Bilakjarninn
Bilakjarninn

Fréttir

Nýir aðilar taka tímabundið við veitingarekstri á Keflavíkurflugvelli
Mánudagur 28. júlí 2025 kl. 09:33

Nýir aðilar taka tímabundið við veitingarekstri á Keflavíkurflugvelli

Hjá Höllu tekur við Loksins Café & Bar

Að sumri loknu mun Lagardère Travel Retail hætta starfsemi sinni á Keflavíkurflugvelli, fyrr en áætlað var. Nýir aðilar munu taka tímabundið við rekstri á mathöllinni Aðalstræti, báðum Bakað kaffihúsunum, Loksins Café & Bar, auk veitingastaðanna KEF Diner og Sbarro, meðan á undirbúningi nýrra útboða stendur.

Isavia og Lagardère Travel Retail vinna náið saman að því að tryggja hnökralausa yfirfærslu á rekstri veitingastaðanna. Tímabundnir samningar hafa þegar verið gerðir við nýja rekstraraðila, sem hafa reynslu af rekstri á flugvellinum, og munu þeir taka við rekstri staðanna eða rýmanna sem þeir eru í.
„Við væntum þess að nýir rekstraraðilar muni horfa til núverandi starfsfólks veitingastaðanna þegar kemur að ráðningum, enda býr það yfir reynslu, þjálfun og hefur öll tilskilin leyfi til að starfa á flugvellinum,“ segir  Guðmundur Daði Rúnarsson framkvæmdastjóri viðskipta- og þróunar hjá Isavia. Gert er ráð fyrir því að nýju rekstraraðilarnir taki við veitingastöðunum á næstu mánuðum, en undirbúningur að nýju útboði á veitingarekstri á flugvellinum hefst í haust.

„Við bindum vonir við að þessar breytingar muni hafa lítil áhrif á gesti flugvallarins. Tímabundnir samningar hafa þegar verið gerðir við nýja rekstraraðila fyrir veitingastaðina sem um ræðir og við væntum þess að yfirfærslan muni ganga hratt og vel fyrir sig. Allt eru þetta aðilar sem hafa reynslu af veitingarrekstri á Keflavíkurflugvelli og eru því vel kunn rekstrarumhverfinu. Eigendur veitingastaðarins Hjá Höllu, sem lengi var í Grindavík og hefur undanfarin ár verið á Keflavíkurflugvelli, munu taka við rekstri Loksins Café & Bar.  Rekstraraðilar Sbarro á Íslandi munu taka aftur við rekstri Sbarro á Keflavíkurflugvelli og eigendur Maika'i munu taka við rekstri beggja kaffihúsa Bakað. Þá mun SSP Iceland, sem reka m.a. Jómfrúna á Keflavíkurflugvelli, taka við rekstri KEF Diner og mathhallarinnar Aðalstrætis,“  segir Guðmundur Daði.

„Við erum þakklát Isavia og íslenskum samstarfsaðilum okkar fyrir samstarfið og samvinnuna þann tíma sem við höfum verið í rekstri á Keflavíkurflugvelli,“ segir Sigurður Skagfjörð Sigurðsson, forstjóri Lagardère Travel Retail Iceland. „Við munum núna leggja megináherslu á að tryggja, í samstarfi við Isavia, hnökrahlausa yfirfærslu reksturs til nýrra aðila. Markmiðið er að lágmarka áhrifin á okkar fólk og viðhalda sem bestri þjónustu á flugvellinum. Við óskum Isavia og nýju rekstraraðilunum velfarnaðar í framtíðinni  með verslunarrekstur sinn á Keflavíkurflugvelli.“
Bílakjarninn
Bílakjarninn