Karlakórinn
Karlakórinn

Mannlíf

Fékk loksins að kyssa stelpu án þess að vera sleginn eða sparkað í mig
Sunnudagur 31. mars 2024 kl. 06:08

Fékk loksins að kyssa stelpu án þess að vera sleginn eða sparkað í mig

Sigurbjörn Arnar Jónsson var fermdur í Keflavíkurkirkju árið 1990 og prestur var séra Ólafur Oddur Jónsson heitinn.

Hvað kemur fyrst upp í hugann þegar þú rifjar upp ferminguna?

Besta kökuveisla sem ég hef verið í og líka fermingarferðalag í Skálholt. Fékk þá loksins að kyssa stelpu án þess að vera sleginn eða sparkað í mig.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Af hverju léstu ferma þig? 

Það var bara eitthvað sem allir gerðu. Hugsaði ekkert um trú í þeim skilningi á þessum tíma. Það kom síðar, allnokkru síðar.

Hvernig var fermingarundirbúningurinn, presturinn og kirkjan?

Ósköp hefðbundinn, fermingarfræðsla, ferðalag yfir helgi í Skálholt, skyldumæting í nokkrar messur þar sem við vorum stundum með smá skyldur í sjálfri messunni eins og lesa texta og svoleiðis.

Var haldin veisla og hvað er eftirminnilegast úr henni?

Já, héldum veislu í húsnæði Björgunarsveitarinnar í Njarðvík. Þar sem þetta var mín veisla sérpantaði ég nokkrar kökur sem mamma gerði ásamt fleiri ljúffengum tertum sem voru svo uppistaða máltíða næstu nokkra daga eftirá. Er enn þann dag í besta kökuveisla sem ég verið í. Þetta er ein af þeim ljúfu minningum sem ég á um mömmu, hvað hún og amma lögðu sig mikið fram með þetta flotta veisluborð þar sem allar mínar óskir rættust.

Eru einhverjar fermingargjafir sem þú manst eftir?

Fékk hljómborð frá foreldrum mínum og svo þetta hefðbundna eins og nokkur pennasett og svefnpoka. Einnig nokkrar bækur sem vöktu ekki mikinn áhuga þá en eru eigulegar í dag. 35.000 í peningum sem ég nýtti sem gjaldeyri í utanlandsferð sem ég fór með foreldrum mínum sama sumar. Hljómborðið kveikti minn áhuga á píanói og á ég gott og vandað píanó í dag.

Manstu eftir fermingarfötunum eða klippingunni/greiðslunni?

Svartar buxur, hvít skyrta, marglita bindi og ljósbrúnn jakki. Hárið var svo sem bara eðlilega greitt. Var ekki enn búinn að uppgötva „Studio line for glory hair“ eða froðu, sem átti eftir að verða mikið notuð frá og með 1992 þegar gúmmítöffarinn kom og Elvis skömmu síðar.

Ertu að fara í einhverjar fermingarveislur?

Ekki á þessu ári nei sem ég veit um. En maður er nú á þeim aldri að vinir manns eiga margir börn á fermingaraldri svo þetta hefur kannski verið einn á ári undanfarin ár með einhverjum núllárum líka.