn í Sandgerði og hefur getað starfað nánast samfellt frá rýmingunni í nóvember ´23. Hún opnaði hjá höllu á Keflavíkurflugvelli árið 2018 og stefnir á frekari landvinninga á næstunni. Hún stefnir á nokkra „pop up“ viðburði á gamla veitingastaðnum sínum í Grindavík í vetur og vonast til að geta opnað þar eins og veitingastaðurinn var opinn fyrir rýmingu, sem fyrst.
Það er ekki langt síðan tækifærið með rekstur Loksins café & bar, kom upp í hendurnar á Höllu.
„Þetta átti sér ekki langan aðdraganda, fyrri rekstraraðili vildi losna og Isavia þurfti að bregðast skjótt við og tel ég að vel hafi tekist til. Þeir rekstraraðilar sem voru fyrir tóku að sér ákveðna staði til að tryggja störf og góða þjónustu. Við tökum við rekstrinum eigi síðar en 1. nóvember og til að byrja með ætlum við ekki að breyta neinu, hvorki nafninu né nokkru öðru. Nú er bara að setja sig inn í reksturinn, kynnast starfsfólkinu og eftir það sjáum við til hvort við teljum að breytinga sé þörf. Það verður því nóg að gera hjá okkur á næstunni því við erum líka að opna nýjan hjá höllu-stað í mathöllinni í Smáralind, opnum líka 1. nóvember þar.
Sem betur fer komumst við inn í húsnæði í Sandgerði eftir að Axel í Skólamat og fjölskylda höfðu gripið okkur fyrstu vikurnar eftir hamfarirnar. Við munum sinna flugvellinum áfram frá Sandgerði en vegna plássleysis munum við líklega flytja fyrirtækjaþjónustu og baksturinn til Grindavík. Við munum vera með nokkra „pop up“ viðburði í Grindavík í vetur og auglýsa þá sérstaklega en ég geri ekki ráð fyrir að opna eins og áður var, fyrr en fleira fólk verður flutt til Grindavíkur en mér finnst nú líklegt að við verðum búin að opna alfarið næsta sumar í síðasta lagi. Það er mikill straumur ferðafólks til Grindavíkur og fullt á öllum veitingastöðum sem er frábært, það kæmi mér ekki á óvart að við bætumst inn í þá flottu flóru næsta sumar en það er nægur tími til að ákveða það. Fyrst er að taka við rekstrinum á Loksins og opna nýja staðinn í Smáralind, það verður nóg að gera á næstunni, þannig vil ég auðvitað hafa það,“ sagði Halla.