Umfangsmikil verkefni í Grindavík og síbreytileg - kostnaður tæpur milljarður
„Verkefni vegna jarðelda á Suðurnesjum og öryggis almennings í og við Grindavík hafa verið umfangsmikil frá upphafi jarðhræringa 2021. Þau eru síbreytileg og í stöðugri endurskoðun. Um mitt þetta ár lauk endurskoðun á núverandi fyrirkomulagi og í framhaldi var samningi við Öryggismiðstöðina í núverandi mynd sagt upp. Þrátt fyrir að búið sé að fara í ýmsar mótvægisaðgerðir í og við Grindavík er enn töluverð óvissa á svæðinu og það undir sífelldu eftirliti,“ segir Helena Rós Sturludóttir, samskiptastjóri hjá ríkislögreglustjóra en Víkurfréttir sögðu frá því að kostnaður við eftirlit og öryggisþjónustu næmi um 50 milljónum á mánuði.
Í svari Helenu má sjá að heildarkostnaður nemur rúmum 800 milljónum króna sem skiptist svona:
Greiðslur til Öryggismiðstöðvarinnar hafa verið eftirfarandi:
Frá nóv. 2023 Um 80 milljónir króna.
2024 Um 490 milljónir króna.
2025 Um 246 milljónir króna.
Samtals gerir þetta 816 milljónir.
Tölurnar innihalda einnig leigu á búnaði og aðstöðu.
Að sögn Helenu var fyrirtækið Sigmenn fengið í upphafi inn í verkefnið vegna þekkingar og sérhæfðrar öryggis- og björgunarþjónustu. Síðar tók fyrirtækið að sér heildar öryggisumsjón í og við Grindavík með aðkomu öryggisstjóra sem hefur það hlutverk að samræma öryggisþætti í og við Grindavík.
Greiðslur til Sigmanna hafa verið eftirfarandi:
2024 Um 115 milljónir króna.
2025 Um 50 milljónir króna.
(Innsk. blm. Þegar tölurnar eru skoðaðar á Opnir reikningar, kemur í ljós að upphæðin er tæpar 129 milljónir árið 2024 og tæpar 63 milljónir á þessu ári. Heildarkostnaður við Öryggismiðstöðina og Sigmenn frá nóvember 2023, því um einn milljarður).
Öryggismiðstöð Íslands hefur séð um að manna lokunarpósta við Grindavík og aðgangsstýringu frá árslokum 2023. Eftir að lokunarpóstar voru teknir niður í lok árs 2024 sinnti fyrirtækið áframhaldandi öryggiseftirliti í og við Grindavík. Í frétt á vf.is 30. júlí var rangt farið með varðandi hver vinnuveitandi Öryggisstjóra Grindavíkur er. Það er ekki Ríkislögreglustjóri, heldur Sigmenn ehf. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum.