Bara farið á þjóðhátíð sem flytjandi
„Að syngja Þar sem hjartað slær þegar blysin eru tendruð í Dalnum á sunnudagskvöldi á þjóðhátíð, er alltaf hápunkturinn hjá mér sönglega séð á hverju kvöldi,“ segir bæjarfulltrúinn og tónlistarmaðurinn Sverrir Bergmann Magnússon. Sverrir er frá Sauðárkróki og áður en hann flutti suður lá straumur Skagfirðinga annað hvort á Síldarævintýri á Siglufirði eða á Halló Akureyri en síðan árið 2001 hefur Sverrir alltaf farið á þjóðhátíð, ekki sem venjulegur þjóðhátíðargestur, heldur sem flytjandi tónlistar.

Engin breyting verður í ár hjá Sverri en hefð hefur myndast fyrir að tónlistarhópurinn FM95BLÖ sem Sverrir er lykilmaður í, gefi út þekkt popplag fyrir þjóðhátíðina en þó hafa frumsamin lög flotið með og þannig er raunin í ár.
„Lagið er tilbúið og verður frumflutt í vikunni, frumsamið en fyrstu árin tókum við alltaf þekkt erlend popplög og settum þjóðhátíðartexta við. Það er alltaf rosalega gaman að gigga með drengjunum í FM95BLÖ, meira að segja hafa jarðskjálftamælar farið í gang þegar allur Herjólfsdalur syngur og dansar í takt við tónlistina okkar. Þetta toppar samt ekki að syngja þjóðhátíðarlagið árið 2012, Þar sem hjartað slær, þegar blysin eru tendruð uppi í brekkunni í Herjólfsdal en Eyjamennirnir bæta alltaf við blysi til marks um að enn ein þjóðhátíðin sé í gangi. Það verða því 151 blys tendruð núna ef ég fer með rétt mál en ég hef sungið þetta lag nánast samfellt á sunnudagskvöldinu árin eftir að lagið kom út.
Það er gaman að rifja upp að ég hef ekki komið á þjóðhátíð nema sem flytjandi en fyrsta árið, 2001 ef ég man rétt, kom ég sem leynigestur en það ár vann ég Söngvakeppni framhaldsskólanna með Bon Jovi-laginu Always, Án þín í mínum flutningi. Svo tók ég tvær þjóðhátíðir stuttu eftir með þáverandi hljómsveit minni, Day-sleeper, en svo var það ekki fyrr en árið 2011 að ég mætti aftur og tók Án þín með Fjallabræðrum og svo söng ég Þjóðhátíðarlagið með þeim árið 2012 og hef ekki farið annað síðan. Meira að segja í covid mætti ég á stóra sviðið og söng fyrir tómum Herjólfsdal sem var skrýtið en þá var brekkusöngnum streymt. Ég hlakka mikið til komandi þjóðhátíðar; þetta er alltaf jafn gaman og Eyjamenn eru stórkostlegt fólk.“
Síldarævintýri og Halló Akureyri
Eins og flestir vita er Sverrir frá Sauðárkróki, Skagfirðingar og aðrir nærsveitungar voru ekki mikið að arka til Vestmannaeyja þegar Sverrir var yngri, Síldarævintýrið á Siglufirði og síðar Halló Akureyri, átti sviðið en Sverrir var þó frekar seinn til, fyrst var hann bara heima hjá sér í tölvuleikjum.
„Ég var óttalegt nörd þegar ég var yngri (og er enn). Ég var bara heima í tölvuleikjum og AD&D en þegar hvolpavitið fór að láta á sér kræla var farið til Siglufjarðar á Síldarævintýri og svo á útihátíðina Halló Akureyri. Þetta var í minningunni mjög gaman en eftir að ég flutti suður tók Þjóðhátíðin í raun við, eins og ég segi, í öðru hlutverki því ég var þá alltaf að troða upp. Verslunarmannahelgarnar ´03-´11 eru ekki ofarlega í minningunni, ég var ekki að troða neins staðar upp, var ekki á þjóðhátíð og þær voru greinilega ekki eftirminnilegar fyrst ég man ekki mikið.
Ég fékk smjörþefinn af þjóðhátíð árið 2001 og eftir það hefur ekkert annað komið til greina hjá mér. Stemningin þarna er einstök og þykir mér fátt eins skemmtilegt og að vera í hvítu tjaldi í góðu gítarpartýi. Stemningin er ekki síðri en bara öðruvísi í hvítu tjöldunum á setningunni, mér þykir mjög gaman að vera í Dalnum þá og þiggja kaffiveitingar hjá einhverju góðu Eyjafólki. Ég hlakka mikið til komandi þjóðhátíðar, mér er slétt sama hvernig veðrið verður, veit að ég mun enda í góðu partýi í hvítu tjaldi og þar verður þurrt. Mín ráðlegging til þjóðhátíðargesta er að klæða sig eftir veðri, að geta frekar klætt þig úr en að þurfa bæta í,“ sagði Sverrir að lokum.