Shuttle4u
Shuttle4u

Mannlíf

Helgi Rafn gekk á Hvannadalshnjúk og setti fótinn upp
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 2. ágúst 2025 kl. 06:25

Helgi Rafn gekk á Hvannadalshnjúk og setti fótinn upp

„Ef einhver sparkar hærra þá má viðkomandi skora á mig,“ segir Taekwondo bardagakappinn Helgi Rafn Guðmundsson en hann gekk á hæsta tind Íslands, Hvannadalshnjúk, á dögunum og þar sem hann hefur sem reglu að sparka á nýjum slóðum og hann sparkar ansi hátt upp í loftið, er ekki ólíklegt að um óopinbert Íslandsmet sé að ræða.
Mynd tekin rétt áður en lagt var í hann.

Helgi fór í þessa göngu ásamt öðrum kennurum í íþróttaskólanum NÚ en hann heyrði af hugmyndinni um síðustu áramót.

„Ég er alltaf til í að prófa eitthvað nýtt og þegar ég heyrði af þessari göngu á Hvannadalshnjúk hugsaði ég með mér, af hverju ekki? Undirbúningur hófst þá en allir kennararnir eru núverandi eða fyrrverandi íþróttamenn og í góðu formi og sjálfur hef ég alltaf verið vel á mig kominn líkamlega. Ég hafði því ekki miklar áhyggjur þegar ákvörðunin var tekin en þetta reyndist síðan erfiðara þegar á hólminn var komið. Nokkrir vinir og félagar samstarfsfólks míns komu með og einn þeirra heltist til að mynda úr lestinni og þurftum við hin að bíða eftir að einn leiðsögumannanna fór með hann til baka. Við vorum þrettán sem lögðum í hann kl. fjögur um nóttina, tólf skiluðu sér upp á tindinn um átta klukkustundum síðar. Eftir smá stopp uppi á toppnum var lagt í hann aftur niður og tók það um fimm klukkutíma. Við gistum við rætur fjallsins, það var mælt með því að keyra ekki strax heim og var það mjög góð ákvörðun held ég, það voru þreyttir ferðalangar sem lögðust á koddann þetta kvöld.

Bílakjarninn
Bílakjarninn
Hæsta spark Íslandssögunnar?

Á meðan við stoppuðum uppi á tindinum hélt ég í hefðina, það er að láta taka mynd af mér í sparki. Ég hef stundað þetta undanfarin ár, látið taka mynd af mér í sparki á stöðum sem ég heimsæki og að sjálfsögðu var smellt af mér uppi á þessum hæsta tindi Íslands. Sumir geta staðið á höndum, sumir geta farið í heljarstökk, ég get sparkað hátt upp í loftið og finnst gaman að láta taka þannig myndir af mér. Það er munur á svona sparki eða í keppni, þar reynir maður að sparka sem fastast en í svona myndatöku reynir maður að komast sem hæst. Ég held að ég eigi metið, það hefur enginn að mér vitandi sparkað hærra á Íslandi, Hvannadalshnjúkur er jú hæsti tindur Íslands og ég get sparkað mjög hátt, ef einhver vill skora mig á hólm þá tek ég þeirri áskorun fagnandi.“

Taekwondo-deild Keflavíkur fagnar 25 ára afmæli í ár

Helgi byrjaði ungur í íþróttum og hefur verið í taekwondo síðan um aldamót, Taekwondodeild Keflavíkur fagnar einmitt 25 ára afmæli á þessu ári. Félagið er eitt sterkasta taekwondo félag Íslands og hefur orðið Íslandsmeistari undanfarin þrjú ár.

„Ég ólst upp í Sandgerði, æfði boltaíþróttir en það var ekkert annað í boði þar á þeim tíma. Ég frétti svo af taekwondo og byrjaði að æfa stuttu eftir að deildin var stofnuð í Keflavík árið 2000. Ég tók strax ástfóstri við þessa íþrótt, prófaði aðrar bardagaíþróttir en hef verið á fullu í taekwondo undanfarin ár. Ég ætlaði að hætta keppni árið 2018 en læt alltaf draga mig aftur í búninginn, varð síðast Norðurlandameistari fyrir þremur árum en ég held að ég fari að segja þetta gott í keppni og einbeiti mér bara að þjálfuninni. Við stöndum mjög vel í Keflavík, höfum orðið Íslands- og bikarmeistarar undanfarin þrjú ár. Það eru um tvö hundruð iðkendur hjá okkur sem telst ansi gott. Við eigum 25 ára afmæli í haust og munum gera eitthvað stórt og flott á þessum tímamótum,“ segir Helgi.

Nýverið bætti Helgi skrautfjöður í sinn hatt, hann fékk svart belti í brasilísku Jiu Jitusu (BJJ) en hann hefur verið svartbeltingur í taekwondo í tuttugu ár. BJJ er glímuíþrótt sem er náskyld júdó og af mörgum talin sú bardagaíþrótt sem er best til sjálfsvarnar. Hvað kom til að Helgi Rafn bætti á sig þessu svarta belti?

„BJJ er bardagaíþrótt sem hefur lengi heillað mig en þessi íþrótt skaust fram á sjónarsviðið skömmu fyrir aldarmót með tilkomu UFC (Ultimate fighting championship). Þá var hugmyndin að sjá hvaða bardagalist myndi tróna á toppnum í bardagaíþróttakeppni með fáum sem engum reglum. Þrátt fyrir mikinn stærðar-, styrktar- og reynslumun, vann léttur bardagamaður úr BJJ fyrstu keppnirnar í UFC og það án þess að reiða sig á styrk eða valda andstæðingnum skaða með því að kýla eða sparka í hann. Hann sigraði með því að nota vandvirkar hreyfingar, tækni, vogarafl og nýta tækifærin sem buðust og þarna sást svo vel að bardagi er ekki eingöngu fyrir stóra og sterka einstaklinga, heldur snýst hann líka um kænsku og tækni. Þetta heillaði mig og því var ég mjög ánægður þegar Arnar Freyr Vigfússon, frumkvöðull BJJ á Íslandi, gráðaði mig en hann hefur þjálfað mig til fjölda ára. Það var gaman að rúmlega 100 manns frá hinum og þessum BJJ-félögum á landinu auk annarra bardagafélaga,mættu í Bardagahöll Reykjanesbæjar þetta laugardagskvöld og samglöddust með mér á þessum merku tímamótum á mínum ferli sem bardagamaður,“ sagði Helgi Rafn að lokum.

Lúin bein hvíld á Hvannadalshnjúki.