Rekstur Sandgerðishafnar gengur vel
– Tekjur umfram áætlanir og mikil umsvif tengd strandveiðum
Á fundi hafnarráðs Sandgerðishafnar nýverið var farið yfir rekstur og starfsemi hafnarinnar fyrstu fimm mánuði ársins 2025. Rekstraryfirlitið sýnir jákvæða þróun þar sem tekjur hafa reynst mun meiri en gert var ráð fyrir, bæði miðað við fjárhagsáætlun og við samanburðartímabil árið 2024.
Á fundinum kom fram að landaður afli í Sandgerði hefur aukist lítillega frá sama tíma í fyrra. Þá hefur verið sérstaklega mikill fjöldi strandveiðibáta sem landað hafa í höfninni í vor og sumar. Einstaka daga hefur fjöldi strandveiðibáta sem landa afla í höfninni farið yfir 60 talsins, sem er afar öflugur fjöldi fyrir höfn af þessari stærðargráðu.
Þrátt fyrir miklar tekjur hefur einnig fallið til töluverður viðhaldskostnaður, meðal annars vegna sjávarflóða og óveðra sem gengu yfir sl. vetur. Rekstrarstaðan í heild er engu að síður mun betri en hún var á sama tíma árið áður.
Yfirhafnarvörður fór ítarlega yfir stöðu viðhaldsverkefna sem eru í gangi og þau sem nauðsynlegt er að ljúka á næstunni, meðal annars með hliðsjón af öryggismálum.
Einnig var tekin fyrir tillaga um að veita yfirhafnarverði meðmæli til að hann fái viðurkenningu og réttindi sem hafnsögumaður. Tillagan var samþykkt samhljóða.