Mannlíf

Besta víman - áhugaverður fyrirlestur knattspyrnuþjálfara Keflvíkinga í heilsuviku
Vill tengja íþróttaiðkun við ákveðna tegund af vímu sem getur komið þér í vellíðan
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
föstudaginn 27. september 2019 kl. 07:52

Besta víman - áhugaverður fyrirlestur knattspyrnuþjálfara Keflvíkinga í heilsuviku

„Ég hef sjálfur aldrei prófað hvorki áfengi né önnur vímuefni en það var loforð sem ég gaf sjálfum mér í æsku. Ég heyrði þá að þetta myndi skemma fyrir mér sem íþróttamanni og það var nóg til þess að mig langaði ekki að prófa og hef svo haldið mig við það,“ segir Eysteinn Hauksson, knattspyrnuþjálfari hjá meistaraflokksliði Keflavíkur. Hann segist hafa lofað sjálfum sér því sem lítill strákur, að prófa hvorki áfengi né önnur vímuefni á ævinni og hann hefur staðið við það.

Eysteinn býður upp á forvitnilegan fyrirlestur sem ætlaður er börnum og unglingum í 6. til 10. bekk, foreldrum þeirra, framhaldsskólanemendum og öllum sem áhuga hafa að koma og hlusta í Heilsu-og forvarnarviku í Reykjanesbæ þar sem hann talar meðal annars um íþróttaiðkun sem ákveðna tegund af vímu sem geti skapað vellíðan á líkama og sál. Við náðum tali af Eysteini til að forvitnast um fyrirlestur hans sem hljómar mjög spennandi.

„Við hjá Knattspyrnudeildinni vorum spurðir hvort við vildum vera með framlag þessa viku og það fyrsta sem mér datt í hug var að nálgast umræðuna með því að mæla með kostum þess að lifa lífinu án vímuefna í stað þess að tala um hætturnar af notkun þeirra, því þær þekkja allir. 
Ég vil meðal annars tengja íþróttaiðkun við ákveðna tegund af vímu sem getur komið þér í vellíðan. Besta víman er sú sem byggir þig upp andlega og líkamlega og til að komast í hana eru til margar viðurkenndar aðferðir, bæði íþróttatengdar og aðrar. Hin víman, sem tengist fíkniefnum og gefur þér vellíðan í smá stund er blekking. Um leið og þú stígur inn í þann heim þá virkar fíknin þannig að hún biður alltaf um meir og meir. Í fyrirlestrinum ætla ég að tala um fleiri leiðir til þess að komast í annars konar og mun heilbrigðari vímu en þá sem fíkniefnin veita. Það vita allir að andlegt heilbrigði skiptir öllu máli í íþróttum sem og annars staðar og einmitt þess vegna er nú mjög rík áhersla lögð á andlega þáttinn í þjálfun okkar hjá knattspyrnudeildinni, ekki síður en þann líkamlega,“ segir Eysteinn sem vonast eftir góðri mætingu.

BESTA VÍMAN er því mjög áhugaverður fyrirlestur fyrir alla þá sem vilja heyra um þessa nýju nálgun í forvarnarumræðu að mati blaðamanns Víkurfrétta. Fyrirlesturinn fer fram mánudagskvöldið 30. september klukkan 20:00 í Íþróttahúsi Reykjanesbæjar við Sunnubraut.

marta@vf.is

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs