Mannlíf

Góðar sögur af Suðurnesjamönnum
Dagný Maggýjar og Eyþór Sæmundsson eru umsjónarfólk hlaðvarpsins Góðar sögur. VF-mynd: pket
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 5. febrúar 2021 kl. 07:15

Góðar sögur af Suðurnesjamönnum

Hlaðvarp þar sem rætt er við Suðurnesjamenn hefur fengið góðar viðtökur

„Við erum að segja góðar sögur af Suðurnesjamönnum og erum í leiðinni að styrkja ímynd svæðisins með framtakinu. Þetta er skemmtilegt undirverkefni í því og hófst fyrir ári síðan. Við vildum sýna betri mynd af Suðurnesjamönnum og fjölbreytni mannlífsins,“ segja þau Dagný Maggýjar og Eyþór Sæmundsson hjá Markaðsstofu Reykjaness og Atvinnuþróunarfélaginu Heklunni en þau stýra hlaðvarpinu (podcast) Góðar sögur.

Eyþór segir að samhliða því að verið sé að sýna fjölbreytileikann hjá Suðurnesmamönnum sé einnig verið að skrásetja söguna með fólkinu sem hefur verið í framlínu svæðisins á margvíslegan hátt.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Víkurfréttir hafa verið duglegar að skrá söguna en við vildum líka leggja í púkkið. Við höfum tekið ítarleg viðtöl sem hafa verið allt frá hálftíma í yfir tvær klukkustundir. Vildum gefa fleirum rödd og við getum eiginlega sagt að þetta sé útvarpsstöð Suðurnesja. Okkur hefur fundist Suðurnesjamenn ekki hafa fengið nógu mikið pláss eða athygli í fjölmiðlum og vildum bæta úr því. Hlaðvarpið er einfaldur en skemmtilegur miðill. Við tökum viðtölin upp í stúdíóinu Lubba Peace sem er í gamla bænum í Keflavík og það er ánægjulegt og skemmtilegt að geta nýtt þjónustuna sem eigendur þess bjóða,“ segir Eyþór.

Dagný segir að að hafa allir þeir sem hefur verið leitað til hafi tekið vel í erindið, að koma í viðtal. „Það hefur komið skemmtilega á óvart hvað allir eru einlægir og hafa frá miklu að segja og gera það á sinn hátt. Við erum komin langleiðina í tuttugu þætti og ætlum að halda áfram. Suðurnesjamenn eru bestu sendiherrar svæðisins og þeir fara áfram með orðsporið,“ segir Dagný.

„Hlaðvarpið er skemmtilegur miðill. Það er hægt að hlusta hvenær og hvar sem er. Gróskan er mikil í þessum geira. Við höfum fengið ótrúlega góðar sögur og kannski ekki bara góðar sögur því margir hafa sagt okkur í spjallinu frá til dæmis ýmsum erfiðleikum sem þeir hafa mætt á lífsleiðinni. Eftir viðtöl hafa margir sagt að þetta væri eins og sálfræðiþerapía og hreinlega gleymt sér í spjallinu. Kafað lengst inn í sig og sagt frá mörgu sem þeir hafa lent í. Það hefur verið mjög skemmtilegt og áhugavert. Við fáum fullt af sögum sem engir hafa heyrt. Við hvetjum bara Suðurnesjamenn og alla til að fylgjast með og deila áfram á samfélagsmiðlum,“ sögðu þau Dagný og Eyþór.