Hætta á framhlaupi hrauns og gasmengun - Nýtt hættumatskort
Eldgosið á Reykjanesskaga sem hófst 16. júlí heldur áfram af fremur stöðugum krafti. Þó hefur dregið úr strókavirkni gossins.
Gervitunglamyndir frá ICEYE, ásamt mælingum frá Verkís og Eflu, sýna að hraunbreiðan heldur áfram að þykkna, þó engar stórvægilegar breytingar hafi orðið á útbreiðslu hennar undanfarna daga. Þykknunin veldur þrýstingsuppsöfnun sem getur leitt til framhlaups við hraunjaðra. Þá getur yfirborð jaðarsins brostið án fyrirvara og glóandi hrauntunga runnið fram. Slík framhlaup eru lífshættuleg og því er brýnt að halda sig fjarri hraunjaðrinum.
Nýjustu greiningar á rennslisstefnu hraunsins, byggðar á halla landslagsins, benda til þess að hraunið gæti leitað í átt að Innri Sandhól þar sem ferðamenn hafa safnast saman.
Hættur á svæðinu
-
Lífshættulegt er að ganga á nýstorknuðu hrauni þar sem yfirborð skorpu getur brostið án fyrirvara og glóandi hraun leynst beint undir.
-
Hætta er við hraunjaðra þar sem þunnfljótandi hrauntungur geta skyndilega runnið fram. Einnig getur hraunjaðarinn hrunið fram.
-
Gasmengun getur alltaf farið yfir hættumörk í nágrenni við eldstöðina.
Staðan á eldgosinu
-
Kvikusöfnun er hafin á ný undir Svartsengi.
-
Hraunbreiðan heldur áfram að þykkna, hraunið rennur að hluta undir henni.
-
Nýtt hættumatskort gildir til 5. ágúst nema breytingar á virkni kalli á annað.