Hraunbreiðan virk og tjakkast upp
Þokkalegt skyggni var við gosstöðvarnar mestan hluta nætur og er virkni gossins stöðug. Eins og áður rennur hraun frá gígnum til austurs og suðausturs og breiðir helst úr sér næst gígnum til suðausturs og nyrst á hraunbreiðunni. Við minnum á að öll hraunbreiðan er virk og tjakkast upp og því er hætta á framhlaupi hvar sem er við hraunjaðarinn.
Suðvestlæg átt var við gosstöðvarnar í nótt og mælist nú brennisteinsdíoxíð í litlum mæli á höfuðborgarsvæðinu og í Hvalfirði. Í dag verður áfram suðvestlæg átt og því má gera ráð fyrir að gas berist til norðausturs í átt að höfuðborgarsvæðinu og Akranesi. Sjá gasdreifingarspá á heimasíðu Veðurstofunnar og loftgæði á vef Umhverfis- og orkustofnunar.