Sandgerðisdagar
Sandgerðisdagar

Mannlíf

  • Gleði og persónuleiki í einstökum munum
    Hjónin í vinnustofu sinni þar sem Karólína og Pálína dætur þeirra er einnig með sitt leiksvæði.
  • Gleði og persónuleiki í einstökum munum
Laugardagur 25. mars 2017 kl. 09:00

Gleði og persónuleiki í einstökum munum

Hjónin Ninna og Pálmi skapa fallegar handunnar vörur með aldagamalli aðferð

Hjónin Ninna Stefánsdóttir og Pálmi Ketilsson hafa hreiðrað um sig í hjarta Keflavíkur þar sem þau dunda sér við að skapa fallega húsmuni auk þess að leggja stund á viðskiptafræðinám og sinna dætrum sínum tveimur. Þau leggja áherslu á einstakar vörur sem þau búa sjálf til. Þau voru að leita eftir fallegu veggskrauti þegar hugmyndin kviknaði um að skapa sjálf. Úr varð vefverslunin MARR eftir mikla undirbúningsvinnu og lítinn svefn þar sem vörurnar eru unnar eftir aldagamalli hnýtingaraðferð.

Það leynir sér ekki að hjónin eru ástríðufull fyrir verkum sínum og full af hugmyndum. Þetta byrjaði allt með Ninnu. Til stóð að versla fallegt vegghengi fyrir ofan hjónarúmið. Þau voru búin að skoða mikið af fallegum vegghengjum á erlendum vefsíðum sem voru dýr og sendingarkostnaður mikill. Það lá því beinast við að bjarga sér og læra að gera svona hengi sjálf. Áður en Ninna gat byrjað að gera vegghengið æfði hún sig mikið á blómahengjum og í um tvo mánuði sofnaði hún á hverju kvöldi út frá kennslumyndböndum um „macramé“ aðferðina. „Það var síðan í lok síðasta árs sem hugmyndin að hillunum kviknaði eftir að við höfðum velt því fyrir okkur hvernig hillu við gætum fengið okkur inn í eldhús.“ Þau keyptu hilluefni og byrjuðu að hnýta saman „macramé“ hillu. „Það átti eftir að vera töluvert meira mál en Ninna hafði ímyndað sér í fyrstu en þegar fyrsta hillan var svo tilbúin eyddum við dágóðum tíma í að horfa á hana, bæði jafn hissa á því hversu vel tókst til,“ segir Pálmi.


Í framhaldinu gerðu þau fleiri hillur en ein þeirra fór inn á heimilið hjá bróður Ninnu. Það má eiginlega segja að Íris mágkona Ninnu hafi hvatt skötuhjúin til þess að einfaldlega kýla á þetta. „Þarna fundum við hversu dýrmætt það er að hafa fólk í kringum sig sem hefur trú á manni og hvetur mann áfram. Við reynum alltaf að vera dugleg að hvetja hvort annað áfram í því sem við tökum okkur fyrir hendur en þarna þurftum við á þessari utanaðkomandi hvatningu að halda til að ýta við okkur,“ segir Ninna.

Í fyrstu var það Ninna sem var allt í öllu. Eftir að það fór að vera meira að gera og fleira sem þarf að huga að líkt og heimasíðan, ferðir á pósthús og annað að þá hefur Pálmi komið sterkur inn. „Það fer mikill tími í að búa vörurnar til svo það er dýrmætt að geta hjálpast að. Pálmi er nú samt orðinn ansi góður með skærin og gerir líka mjög fallegar hnýttar lyklakippur sem fylgja öllum pöntunum,“ segir Ninna. Pálmi er að klára BS ritgerð en Ninna er í mastersnámi en bæði eru þau í viðskiptafræði.

Andstæðan við fjöldaframleiðslu

„Viðtökurnar hafa verið langt fram úr okkar vonum. Maður er eitthvað svo berskjaldaður þegar maður fer að sýna fólki vörurnar sínar. Tilhugsunin um að búa til fallegar vörur og selja var svo miklu notalegri þegar maður var ekki farinn að sýna vörurnar,“ segir Ninna en vörurnar hafa vakið nokkra athygli að undanförnu. „Svana (Svart á Hvítu) hjá Trendnet fékk vegghengi frá okkur að gjöf sem hún kallaði vegghengi drauma sinna. Það gerist varla betra en það. Það er ótrúlega gaman að vita af vörum frá okkur inni á svona fallegum heimilum.“


Hjónin stefna á að halda sig við þessa persónulegu framleiðslu og gleðja þannig viðskiptavini sína. „Við viljum búa til einstaka hluti sem gleðja. Við höfum fengið þá spurningu hvort við ætlum ekki að láta framleiða vörurnar okkar erlendis í framtíðinni og stækka fyrirtækið. Okkar viðskiptamódel gengur einmitt út á hið þveröfuga. Við viljum bjóða fólki upp á einstakar handgerðar vörur. Vörur sem hægt er að segja með vissu að Ninna og Pálmi hafi búið til frá grunni í Keflavík,“ segja hjónin en þau búa í miðbæ Keflavíkur þar sem þau eru með vinnustofu.


 


Aldagömul aðferð notuð við vörurnar

Macramé er aðferð sem er aldagömul og er talin vera upphaflega frá Frakklandi. Þessi aðferð er þó þekkt um allan heim og kannast flestir við vegghengi og blómahengi sem hnýtt eru með þessari aðferð. Sjómenn hafa líka mikið notað þessar aðferðir í netagerðinni.

Eins og er bjóða MARR hjónin upp á tvær gerðir af hillum sem hægt er að fá í nokkrum stærðum, blómahengi og svo vegghengi. „Vegghengin eru fjölbreytt þó vissulega séum við með nokkrar staðlaðar útgáfur. Við leggjum mikið upp úr því að vörurnar séu einstakar og því kemur stór hluti vegghengjanna í takmörkuðu upplagi. Í framtíðinni sjáum við svo fyrir okkur að auka vöruúrvalið enn frekar en sú vinna er nú þegar hafin. Með vorinu mun svo MARR teymið stækka og bæta við sig bæði smið og hugmyndaríkum fagurkera. Það mun auka vöruþróunina frekar og gera vinnuna enn skemmtilegri.“

 

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs