Shuttle4u
Shuttle4u

Mannlíf

Áreiðanleiki og nákvæmni eru lykilatriði
Laugardagur 2. ágúst 2025 kl. 06:05

Áreiðanleiki og nákvæmni eru lykilatriði

segir Guðbjörg María Gunnarsdóttir hjá BÓKPRO, nýrri bókhaldsstofu

Guðbjörg María Gunnarsdóttir opnaði fyrr í sumar bókhaldsstofuna Bókpro og starfrækir hana að Hafnargötu 15 í Keflavík. Guðbjörg tók nýja stefnu í lífinu þegar hún breytti um starfsvettvang eftir að hafa unnið í fjölskyldufyrirtækinu Skúlason & Jónsson um árabil.

Guðbjörg er viðurkenndur bókari með yfir tuttugu ára reynslu af bókhaldi og fjármálastjórn, bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Hún er eiginkona Jóns Péturssonar, starfsmanns hjá Reykjaneshöfn og búa þau í Keflavík.

Guðbjörg er nýbyrjuð í golfi en Víkurfréttir vildu vita meira um hana og nýstofnaða bókhaldsstofu.

Bílakjarninn
Bílakjarninn
Hvernig kom það til að þú ákvaðst að opna bókhaldsstofu?

„Það voru kaflaskil í lífi mínu þegar fjölskyldufyrirtækið Skúlason & Jónsson var selt og ákvað ég að nota reynslu mína, menntun og þekkingu, og opna bókhaldsstofu hér á Suðurnesjunum.“

Er ekki erfitt að stofna nýtt fyrirtæki og hvernig hefur gengið að afla viðskiptavina?

„Jú, það er bæði krefjandi og spennandi. Það er margt sem þarf að læra og hafa í huga, en það skiptir öllu máli að vera skipulögð og trúa á verkefnið. Viðskiptavinirnir hafa komið smám saman og ég er virkilega þakklát fyrir viðtökurnar.“

Hvað er mikilvægast í starfinu?

„Áreiðanleiki og nákvæmni eru lykilatriði – en það sem skiptir mig einnig miklu máli er að veita persónulega þjónustu.“

Við fréttum að þú værir nýbyrjuð í golfi. Hvernig gengur þér og hvað kom til að þú ákvaðst að reyna fyrir þér?

„Er rétt að byrja og finnst þetta ótrúlega skemmtilegt sport. Ein jólin gerðum við hjónin með okkur samkomulag um að ég myndi byrja í golfi og hann á skíðum. Við skelltum okkur strax á skíði en ég er loksins að nota golfsettið eftir fimm ár í geymslunni.“

Áttu möguleika á að verða betri en eiginmaðurinn?

„Ha..ha.. það má vel vera en fyrst og fremst er þetta til að hafa gaman og njóta.“

Hvað er skemmtilegast við það að búa á Suðurnesjum?

„Það er stutt í allt og hér hef ég eignast góða vini. Lífið er mun rólegra en í bænum og ekkert stress í umferðinni. Það gefur manni meiri tíma og rými fyrir lífið og fjölskylduna.“

Hvað ertu búin að gera skemmtilegt í sumar?

„Ég er búin að gera margt skemmtilegt í sumar. Við hjónin, ásamt vinafólki fórum í siglingu í Karabíska hafið, ég heimsótti Spán og er búin að njóta með fjölskyldunni og vinum.“

Hvað ætlar þú að gera um verslunarmannahelgina?

„Ég er ekki búin að ákveða það alveg  – en líklega verður þetta blanda af afslöppun, góðum mat og vonandi smá útiveru með fjölskyldunni. Kannski golfhringur eða tveir ef veðrið leyfir!“