Shuttle4u
Shuttle4u

Fréttir

Hólmfríður og Ólafur til Voga
Mánudagur 4. ágúst 2025 kl. 08:33

Hólmfríður og Ólafur til Voga

Sveitarfélagið Vogar hefur ráðið Hólmfríði J Árnadóttur  í starf sviðsstjóra fjölskyldusviðs og Ólaf Melsteð í starf sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs. 

Hólmfríður er menntunarfræðingur með meistaragráðu í menntunarfræðum frá Háskólanum á Akureyri og viðbótarnám í kennslufræðum fullorðinna og námi og kennslu ungra barna frá Háskóla Íslands.

Hólmfríður býr yfir yfirgripsmikilli reynslu af stjórnun, kennslu og stefnumótun innan menntakerfisins og hefur gegnt fjölbreyttum stjórnunarstörfum í leik-, grunn- og háskólum. Hólmfríður hefur starfað sem leikskólastjóri í Reykjanesbæ, skólastjóri í Suðurnesjabæ og sem verkefnastjóri og deildarstjóri við Háskóla Íslands.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Hún hefur jafnframt komið að fjölmörgum umbótaverkefnum, innleiðingu farsældarlaga og unnið náið með velferðarþjónustu sveitarfélaga, sérfræðingum og stofnunum sem sinna börnum og fjölskyldum.

Sveitarfélagið Vogar hefur jafnframt ráðið Ólaf Melsted í starf sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs. Ólafur er landslagsarkitekt að mennt með MS-gráðu í landslagsarkitektúr og umhverfisskipulagsfræðum frá Universität Paderborn í Þýskalandi. Hann er einnig með MBA-gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og hefur stundað nám í mannauðsstjórnun. Þá lauk hann skrúðgarðyrkjunámi við Garðyrkjuskóla ríkisins og hefur áratugalanga reynslu af skipulags- og umhverfismálum.

Ólafur hefur m.a. starfað sem skipulagsfulltrúi hjá Faxaflóahöfnum, Mosfellsbæ og Hvalfjarðarsveit, sem framkvæmdastjóri umhverfis- og tæknisviðs Seltjarnarness og sem sérfræðingur hjá Skipulagsstofnun. Hann hefur einnig komið að kennslu og fræðslu, meðal annars sem lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands og sem brautarstjóri diplómanáms í garðyrkjutækni.

Í störfum sínum hefur Ólafur leitt fjölmörg verkefni á sviði skipulags, umhverfismats, framkvæmdaleyfa og þróunar innviða. Hann hefur setið í fjölmörgum starfshópum og nefndum um skipulagsmál og tekið virkan þátt í stefnumótun sveitarfélaga.