bygg 1170
bygg 1170

Mannlíf

Hér er allt til alls og stutt í allt
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
miðvikudaginn 23. október 2019 kl. 07:15

Hér er allt til alls og stutt í allt

„Pabbi minn flytur til Keflavíkur ásamt fjölskyldu sinni og í framhaldi af því kynnist ég kærastanum mínum honum Ásgeiri Elvari árið 2011. Ég fór í rauninni ekkert til Reykjavíkur eftir það og við byrjuðum fljótlega að búa saman,“ segir Gígja Sigríður Guðjónsdóttir, flugfreyja hjá Icelandair en hún var spurð hvernig henni þætti að búa í Reykjanesbæ sem er 25 ára á þessu ári.

Hvernig líkar þér að búa hér?

„Mér líkar ótrúlega vel að búa hérna. Við höfum bæði búið í Innri Njarðvík og Keflavík. Núna búum við í Holtahverfinu og okkur líður ótrúlega vel hér. Sjáum alls ekki fyrir okkur að fara úr hverfinu.“

Hefurðu eignast marga vini hérna?

„Ég hef eignast mjög marga vini, vinkonur og kunningja hér í bænum. Ég var svo einstaklega heppin að Ásgeir átti hóp af æskuvinkonum sem eru mér virkilega mikilvægar í dag.“

Hvernig upplifirðu bæjarstemninguna?

„Bæjarstemningin er ágæt, þó gætu auðvitað verið fleiri viðburðir hér. En það er einstaklega gaman að rölta í bænum á Ljósanótt og á þorláksmessu.“

Er gott að ala upp börn hér?

„Ég hef ekki mikla reynslu af því þar sem strákurinn okkar er aðeins átján mánaða. En við búum í rólegu og barnvænu hverfi svo ég held að það verði dásamlegt að ala upp börnin okkar hérna. Það er þó mikill ókostur hversu erfitt er að fá dagvistun og það yrði óskandi að sjá leikskóla taka inn börn undir tveggja ára í meira mæli eða jafnvel sjá stofnun ungbarnaleikskóla á svæðinu.“

Hvað finnst þér um möguleika til útivistar á Suðurnesjum?

„Möguleikarnir eru góðir, ég fer í göngu daglega um bæinn og er komin með hring sem ég fer alltaf. Einnig er ágætt að hjóla hérna en það væri gaman að sjá bæinn verða reiðhjólavænni. Svo er stutt í fullt af flottum fjallgönguleiðum á Reykjanesinu.“

Hvað finnst þér best við bæinn?

„Það sem er líklega best er hversu fljótur maður er í allt. Maður er aldrei fastur í traffík eins og í Reykjavík. Stutt í alla þjónustu sem við erum að nota.“

Hvað með verslanir, ertu dugleg versla í heimabyggð, mat, föt, sérvöru o.fl?

„Ég versla alltaf í matinn hér, í Nettó eða Krónunni. Síðan eru einstaka smávörur sem hægt er að kaupa hérna suðurfrá líka.“

Eitthvað að lokum sem þú vilt koma á framfæri?

„Þegar það kemur til tals að ég sé ekki úr Keflavík en búi hérna þá fæ ég oftar en ekki spurninguna hvernig ég gat farið úr Reykjavík? Ástæðan er einfaldlega sú að hér er allt til alls, stutt í allt, vinnan okkar er hér og skemmir ekki fyrir að húsnæðisverðið er lægra.“