Vinnvinn
Vinnvinn

Mannlíf

Þegar einar dyr lokast opnast oft aðrar
Kjartan og Guðbjörg í bílasal K.Steinarsson í Njarðvík með Suzuki bíl öðrum megin og BYD hinum megin.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 2. ágúst 2025 kl. 06:00

Þegar einar dyr lokast opnast oft aðrar

Rafbílastuð eftir breytingar og frábærar viðtökur við BYD rafbílunu hjá K. Steinarsson.

„Það er stundum sagt að þegar einar dyr lokast opnist aðrar og það hefur gerst í okkar tilfelli. Við höfum afhent um sextíu bíla síðan í aprílmánuði. Það hefur gengið hreint ótrúlega vel með nýja tegund rafbíla,“ segir Kjartan Steinarsson, bílasali en hann og Guðbjörg Theodórsdóttir, eiginkona hans, hafa rekið K.Steinarsson bílasöluna í rúman aldarfjórðung en Kjarri var bílasali hjá öðrum í áratug áður en þau stofnuðu eigið fyrirtæki.

Kjartan við stýrið á BYD.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Eftir nokkra áratugi í bílasölu eignast menn trausta viðskiptavini og Kjartan segir að það hafi sýnt sig núna þegar hann hætti óvænt að selja fyrir Öskju en á síðasta rúma áratug hefur Kjartan og hans fólk selt mjög margar KIA bifreiðar en þessi tegund hefur verið ein af tveimur stærstu bílategundum á götunni á Suðurnesjum mörg undanfarin ár. Samleið hans og Öskju lauk í vor af ýmsum ástæðum sem verða ekki raktar hér.

Þetta er í annað sinn sem Kjartan og Guðbjörg lenda í „u-beygju“ í bílasölurekstrinum frá því þau byrjuðu 1999.  Í fyrra skiptið lentu þau í ólgusjó fljótlega eftir bankahrun þegar nýir eigendur tóku við Heklu sem K.Steinarsson var með umboð fyrir á Suðurnesjum. Þau opnuðu nýja bílasölu við Holtsgötu og tóku við umboði Öskju á Suðurnesjum. 

„Við vorum mjög heppin núna í vor þegar þessar breytingar voru að eiga sér stað en Suzuki umboðið sem við höfum selt fyrir í langan tíma var nýbúið að bæta við sig nýju bílaumboði, BYD rafmagnsbílum. „Ég vil nú bara þakka okkar tryggu viðskiptavinum fyrir en þeir hafa tekið þessari nýju bílategund frábærlega. Það hefur líka mikil áhrif að þetta eru mjög flottir og góðir bílar með mikla drægni en líka vel útbúnir,“ segir Kjartan og bætir við: „BYD kemur frá Kína og er stærsti rafbílaframleiðandi í heimi. BYD er með nýjustu tækni í batteríum, svokallaða „blade” rafhlöðu og drægnin er mjög mikil, raundrægni er yfir 500 km í stærri bílunum og yfir 420 km í þeim smærri.

Við bjóðum upp á sex gerðir af þessum bílum, BYD Dolphin sem kostar 4,6 millj. eftir orkustyrk, Atto 3 sem kostar 5,6 millj. eftir orkustyrk, Seal U sem kostar 6,6 millj. kr eftir orkustyrk, Seal sem kostar 7,6 millj. eftir orkustyrk, Sealion 7 sem er vinsælasta gerðin (fjórhjóladrifinn) og kostar um 8 milljónir kr. eftir 900 þús. kr. orkustyrk og Tang en það er stærsta gerðin, eins og stærri jeppar og kostar rúmar ellefu milljónir króna. Allir bílarnir eru mjög vel búnir í tækni og fleiru, eru mjög vel hljóðeinangraðir, rúmgóðir fyrir farþega og farangur í skotti og þá eru þeir með svokallað raddstýrikerfi. Ég held að fáir mótmæli því þó ég segi að bílarnir séu líka mjög laglegir,“ segir bílasalinn kíminn.

Kjartan segir að eftir tvö frábær bílasöluár hafi bílasala dottið mikið niður á síðasta ári.

„Ég sagði það í fyrri viðtölum í Víkurfréttum á síðustu tíu árum að það yrði aukning í rafbílum. Það hefur raungerst. Bílasala var mjög mikil árin 2022-23 en í byrjun árs 2024 tóku við nýjar reglur með vörugjöld og var því nokkuð mikið hrap í bílasölu í fyrra. Nú í ár hefur hins vegar orðið mikill kippur og bílasala tekið vel við sér og megnið í rafbílum. Þessi 900 þús. kr. rafbílastyrkur virkar vel og gengur í gegn örfáum dögum eftir bílakaup hjá fólki. Það hjálpar auðvitað til þannig að við erum bara bjartsýn á framahaldið,“ segir Kjartan.

Magnús Þórisson á Réttinum var í bílahugleiðingum og prófaði BYD. Hér fer hann í prufukeyrslu á BYD Tang, stærstu gerðinni.