Sporthúsið
Sporthúsið

Mannlíf

„Ógleymanlegur dagur“
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 2. október 2021 kl. 08:39

„Ógleymanlegur dagur“

segir Sóley Björg Ingibergsdóttir en vinir og ættingjar hlupu til styrktar Krafti, stuðningsfélagi fyrir ungt fólk með krabbamein. Söfnuðu tæpri einni milljón króna.

„Dagurinn gekk vonum framar það mættu töluvert fleiri en bjóst við og fólkið lét veðrið ekki stoppa sig. Fólk tók annað hvort 5 km. göngu eða hlaup og sumir fóru skrefinu lengra og hlupu 10 km. Ég sjálf gat mun meira en var við að búast við og ég náði að klára fimm kílómetra, blandaða af skokki og göngu og tilfinningin að koma í mark og sjá allt fólkið mitt var ólýsanleg og tilfinningarnar brutust út. Síðan áttum við góða stund saman inni þar sem við skáluðum fyrir lífinu og gæddum okkur á æðislegum mat,“ segir Sóley Björg Ingibergsdóttir en hún greindist með illkynja brjóstakrabbamein snemma á þessu ári.

 Vinir og ættingjar hennar létu ekki sitt eftir liggja í því að styrkja Kraft, stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein, þó Reykjavíkurmaraþoninu hafi verið aflýst. Hópurinn hljóp laugardaginn 18. september í Reykjanesbæ og segir Sóley að dagurinn hafi verið frábær.

„Mig langar að þakka öllum þeim sem mættu og gerðu þennan dag ógleymanlegan og það besta við þetta er að við náðum að safna tæplega milljón fyrir Kraft, talan endaði í 961.563 kr. Í heildina söfnuðust um fjórar milljónir fyrir Kraft.

Sóley segist hafa nýtt sér alla þjónustu Krafts sem hafi skipt hana miklu máli í veikindunum. Kraftur er í góðu samstarfi við Apótekarann varðandi lyfjamál sem hafa verið Sóleyju að kostnaðarlausu. Hún hefur getað nýtt sér sálfræðiþjónustu og fleira sem Sóley segir að hafi verið mikilvægt í hennar baráttu.

„Þetta er mikilvægt félag en það er ekki með styrki frá hinu opinbera og þarf því að stóla á aðra. Í gegnum Kraft hef ég hitt fólk í svipuðum málum og ég er í, sérstaklega ungt fólk og það hefur verið gott að hitt það. Krabbamein spyr nefnilega ekki um aldur,“ segir þessi unga Suðurnesjamær.

Sóley er aðeins 27 ára og greindist sama dag og hún lauk síðasta prófinu í flugkennaranáminu í mars á þessu ári en Sóley var búin að ljúka öllu í flugmanninum, er orðin atvinnuflugmaður og bíður eftir því að komast í háloftin þegar heilsa hennar leyfir og ástandið í flugheiminum verður orðið betra.