Góð skemmtun í Eyjum með öskursöng í brekkunni
Sólborg Guðbrandsdóttir fór aftur til Spánar eftir tíu ára sólarlandahlé
„Gott fólk, góðan mat og óáfenga sumardrykki í tonnatali finnst mér mikilvægast að hafa um verslunarmannahelgina,“ segir Sólborg Guðbrandsdóttir, fyrrverandi blaðamaður á Víkurfréttum og framleiðandi.
„Sumarið hjá mér hefur verið samblanda af vinnutörnum og algjörri slökun inn á milli. Ég skellti mér til Spánar fyrr í mánuðinum með góðri vinkonu, eftir tíu ára sólarlandahlé, með tilheyrandi sólbruna og stuði. Oft út að borða með vinkonum, nokkur fótboltamót og nóg af knúsum frá börnunum í lífinu mínu. Svo reyni ég að nýta tímann í að rúnta aðeins út fyrir höfuðborgarsvæðið og hef kíkt á Gullfoss og Hellissand til dæmis.“
Hvaða staðir á Íslandi hafa heillað þig?
„Gullfoss kom mér nokkuð á óvart, innan um alla mannmergðina þar, en ég verð að lofsama Elliðaárdalinn aðeins sem er svo gott sem í bakgarðinum hjá mér. Þar er dásamlegt að taka göngutúra, innan um vötnin, hestana og mýflugurnar. Við Íslendingar búum í paradís en gleymum því af og til.“
Hvað ætlar þú að gera um verslunarmannahelgina?
„Verslunarmannahelgin er ennþá svolítið óráðin. Annaðhvort verður þetta að löngum rúnti til Akureyrar eða sumarbústaðahelgi með mjög mörgum frændsystkinum. Allt nákvæmlega eins og það á að vera.“
Hver er eftirminnilegasta verslunarmannahelgin þín?
„Ætli það sé ekki einhver þjóðhátíðar-heimsóknin til Vestmannaeyja. Minningarnar þaðan renna svolítið saman í eitt með árunum en ég hef alltaf skemmt mér konunglega við að öskursyngja í brekkunni og fljúga á hausinn til skiptis.“