Bylting fyrir lögregluna í nýrri 500m2 lögreglustöð
Framkvæmdir við stækkun á húsnæði lögreglunnar á Suðurnesjum hófust nýlega með uppsetningu gámaeininga við gömlu lögreglustöðina í Keflavík.
Lögreglan á Suðurnesjum hefur verið í húsnæðisvandræðum undanfarin ár en mygla kom upp í gömlu stöðinni fyrir nokkru og þurfti að loka henni. Í gámaeiningunum sem telja um 500 m2 eru skrifstofur, viðtalsherbergi, eldhús, snyrting og fleiri rými en hægt verður að nýta hluta gömlu stöðvarinnar á neðri hæðinni.
Stefnt er að því að starfsemi hefjist í nýju viðbyggingunni í ágúst nk. en upphaflega stóð stil að nýja húsnæðið yrði tilbúið í byrjun árs. Ýmislegt í ferlinu hefur tafið það.
Að sögn Sigvalda Lárussonar, varðstjóra hjá Lögreglunni á Suðurnesjum, verður þessi nýja lögreglustöð þó hún sé ekki hugsuð til langframa, alger bylting því lögreglan hefur búið við óviðunandi húsnæði undanfarin þar sem átta starfsmenn hafa þurft að hírast í 25 fermetrum á neðri hæð gömlu stöðvarinnar en öll efri hæð hennar hefur verið dæmd ónýt vegna myglu.