Aðalskoðun 30 - 5 okt
Aðalskoðun 30 - 5 okt

Mannlíf

Fljótur að segja já við flutningum til útlanda
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
laugardaginn 16. maí 2020 kl. 16:00

Fljótur að segja já við flutningum til útlanda

Eyþór Atli Einarsson er búsettur ásamt eiginkonu sinni, Írisi Dögg Pétursdóttur, og þremur sonum, Nökkva Degi, Bjarka Leó og Mikael Darra, í Falkenberg í Svíþjóð. Bærinn er staðsettur um 100 km suður af Gautaborg. Þar býr fjölskyldan í sænsku timburhúsi sem sem Eyþór segir að sé ansi líkt því sem hann ólst upp í í Eyjabyggðinni í Grindavík. Eyþór starfar sem kennari í unglingadeild ásamt því að þjálfa knattspyrnulið sem spilar í einni af mörgum sjöttu deildum Hallandshéraðs/-sýslu í Svíþjóð. Fjölskyldan flutti út sumarið 2014 og er því búin að búa úti í næstum sex ár.

Hér má lesa viðtalið í Víkurfréttum - smellið hér!

– Hvernig stóð á því að þú fluttir til útlanda?

„Það má segja að margir litlir hlutir hafi haft áhrif á ákvörðun okkar að flytja út. Efnahagslega var oft basl þrátt fyrir að við bæði værum í ágætis störfum, oft fleiri en einu og jafnvel fleiri en tveimur, en kennaralaunin dugðu ansi skammt og lánin á litlu íbúðinni okkar í Breiðholtinu ruku upp úr öllu valdi.

Okkur langaði að breyta aðeins til og hafði ég nokkrum sinnum fengið tilboð að flytja út til Noregs eða Svíþjóðar og spila fótbolta eftir að sá elsti fæddist en Íris var ekki alveg á þeim nótunum þá. Þegar hún síðan bar upp hugmyndina að flytja út var ég fljótur að samþykkja það og eftir smá umræður varð Svíþjóð fyrir valinu. Ég skráði mig í nám í hugbúnaðarverkfræði við Gautaborgarháskóla og stefnan var að koma sér úr kennarastarfinu og gera eitthvað annað. Það hefur gengið svona glymrandi vel þar sem ég er aftur kominn í kennarastarfið.

Önnur ástæða flutninganna var svo sú að Nökkvi Dagur, elsti sonur okkar, er einhverfur og hann átti erfiða tíma í leikskóla sem við sáum að myndu fylgja honum þegar hann byrjaði í grunnskóla. Við vildum gefa honum möguleika á að byrja aftur með hreinan skjöld í skóla þar sem ekki væri búið að mála myrkustu myndina af honum áður en hann hæfi sína skólagöngu. Hvort sú ákvörðun hafi verið rétt veit maður svo sem ekki en einn skólasálfræðingur í skóla sem ég starfaði við í Gautaborg sagði eitt sinn við mig þegar ég ræddi þetta við hann: „Eyþór þú hefðir átt að flytja til Danmerkur.“

Auðveld ákvörðum að flytja út

– Var erfið ákvörðun að söðla um og flytja til Svíþjóðar?
„Að vissu leyti var ákvörðunin ansi auðveld. Auðvitað var það smá mál að flytja út með tvo litla drengi og Íris kasólétt af þriðja hermanninum. Örugglega einhverjir sem töldu okkur kolrugluð að vera að standa í þessu á þeim tímapunkti. Frá því að ákvörðunin var tekin var þetta engu að síður ansi fljótt að gerast og lítill sem enginn efi hjá okkur um að þetta hafi verið rétt ákvörðun.“

– Hefurðu alltaf búið á sömu slóðum?
„Það má segja það. Við höfum verið hér á vesturströndinni öll árin. Byrjuðum í Gautaborg á meðan ég menntaði mig í öðru en þegar leigusalinn okkar þar ákvað að selja húsið sem við bjuggum í vildum við kaupa húsnæði svo við yrðum ekki í endalausum flutningum og að raska öllu í kringum drengina og þá kannski helst þennan elsta sem á nokkuð erfitt með breytingar. Að kaupa húsnæði í Gautaborg var svolítið eins og að kaupa hús í miðborg Reykjavíkur, verðið var gífurlega hátt. Við skoðuðum okkur um í bæjunum sem liggja sunnan Gautaborgar og leist vel á okkur í Falkenberg þar sem við búum í smá úthverfi sem heitir Skogstorp og er ekki ósvipað Grindavíkinni góðu, bara aðeins minna.“

– Hverjir eru helstu kostir þess að búa þar sem þú býrð?

„Ég myndi segja að helstu kostirnir séu að þrátt fyrir að kennaralaunin séu ekki há hér þá er engu að síður hægt að ná endum saman og kaupmátturinn er að einhverju mun meiri en á Íslandi. Veðrið er líka voðalega gott yfir sumarið og við erum ekki nema tíu mínútur að hjóla niður á strönd. Síðan er nokkuð fínt að hér á vesturströndinni blæs nokkuð sem minnir óneitanlega á heimahagana.“

Menningin í Svíþjóð svipuð

– Er eitthvað framandi sem hefur komið þér á óvart þar sem þú býrð núna?

„Menningin í Svíþjóð er að mörgu leyti mjög svipuð þeirri á Íslandi. Það má engu að síður segja að múslimskar hefðir hafi fest rætur hér sem ekki er ekki á Íslandi. Ég finn kannski helst fyrir því kennarastarfinu þegar nemendur iðka sína trú í kringum Ramadan o.s.frv. Síðan hafa Svíarnir verið duglegir að taka á móti flóttafólki og hef ég þ.a.l. í kennarastarfinu verið að taka á vandamálum sem áður voru mér verulega fjarlæg og næstum óraunveruleg. Ég var t.d. með nemanda frá Sýrlandi sem flúði, eins og margir aðrir, á bát sem var meira en stútfullur af fólki sem borgaði ævisparnaðinn í þessa ferð. Um borð var ófrísk kona sem var alveg komin á steypinn. Ferðin tók einhverja daga þarna yfir Miðjarðarhafið og konan fæddi barnið um borð. Sá sem fékk greitt frá fólkinu fyrir þessa ferð, hvort það var skipstjórinn eða einhver annar veit ég ekki, tók nýfætt barnið og fleygði því í hafið. Segir síðan við konuna: „Þú hefur ekki borgað fyrir þetta.“ Svona sögur eiga margir af þeim krökkum sem hingað kom sem flóttafólk og ég kenni. Það sem hefur yfirleitt verið mín sterkasta hlið í kennarastarfinu er að setja mig í spor annarra og út frá því finna lausnir og leiðir til að hjálpa nemendunum. Hvernig setur maður sig í spor nemenda sem hafa upplifað svona hrylling?“

– Hvernig er að vera með fjölskyldu og börn þarna?

„Ég myndi segja að það sé yndislegt að vera með fjölskyldu hérna. Maður borgar ekki fyrir lækna- eða tannlæknaþjónustu fyrir börnin. Barnabæturnar eru töluvert hærri en heima en útgjöld sem viðkoma íþróttaiðkun eða þvíumlíkt eru aftur á móti kannski hærri. Einn af okkar drengjum æfir fótbolta og það er ekki nema einu sinni í viku og langt í frá allt árið um kring. Við erum eins og áður sagði í nokkuð litlum bæ og nú þegar sólin hækkar á lofti þá er oft mikið líf og mörg börn úti að leika sér. Við búum einnig mjög nálægt ströndinni og tekur ekki nema tíu mínútur að hjóla þangað þegar veðrið er gott. Hér höfum við allt til alls og þrátt fyrir mikla baráttu við skólakerfið, og svosem kerfið yfir höfuð, þegar kemur að þessum elsta þá eru allir af vilja gerðir og vilja flestir gera það sem í þeirra valdi stendur til þess að hann fái að njóta sín eins og aðrir.“

Fljótari að hjóla en keyra í vinnuna

– Hvernig er hefðbundinn dagur í lífi þínu?

„Dagurinn hér byrjar nú yfirleitt um hálf sjö, sjö á stríði við börnin og koma þeim í skólann. Það gengur upp flesta daga en sá elsti lætur foreldrana aldeilis hafa fyrir því á köflum. Íris keyrir svo yfirleitt þá tvo eldri í sína skóla, þar sem þeir eru allir á mismunandi stað. Ég fer með Mikael (þennan yngsta) á leikskólann sem er um 500 metra frá húsinu okkar og annað hvort hjólum við eða löbbum. Ég held síðan áfram í vinnuna sem tekur ekki nema nokkrar mínútur að ganga til. Það má segja að ég sé fljótari að hjóla þangað en keyra bíl. Akkúrat í þessum skrifuðu orðum vinn ég einungis 50% vinnu þar sem ég er búinn að vera í veikindaleyfi, líklega sökum álags. Þannig að ég vinn frá átta til hádegis og eru það yfirleitt um tvær kennslustundir á dag. Þar fyrir utan tók ég að mér tæknimálin í skólanum og vinn mikið með að laga iPad-tækin sem nemendum skólans er úthlutað. Það er oft á tíðum bullandi vinna og samkvæmt læknisráði á ég að passa upp á það að hætta á réttum tíma og vera ekki að bæta á mig of mörgum verkefnum en það gengur brösuglega og ég er yfirleitt að detta heim um eitt, hálf tvö. Þá finn ég mér yfirleitt eitthvað að gera, hvort sem það er í bílskúrnum eða í garðinum. Sá elsti er ekki í skólanum nema til hálf ellefu og er yfirleitt kominn heim um ellefuleytið en hinir tveir er sóttir um fjögur. Þá tekur oft við einskonar dauður tími þar sem allir eru þreyttir eftir amstur hversdagsins þar til klukkan er að verða fimm. Oftar en ekki borðum við kvöldmat um fimmleytið, rétt rúmlega, og síðan fer ég á fótboltaæfingu til að verða átta. Þegar heim er komið eru drengirnir svæfðir og ef það gengur samkvæmt áætlun stekk ég út í skúr og kasta pílum. Það geri ég yfirleitt svo lengi sem það tekur mig að vinna gamlan skólabróður úr Grindavík, Sigurð Rúnar Ásgeirsson sem er búsettur í Noregi, og yfirleitt tekur það ekki langan tíma! Síðan er það bara koddinn góði og ef ég er heppinn þá næ ég að sofa svona þrjá tíma! Síðan byrjar þetta allt aftur.“

– Líturðu björtum augum til sumarsins?

„Ég geri það algjörlega. Alveg handviss um að það verði yndislegt veður og við getum skellt okkur á ströndina og dittað að húsinu sem við erum að velta fyrir okkur að setja á sölu. Það finnast alls konar verkefni sem maður getur dundað sér við þegar sá gállinn er á manni og vonandi tekst mér að leysa þau nokkur. Fótboltatímabilið er aftur á móti komið á ís og enga leiki fáum við að spila fyrr en í júní eins og staðan er í dag. Það breytist líklega í byrjun ágúst og þá mun það snúast um að mótívera leikmenn í þessu leveli til að mæta á æfingar en spila enga leiki. Það gæti reynst erfitt. Við erum nú líklega ekki að fara að ferðast neitt í sumar. Höfum undanfarin ár komið til Íslands yfir sumartímann en við fáum að njóta sænska sumarsins í staðinn og það er ekkert til að svekkja sig á.“

Mikill áhugamaður um allar íþróttir

– Hver eru þín áhugamál og hefur ástandið haft áhrif á þau?
„Ég er náttúrlega mikill áhugamaður um allar íþróttir og hefur fótbolti fylgt mér bróðurpart lífsins. Nú er ég kominn í þjálfarastarfið og ástandið í heiminum hefur aldeilis sett strik í reikninginn þar eins og áður sagði. Fyrir rúmlega hálfu ári síðan fann ég að mig vantaði eitthvað til að keppa í og fór að kasta pílu. Skráði mig í lið í Varberg sem er rétt fyrir utan Gautaborg og u.þ.b. 40 mínútna akstur héðan. Hef ferðast aðeins um landið til að keppa í því með misjöfnum árangri en það hefur einnig allt verið sett á ís. Þar af leiðandi kasta ég mínum pílum úti í skúr og spila við fólk í gegnum vefmyndavél og finnst það bara ágætt. Síðan finnst mér gaman að ditta að hlutum, þá einna helst smíða kannski. Reyndar fæ ég ótrúlega þörf fyrir að saga niður tré og klippa runna svona í byrjun sumars og keypti ég mér keðjusög og er meira og minna búinn að saga niður allt sem hægt er að saga í garðinum. Ástandið hefur ekki með nokkru móti haft áhrif á það, nema þá að ég hef fengið meiri tíma heima til að saga niður fleiri tré.“

– Áttu þér uppáhaldsstað á Íslandi og hver er ástæðan?
„Grindavík er og mun alltaf vera minn uppáhaldsstaður á Íslandi. Þar hef ég búið stærsta hluta lífs míns, fjölskyldan er öll þar og margir vinir en ef maður ætti að velja einhvern sem kannski ekki er augljós þá myndi ég líklega velja þá tvo staði sem eru sameiginlega númer tvö í röðinni, álíka augljósir og sá fyrsti. Kjósina í Skagafirðinum og Reykholtsdalinn í Borgafirði, þangað sem ættina er að rekja.“

– Saknarðu einhvers frá Íslandi?
„Maður saknar auðvitað fjölskyldunnar og vina sinna. Oft finnst manni erfitt að vera svona langt frá þegar eitthvað bjátar á heima. Ef það eru veikindi eða dauðsföll þá fær maður ákveðið samviskubit yfir því að hafa ekki verið til staðar. Síðan verð ég að viðurkenna það að ég sakna svolítið að geta fengið mér alvöru pizzu. Skella sér á Papa’s pizzu í Grindavík er yfirleitt eitt af því fyrsta sem ég geri þegar ég kem til Íslands.“

Ekki mikið ferðasumar í ár

– Hvað stefnirðu á að gera í sumar?
„Ég býst við að það verði að mestu stússast í húsinu og garðinum. Síðan á fótboltinn að rúlla í gang um mitt sumar og þá mun það taka einhvern tíma. Reyndar gera Svíarnir síðan hlé á tímabilinu í júlí þannig að það verða kannski spilaðir tveir leikir og síðan verður önnur pása. Það lítur ekki út fyrir að það verði mikið ferðasumar í ár en við reynum jafnvel að að keyra norður eftir og heimsækja vinafólk í Noregi ef leyft verður og þá gæti ég jafnvel fengið að vinna Sigga í pílunni á meðan við erum í sama herbergi, ekki bara í gegnum tölvuna.“

– Hver voru plönin áður en veiran setti strik í reikninginn?
„Hér voru engin plön þannig séð. Einhverjir ætluðu sér kannski að kíkja í heimsókn til okkar út sem líklega verður ekkert af. Ég er svo rosalega lélegur að skipuleggja eitthvað fram í tímann því ég fæ yfirleitt fullt af nýjum hugmyndum áður en að því kemur og oftar en ekki gleymi ég að ég hafi verið búinn að ákveða eitthvað þegar ég lofa öðrum einhverju öðru. Þannig að það er best að vera ekkert að flækja hlutina of mikið og leyfa því að gerast sem gerist. Annars er Íris ágæt að skipuleggja fyrir mig og minna mig á hluti sem eru mikilvægir sem ég annars myndi gleyma.“

– Hvernig hefur COVID-19 verið að hafa áhrif þar sem þú býrð?
„Maður finnur fyrir því að fólk, þá kannski helst yngra fólk, er meira vart um sig. Eldri kynslóðin er svolítið í einhverjum mótþróa finnst mér og ætlar ekkert að breyta sínum venjum út af einhverri helvítis pest. Þau hafa nú lifað af spænsku veikina og af hverju ættu þau þá að vera hrædd við þetta er svolítið hugarfar hjá mörgum. Svíarnir tóku síðan annan pól í hæðina en aðrar þjóðir og eru að reyna við þetta hjarðónæmi og meira og minna allt hefur rúllað eins og það hefur gert. Maður sér engu að síður ekki jafnmarga á þeim stöðum sem yfirleitt eru troðnir af fólki. Tjaldstæðin hér í Falkenberg eru samt sem áður troðfull af ellilífeyrisþegum.“


Skjótt skipast veður í lofti

– Hvaða lærdóm getum við dregið af heimsfaraldrinum?
„Ég held að þessi faraldur sé ágætis áminning á að skjótt skipast veður í lofti. Enginn virðist vera óhultur og þetta er eitthvað sem getur hent hvern sem er, hvar í heiminum sá finnur sig. Ég er ansi hræddur um að margir hafi misst ástvini og naga sig í handarbakið vegna þess að þeir ætluðu alltaf að hringja og segja að þeim þótti vænt um þá og þar fram eftir götunum. Síðan áttar fólk sig á því nú er það of seint. Þess vegna verðum við að vera duglegri við að láta fólk vita að okkur þyki vænt um það og taka upp símann og spjalla við þá sem við höfum ekki heyrt í lengi en ætlað að hringja í síðustu þrjú árin. Ég veit að ég er bullandi sekur af þessu og þarf aldeilis að bæta mig á þessu sviði. Síðan gæti ég líka orðið voðalega pólitískur og þóst hafa eitthvað vit á hvernig bjarga eigi smáfyrirtækjum, hvernig koma eigi í veg fyrir að svona faraldur breiðist út svo hratt og hver besta aðferðin er að tækla svona. Ég hef bara ekki hugmynd um hvernig og ætla að leyfa mér fróðari mönnum á þessu sviði að upplýsa mig og taka ákvarðanir sem eru vel ígrundaðar og „réttar“. Það finnst enginn svindlmiði fyrir þetta próf og vonandi þegar öllu þessu er lokið þá höfum við fengið nægilega mikið kjöt á beinið til þess að hindra það að svona katastrófa eins og ríkir í dag endurtaki sig.“

– Hvaða aðferðir ertu að nýta til að eiga í samskiptum við fólk?
„Ég tek nú yfirleitt upp símann og hringi, hvort sem það er í gegnum Messenger eða bara í gegnum símakerfið.“

– Ef þú fengir bara að hringja eitt símtal í dag, hver fengi það símtal og hvers vegna?
„Ég er bara ekki frá því að ég myndi hringja í konuna. Ég veit að það er ógeðslega klisjukennt en hún er bara með einstaklega fallega rödd. Síðan væri ég reyndar til í að hringja í Andrew Wakefield, gaurinn sem sagði samband vera á milli bólusetninga og einhverfu, og spyrja hvað í andskotanum vakti fyrir honum.“