Landris hafið á ný í Svartsengi
Aflögunarmælingar (GNSS og InSAR) benda til þess að landris hafi hafist að nýju við Svartsengi. Um er að ræða mjög lítið landris sem mælist minna en tveir sentimetrar yfir síðastliðna viku. Næstu mælingar munu gefa skýrari mynd af þróuninni.
Veðurspá gerir ráð fyrir að gas frá gosinu, aðallega brennisteinsdíoxíð (SO₂), geti borist yfir höfuðborgarsvæðið í dag og á morgun. Mengun hefur þegar mælst í Reykjanesbæ og nágrenni. Gasmengunin getur valdið ertingu í öndunarfærum, sérstaklega hjá fólki með astma eða lungnasjúkdóma.
Að auki getur gasmengun borist frá afgösun hraunsins, ekki aðeins beint frá gígnum, og því er mikilvægt að fylgjast með þróun mengunar í rauntíma.
Veðurstofa Íslands varar ferðafólk og almenning við því að ganga út á nýstorknað eða nýlegt hraun á gosstöðvunum við Sundhnúksgígaröðina. Samkvæmt nýjum mælingum frá Eflu og Verkís heldur hraunið áfram að þykkna og hreyfast, þrátt fyrir að engin hreyfing sjáist með berum augum.
„Skorpan á hrauninu getur verið aðeins örfáir sentimetrar á þykkt og hulið glóandi, fljótandi hraun undir yfirborði. Slíkt getur verið lífshættulegt,“ segir í tilkynningu. Þá er einnig varað sérstaklega við því að dvelja nálægt hraunjöðrum, þar sem yfirborð þeirra getur brostið án fyrirvara og hrauntungur runnið fram með litlum eða engum fyrirvara.
Eldgosið við Sundhnúksgígaröðina heldur áfram með stöðugu hraunrennsli frá aðalgígnum til austurs og suðausturs. Innan í megingígnum hefur nýr gígur myndast og er eldvirknin nú bundin við hann. Litla gatið sem opnaðist vestan við gíginn í gær hefur lokast, og er því engin virkni vestan megin úr gígnum að sinni.