Mannlíf

Fluttu til Manhattan í miðjum heimsfaraldri
Sólborg Guðbrandsdóttir
Sólborg Guðbrandsdóttir skrifar
laugardaginn 17. júlí 2021 kl. 06:09

Fluttu til Manhattan í miðjum heimsfaraldri

Hjónin Lovísa Falsdóttir og Gunnar Þorsteinsson létu slag standa og fluttu til Manhattan í New York-fylki í Bandaríkjunum í byrjun árs með börnin sín tvö. Ástæðan að baki flutninganna var framhaldsnám Gunnars en hann stundar nú nám í orkuverkfræði við Columbia-háskólann. Heimsfaraldurinn setti strik í reikninginn hjá fjölskyldunni sem  flutti út hálfu ári síðar en til stóð í upphafi. Þetta hálfa ár hefur, að sögn Lovísu, verið mjög krefjandi en fjölskyldan reynir að leggja áherslu á það að njóta hvers dags.

Landið lokað fyrir ferðamenn

„Við vissum að þetta yrði krefjandi en höfðum ekki alveg búið okkur undir heimsfaraldur ofan á allt saman. Við erum svo heppin að eiga svakalega gott bakland heima sem við vissum að yrði duglegt að heimsækja okkur og því stíluðum við inn á að vera bara einu stuttu flugi frá Íslandi,“ segir Lovísa en Covid hafði það í för með sér að Bandaríkjamenn lokuðu landamærunum og ferðamönnum þar af leiðandi ekki hleypt inn. Fjölskylda þeirra hefur því ekki enn geta heimsótt New York.
„Flóki, eldri strákurinn okkar, var rétt rúmlega tveggja ára og Marel fimm vikna þegar við lögðum í hann í janúar. Það hefur verið mjög krefjandi að flytja á milli heimsálfa með tvö lítil börn á tímum heimsfaraldurs,“ bætir hún við.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Fjögurra daga gömul fyrirsæta

Flutningarnir gengu þó ekki snurðulaust fyrir sig þar sem erfitt reyndist að sækja um landvistarleyfi fyrir þá ófæddan Marel. „Ekki nóg með það að hann fæddist stuttu fyrir brottför heldur fæddist hann einnig rétt eftir kosningar í Bandaríkjunum og rétt fyrir jól. Tímasetningin var því einstaklega óheppileg. Þar að auki var bandaríska sendiráðið að flytja á milli húsnæða og enginn laus tími í visa-viðtal fyrir hann fyrr en eftir áætlaða brottför.“ Öll fjölskyldan var því með landvistarleyfi nema nokkurra vikna gamli Marel sem fékk þó leyfið að lokum og fína passamynd af sér fjögurra daga gamall.

Íslenska símanúmerið til vandræða

Á leiðinni til Bandaríkjanna þurfti fjölskyldan að millilenda í Boston en mætti svo í sóttkví í tóma, ískalda íbúð í Manhattan. Að sögn Lovísu gekk á ýmsu fyrstu dagana. „Eins og sannir Skandinavar keyptum við húsgögn, rúmin og allt það helsta í eldhúsið frá IKEA og skipulögðum það þannig að sendingin kæmi sama dag og við lentum í New York. Skipulagið reyndist of gott til að vera satt og sendingin kom ekki við hjá okkur vegna þess að sendlarnir náðu ekki í okkur í íslenska símanúmerið. Við enduðum á því að sofa nokkrar nætur þrjú saman á lítilli vindsæng með Marel í vagninum.“

Í dag reynir fjölskyldan að halda rútínu, þ.e. eins mikilli og hægt er með tvö ung börn og „vansvefta foreldra“. „Vegna þess að við seinkuðum flutningunum þá náði Flóki fjórum mánuðum á Garðaseli síðasta haust og var bæði í boltaskólanum hjá Agga og Svövu og í fimleikatímum. Það voru því mikil viðbrigði fyrir hann að vera aftur með mömmu sinni allan daginn eins og hann var áður en hann byrjaði á leikskólanum og nú á nýjum stað með nýjan lítinn bróður áfastan mömmu sinni.“


Bræðurnir Flóki og Marel.

Nutu mannlauss Times Square

Mikið er um að vera í borginni í venjulegu árferði en raunveruleikinn hefur verið annar síðustu misseri. „Í jákvæðniskasti, þegar ákvörðunin um að flytja var tekin, hugsaði ég að það væri skemmtilegt í sögulegum skilningi að upplifa borgina svona tóma, geta farið með strákana á staði sem við hefðum annars ekki treyst okkur á vegna mannmergðar. Við gátum til dæmis farið með strákana á Times Square þar sem varla var sála. Flóki fékk meira að segja að losna úr kerrunni svo hann hljóp þar um og dáðist að öllum ljósunum – en eins er mjög skemmtilegt að upplifa borgina lifna við að nýju núna.“


Mæðginin saman á Times Square.

Á hefðbundnum degi stundar Gunnar nám sitt og á meðan eru leikvellirnir í hverfinu vel nýttir af öðrum fjölskyldumeðlimum. „Við búum nokkrum mínútum frá Central Park og eyðum miklum tíma þar. Þar er að finna 21 afgirta leikvelli og á þessu hálfa ári erum við búin að heimsækja tuttugu þeirra. Flóki elskar að fara í garðinn því þar fær hann að ganga frjáls um, annað en nálægt götunum. Ef veður leyfir þá eyðum við öllum deginum úti við.“

Kerfislæg kynþáttamismunum í hverfinu

Aðspurð hvað hafi komið sér á óvart við það að flytja í aðra menningu, jafn frábrugðinni þeirri íslensku og raun ber vitni, segir Lovísa það einna helst tvennt. „Hið fyrra og öllu léttvægara er hversu ljúft það er að þurfa ekki að eiga bíl þótt við séum með börn. Hitt er gjáin milli kynþátta. Ég hélt ég fengi ekki menningarsjokk þar sem ég hef áður búið í Bandaríkjunum og mikið verið í borginni en lífsgæði og skörp skipting kynþátta milli íbúðahverfa kom okkur verulega á óvart,“ segir hún en fjölskyldan býr á hverfamörkum Harlem og Upper West Side. „Hér sjáum við skýrt hvernig kerfislæg kynþáttamismunun fær enn að þrífast, t.d. eru tvær næstu lögreglustöðvarnar við okkur staðsettar alveg ofan í húsnæðiskjarna fyrir efnaminna fólk, sem nær allt er dökkt á hörund – en það er ekkert sem við finnum fyrir á eigin skinni vegna forréttinda okkar að vera hvítir, evrópskir innflytjendur í Bandaríkjunum.“

Þau Lovísa og Gunnar þykja hins vegar ungir foreldrar í New York. „Nær allir okkar vinir heima á Íslandi eru komnir með börn líkt og við en Gunnar er að öllum líkindum eini faðirinn innan deildarinnar í skólanum. Það sýnir kannski svart á hvítu hversu rugluð við erum að leggja í þetta með tvö börn,“ segir Lovísa.

Hvað tekur við eftir námið er óljóst enn sem komið er. „Sama hvar við lendum þá reynum við að halda í gömlu, góðu klisjuna að njóta hvers dags, því tíminn líður svo ótrúlega hratt.“