Mannlíf

Glíma Daða við gredduna
Sólborg Guðbrandsdóttir
Sólborg Guðbrandsdóttir skrifar
föstudaginn 6. desember 2019 kl. 10:08

Glíma Daða við gredduna

Ný bók eftir kynfræðinginn Siggu Dögg

Daði er nýjasta afkvæmi Siggu Daggar kynfræðings. Sagan um Daða fjallar um ungan gaur sem glímir við ástina, ástarsorg, sjálfsmyndina og gredduna. Daði spilar sig svalan fyrir félögunum og stelpunni sem hann er skotinn í en undir yfirborðinu krauma mótsagnakenndar tilfinningar sem Daði reynir að átta sig á og vinna úr. Bókin byggir á algengum spurningum og umræðum drengja úr kynfræðslu Siggu Daggar um land allt undanfarin tíu ár. Daði er sjálfstætt framhald bókarinnar kynVeru sem kom út árið 2018.

Það er algengt að nota dæmisögur í kynfræðslu en í bókinni um Daða er það form tekið lengra. „Hér tvinnar höfundur saman raunveruleika íslenskra drengja og kynfræðslu í eina sögu þar sem lesandinn nær að spegla sig í persónunum en einnig að fræðast um tilfinningar, samskipti, kynhneigð og eigin kynveru,“ segir í kynningu á bókinni. Sólborg Guðbrandsdóttir ræddi við Siggu Dögg um Daða.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Hver er Daði?
Daði er gaur sem við kynnumst í fyrstu bókinni sem heitir kynVera. Daði er sjálfstætt framhald af henni. Daði er svona draumagaurinn hennar Veru. Hún er æðislega skotin í honum. Hann er svolítill spaði, hann spilar svolítinn töffara og er flott týpa og hann er reynslumeiri. Vera kemur inn í þetta og veit ekki neitt. En svo enda hlutirnir ekkert voða vel á milli Daða og Veru og núna í Daða, þá eru fimm mánuðir liðnir frá því að allt fór í háaloft hjá þeim og Daði er bara svolítið krumpaður. Hann er í ástarsorg, á erfitt með að ná honum upp, hann á kærustu og hann hefur ekki einu sinni viljað fróa sér því hann er svo miður sín. Þannig að hann á hérna nýja kærustu og er að reyna að keyra allt í gang og átta sig á lífinu og tilverunni. Vinur hans, sem spilar sig líka sem algjöran spaða er líka allt í einu í ástarsorg og þeir tveir eru að reyna að finna út úr þessu, hvernig það sé að vera gaur í þessum aðstæðum og hvað þeir megi ræða án þess að fara yfir mörkin hjá hvorum öðrum og hvernig þeir megi ræða það. Við erum svolítið í samtölum og upplifunum og það er svolítið Daði, hann að reyna að sætta sig við sjálfan sig, skilja sjálfan sig og að reyna að halda áfram.

Fyrir hverja er þessi bók skrifuð?  Er hún aðallega fyrir unga stráka?

Þetta er unglingamiðuð bók þannig að hún er hugsuð fyrir ungt fólk. Ég held samt að það hafi allir gott af því að lesa hana. Hún er hugsuð þvert á kyn og kynhneigð því hún er bara um það að vera manneskja og elska og að reyna að finna einhvern til að elska mann til baka. Ég held það sé samt gott að setja þetta í þennan strákabúning. Það er mikilvægt að hafa Daða sem gaur því það er önnur menning þar. Það er annað sem birtist þeim og það eru aðrar kröfur og áherslur. Ég vil náttúrlega að fólk lesi báðar bækurnar. Þegar ég gaf út kynVeru þá hélt fólk að hún væri stelpubók fyrir stelpur af því hún fjallaði um stelpu. En hún fjallar bara um það sjónarhorn. Þetta fjallar bara um samskipti, ástina og kynlíf. Það á við um alla. Mér finnst þær svolítið góðar saman.

Þannig að stelpur geta líka lært eitthvað af þessari bók?

Já og ég held það sé bara nauðsynlegt að setja sig inn í þessar upplifanir með typpin og þeirra menningu sem maður stendur oft fyrir utan og skilur ekki alveg. Þarna færðu svolítið að fara inn í hausinn á þeim. Bókin byggir á nafnlausum spurningum sem ég hef fengið í kynfræðslu og samræðum sem ég hef átt við stráka og bara strákana í kringum mig. Ég kafa mjög djúpt í heim karlmanna því þeir eru bara allt um kring, ég er með þá stöðugt í fræðslu og ég vildi að það myndi endurspeglast í bókinni.

Hverjar eru algengustu spurningarnar sem þú færð frá ungum strákum í kynfræðslu?

Þeir spyrja öðruvísi en stelpurnar. Þeir spyrja hvort það sé hægt að ofrunka sér, hvort að of mikill unaður sé hættulegur og þeim finnst gaman að vita um takmarkanir líkamans, jafnvel um einhverja kynlífstækni og eitthvað sem er skrýtið eða afbrigðilegt. Þeir elska svoleiðis. Stelpurnar eru meira að spyrja um sársauka og óþægindi og skilja ekki alveg allt þetta sjálfsfróunartal í strákunum. Það þarf ekki að vera svona mikil gjá á milli þeirra. Við verðum að reyna að búa þetta bil.

Þú ert á fullu þessa dagana að lesa upp úr bókinni þinni fyrir fólk. Hvernig hefur það gengið og hvernig eru viðtökurnar?

Það hefur gengið svakalega vel. Fólk er mikið að velta því fyrir sér hvort það virki að lesa fyrir unglinga en mín reynsla er sú að það verður bara grafarþögn, það má heyra saumnál detta og þau jafnvel halda niðri í sér andanum. Svo eru þau jafnvel farin að halda með sögupersónunum. Það er ótrúlega gaman að þau nái að tengjast inn í þetta. Mér finnst fólk mjög jákvætt og foreldrar eru oft að rifja upp hluti sem þeir upplifðu á sínum unglingsárum en voru búnir að gleyma. Það er líka ógeðslega gaman að lesa fyrir fullorðna því þeir skríkja og hlæja. Það brýtur líka ísinn fyrir þau að leyfa þeim að slaka á.

Hvernig vandamál situr Daði upp með?

Elsku Daði okkar lendir í því í samförum að litla reðurhaftið aftan á kóngnum slitnar og það kemur blóð út um allt og hann skilur ekkert hvað er í gangi. Svo er hann svolítið seinn sem unglingur að framleiða sæði. Hann er svona seinastur í vinahópnum og það er svolítið vandræðalegt. Svo er typpið hans ekkert rosalega stórt. Hann væri alveg til í að hafa það aðeins stærra og þegar kærastan mælir það og segir: „Þú ert meðalmaður í miðjunni á meðaltalinu,“ þá líður honum ekkert rosalega vel í hjartanu með það. Hann er svolítið vandræðalegur með að nálgast það hvað hann eigi að gera og kunna. Hann lendir til dæmis í því að stelpa fer yfir hans mörk. Hann greinist með klamydíu og mamma hans opnar bréfið og tekur á móti honum úr skólanum. Það er til dæmis eitthvað sem kemur úr mínum unglingsárum. Ég átti vinkonu og mamma hennar beið eftir henni þegar hún kom heim úr skólanum og sat með bréfið. Ég man svo vel eftir þessu. Daði, elsku karlinn okkar, lendir í ýmsum uppákomum sem margir hafa lent í og eru ofboðslega algengar. Ég læt hann lenda í alls konar. Daði spilar sig eins og hann hafi verið með ógeðslega mörgum píum og viti allt og kunni allt í þessari karlmennskumenningu.

„Ég er búin að fá svo mörg skilaboð frá ungu fólki sem segja hana hafa hreyft svo við sér, því það hefur ekki verið neitt svona“

Passar þessi bók vel í jólapakkann?

kynVera var náttúrlega jólabókin í fyrra. Ég vona að þetta verði jólabókin í ár. Mér finnst þetta frábær leið til að eyða jóladegi í kósý með heitt súkkulaði að lesa. Ég er búin að fá svo mörg skilaboð frá ungu fólki sem segja hana hafa hreyft svo við sér, því það hefur ekki verið neitt svona. Þau vilja fá að fræðast meira. Við þurfum að dýpka umræðuna og nýta öll verkfæri sem til eru til að koma skilaboðunum áfram og breyta þannig menningunni, því hún er ekki alveg að virka fyrir okkur.

Hvað er um að vera hjá þér fram að jólum?

Skólar detta í upplestrargírinn í kringum jólin. Ég verð með bókina út um allt að lesa upp. Ég verð mest í því og vinnustaðaskemmtunum.

Hvar er hægt að  nálgast bókina?

Í öllum verslunum Eymundsson og svo er hægt að panta hana hjá mér.