Ólafi Má og Hauki ber ekki saman
„Ef Haukur vill líta á þetta sem trúnaðarbrest þá verður hann að eiga það við sig, svona gerðum við hlutina alltaf í fyrra, ég sé ekki allan muninn á þessu núna,“ segir stjórnarmaður knattspyrnudeildar UMFG, Ólafur Már Sigurðsson. Ólafur var beðinn um að koma í meistaraflokksráð haustið 2023 og hefur unnið ötullega að framgangi knattspyrnunnar í Grindavík síðan þá og ætlar sér að gera allt sem í hans valdi stendur svo að liðið haldi sæti sínu í Lengjudeildinni.
Ólafur fór yfir hvernig verkferlarnir hafa verið innan knattspyrnudeildar.
„Svona gerðum við þetta í fyrra, þá skrifaði Haukur undir öll félagsskipti. Okkar hlutverk var að styrkja liðið en það var mjög erfitt að fá leikmenn í fyrra og því þurftum við að leita út fyrir landsteinana. Ég var mest í að finna leikmenn og Haukur skrifaði undir öll félagsskipti. Við breyttum um stefnu fyrir þetta tímabil, fengum fullt af efnilegum íslenskum leikmönnum, komum með liðið heim en gengið hefur ekki verið sem skyldi. Við höfum lekið allt af mörgum mörkum, höfum fengið 40 mörk á okkur og gaf auga leið að það þyrfti að fá varnarmann. Öll stjórnin vissi að við værum að leita að varnarmanni, þjálfarinn vildi fá þennan leikmann, ég gat samið við hann til tveggja mánuða, ég safnaði sjálfur fyrir öllum kostnaði við hann svo þetta kostar deildina ekki neitt. Ég myndi skilja ef samið hefði verið við leikmann til tveggja ára, slíkt þarf auðvitað að bera undir stjórn en sú er ekki raunin hér, það er einfaldlega verið að styrkja liðið þar sem þarf að styrkja það. Nýi leikmaðurinn er hafsent og hægri bakvörður og mun styrkja liðið í baráttunni sem framundan er. Mér þykir leitt að Haukur skuli hætta á þessum forsendum, hann var búinn að gefa út að hann myndi hætta eftir tímabilið, það hefur verið mikið álag á honum og okkur, ég sýndi ákvörðun hans fullan skilning og hefði viljað sjá hann klára tímabilið með okkur en hann tók sína ákvörðun og þar við situr,“ sagði Ólafur Már.