Shuttle4u
Shuttle4u

Mannlíf

Innipúkinn á Papas um verslunarmannahelgina
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
fimmtudaginn 31. júlí 2025 kl. 15:31

Innipúkinn á Papas um verslunarmannahelgina

Papas opið um verslunarmannahelgi í fyrsta skipti í sögu staðarins

„Það var erfitt að manna verslunarmannahelgarnar hér áður fyrr svo við tókum einfaldlega ákvörðun um að hafa lokað svo það verður brotið blað um verslunarmannahelgina 2025 í sögu Papas pizza, það verður opið í fyrsta skipti í sögu staðarins,“ segir Gylfi Ísleifsson, annar eigenda Papas pizza í Grindavík. Papas pizza hóf göngu sína árið 2013 og hefur aldrei veri opið um verslunarmannahelgina fyrr en núna en talsvert aðrar aðstæður eru uppi við í Grindavík núna en fyrir hamfarirnar, bærinn er fullur af ferðamönnum sem eru ekki að eltast við íslenskar útihátíðir og veitingastaðirnir hafa allir verið fullir nánast frá morgni til kvölds. 

Gylfi og Þormar, meðeigandi hans, voru að spá í að hafa sama uppi á teningnum í ár og fyrri verslunarmannahelgar en það var einn starfsmanna hans, sem fékk hann til að breyta um skoðun.

„Starfsfólk okkar er upp til hópa dugnaðarforkar og þegar Kristólína Guðjónsdóttir hringdi í mig og spurði mig hvort við ætluðum virkilega að hafa lokað um verslunarmannahelgina, varð ég hugsi. Ég spurði hana hvort hún vildi vinna og hún hélt það nú og ég tók stöðuna á öðrum og allir vildu vinna og þ.a.l. var þetta einföld ákvörðun hjá mér. Þormar er í fríi svo ég stend vaktina, ég og fjölskylda mín ætlum að vera á gamla heimilinu okkar í Grindavík um helgina og kötturinn okkar er að koma í fyrsta skipti síðan við rýmingu árið 2023. Það hefur verið mikið að gera hjá okkur í sumar, fullt suma daga frá morgni til kvölds og ég á ekki von á öðru en erlendu ferðamennirnir boði komu sína til Grindavíkur, þau eru ekki á leiðinni á þjóðhátíð held ég. Það er margt að skoða hér í Grindavík og verður frábært að geta haft opið og vil ég hvetja Grindvíkinga og aðra gesti til að taka bíltúr til Grindavíkur um helgina, ég tek vel á móti öllum.

Bílakjarninn
Bílakjarninn
Ekki farið á útihátíð í rúm 30 ár

Gylfi ætlar að bjóða upp á innipúkann á Papas um helgina en þegar hann var ungur hefði lítið þýtt að bjóða honum upp á það, Vestmannaeyjar var venjulega staðurinn til að vera á.

„Það var alltaf mikið fjör á okkur vinunum þegar við fórum á þjóðhátíð, í minningunni fóru allir Grindvíkingar þangað og skemmtum við okkur afskaplega vel og var mikið hlegið. Það væri hægt að skrifa bók um allar sögurnar af Grindvíkingum á þjóðhátíð, ég held að við séum kannski eitthvað sér á báti, uppátæki sumra voru oft á tíðum kostuleg og þessar sögur lifa ennþá góðu lífi. Ég hef ekki farið á svona skipulagða útihátíð í rúm þrjátíu ár, get ekki sagt að mig langi eitthvað mikið en hver veit nema það muni breytast en Krissa mín hefur aldrei prófað þjóðhátíð, hver veit nema það breytist einhvern tíma. Þangað til ætla ég að sinna Papas og hlakka mikið til að taka á móti gestum um helgina,“ sagði Gylfi.