Gas frá eldgosinu berst yfir Voga
Upp úr miðnætti rofaði til á Reykjanesskaganum og batnaði skyggni svo aftur sást til gossins. Virkni hefur haldist nokkuð stöðug í nótt en strókavirkni hefur verið aðeins meiri síðari hluta nætur. Gat á gíg sem myndaðist síðustu nótt hefur lokast og enn gýs því bara úr einum megingíg.
Enn er vert að ítreka hættuna af því að ganga á nýlegu hrauni þar sem einungis nokkrir sentimetrar geta skilið á milli harðs hraunyfirborðsins og fljótandi hrauns.
Spáð er suðlægri átt á gosstöðvunum í dag og má því gera ráð fyrir að gas frá eldgosinu berist yfir Voga og inn á Faxaflóa.
Ekki hefur mælst mikil gasmengun í byggð í nótt, en gosmóða mældist á víða á Suðurlandi í gærkvöld.
Sjá gasdreifingarspá á heimasíðu Veðurstofunnar https://www.vedur.is/eldfjoll/ eldgos-a-reykjanesi/gasmengun/ og loftgæði á vef Umhverfis- og orkustofnunar https://loftgaedi.is