„Hafið er móðurlíf jarðar“
Það eru 30 ár síðan Tómas Knútsson tók þá ákvörðun að hætta að horfa þegjandi upp á drasl í hafinu og stofnaði Bláa herinn. Upphafið var ekki róleg hugleiðing heldur skellur.
„Mér blöskraði náttúrulega bara hvernig var umhorfs,“ segir hann. Þá var hann að kenna köfun, meðal annars í Garði og Keflavíkurhöfn. Í hvert sinn sem hann fór með nemendur sá hann nýtt rusl á hafsbotni.
Eitt kvöldið sá hann svo nóg. „Ég fann þarna tvö full bretti af fiskafurðum sem hafði verið sturtað af bíl úti í Garði, bara niðri á bryggju. Sólbráð í þessu, „product of Iceland“ á kössunum, plast, bretti og fiskleifar fljótandi um allt. Þá hugsaði ég bara: Nei, þetta gengur ekki.“
Þaðan er stutt í herferðina sem enn stendur yfir. „Hafið er móðurlíf jarðar,“ segir Tómas. „Að henda sjávarafurðum í hafið og ná svo aftur sjávarafurðum úr hafinu innan um allt draslið, ég get ekki séð það ganga upp.“
Frá einu köfunarliði í samfélagshreyfingu
Umræðan um umhverfismál var ekki hávær á Íslandi um miðjan tíunda áratuginn. „Hún var ekki hátt skrifuð,“ rifjar hann upp. „Ég þurfti að taka það á mig að margir voru hundfúlir yfir því að ég skyldi vera að benda á hluti sem voru ekki í nógu góðum farvegi.“
En svo fóru tölurnar að tala sínu máli. Um eina helgina, við Garð, kafaði hann og félagar tóku upp 13 tonn af drasli. „Það sá hver heilvita maður að þetta var algjörlega út úr kortinu,“ segir hann.
Slys við köfun við Gerðabryggju, þar sem Rúnar Bárður Ólafsson vinur hans lést, varð til þess að Tómas helgaði baráttuna minningu hans. Þá fór fleira að gerast.
Hafnarstjórinn í Keflavík, Pétur, opnaði dyrnar. „Hann sagði bara: „Tommi, þú mátt hafa þetta eins og þú vilt, ég skal hjálpa þér eins og ég get.’“ Þegar Árni Sigfússon tók svo við sem bæjarstjóri var „blásið í herlúðra“, eins og Tómas orðar það, fyrirtæki, nefndir, bær og höfn tóku höndum saman.
„Þá var þetta ekki bara ég að nöldra. Þá spratt þetta út og varð alvöru samfélagsverkefni.“
Sjómennirnir, trukkurinn og „stríð við fjörurnar“
Stór vatnaskil urðu þegar sjómenn tóku upp plast og annað sorp um borð í stað þess að henda því fyrir borð. „Þetta var í gegnum LÍÚ og Hafnasambandið. Að taka á móti því sem féll til um borð, setja upp einhvers konar flokkunarkerfi í stað þess að henda sandi og sýnum út í heilagan sjó, það segir sig sjálft að það gengur ekki upp,“ segir Tómas og staðsetur þetta um 2000–2004.
Svo kom trukkurinn frægi. Tómas hafði gengið fjörur Reykjanesskaga endilangar og séð netapoka, troll, loðnunætur og óhemjumikið drasl. „Ég hugsaði með mér: ef ég græja þennan trukk, þá fer ég bara í stríð við fjörurnar,“ segir Tómas og er þar að vísa í gamlan forláta GMC-hertrukk með bómu í anda sams konar trukks sem Guðni Ingimundarson í Garði notaði við vinnu sína á Suðurnesjum í 50 ár.
Samfélagið brást við. Verktakar tóku á móti draslinu að kostnaðarlausu, fyrirtæki studdu við bakið á Bláa hernum og átti hann „smá skotsilfur“ til að halda áfram.
„Þarna var samfélagið að virka,“ segir Tómas. „Það var meiri og meiri samheldni um að vilja gera góðan hlut.“
Litli herinn sem kveikti aftur neistann
Eftir áratugi í baráttu, streitu við fjármögnun og svikin loforð var Tómas farinn að hugsa alvarlega um að hætta. Þá birtist níu ára stúlka.
„Mamma hennar hafði samband við mig. Dóttirin, Una, hafði safnað dósum og flöskum og selt dót frá sér. Hún hafði lesið um að Blái herinn væri að berjast gegn plastmengun í hafi og þetta truflaði hana,“ segir Tómas. Útkoman: 25.100 krónur í styrk til Bláa hersins.
„Ég var eiginlega búinn að vera með það í hausnum að fara að hætta. En þessi stelpa… hún kveikti í mér. Ég þurfti þessa stelpu.“ Daginn eftir heimsótti Tómas bekkinn hennar í skólanum. Hann kom með „góss úr sjónum“, hrúðurkalla, hákarlakjaft, krukkur og plast. Niðurstaðan lét ekki á sér standa. „Daginn eftir var hún búin að stofna Litla herinn og fór út að hreinsa skólalóðina,“ segir hann, greinilega hrærður enn. „Þetta var svo hjartnæmt.“
Nú hefur hann sótt um styrk til Úrvinnslusjóðs til að heimsækja 50 skóla, ræða við börn um það sem brennur á níu ára krökkum, og fara með þeim í fjöruferðir.
„Umhverfismál eru bara mjög neðarlega orðin“
Þrátt fyrir 30 ára starf og alþjóðlega viðurkenningu er fjármögnunin erfiðari en oft áður.
„Umhverfismál eru bara mjög neðarlega orðin,“ segir Tómas. Hann nefnir 40% samdrátt í styrkjum og svikin loforð sem hafi tekið á. „Það er rosalega sorglegt að hitta gott fólk sem meinar vel, er tengt hagsmunum þess að hafið sé hreint, logar upp í ermina á sér – og svo er ekkert nema svik.“
Í ár hefur Blái herinn þrifið um 16 tonn, næstminnsta magn í 30 ára sögu hans. Minnst var það í fyrra, sjö og hálft tonn. „Ef 1.000 króna kílóið dæmið nær flugi fer ég í allar fjörurnar sem fólk er að biðja um að hreinsa úti á landi en veigrar sér við vegna kostnaðar,“ segir hann, og vísar þar til nýrrar hugmyndar: að fyrirtæki „kaupi“ hreinsun, eitt tonn, einn kílómetri, einn dagur, 1.000 krónur á kílóið. Tvö fyrirtæki hafa þegar keypt sitt tonnið hvort.
Rusl eða hráefni – og hættan á slæmri ímynd
Í augum Tómasar er „rusl“ rangt orð. „Þetta er hráefni,“ segir hann. Hampiðjan tekur veiðarfæri og plast, þrífur og endurvinnur. Sokkar verða til úr veiðarfærum, plast sem verður að vörum erlendis, gamlir sorphaugar eru grafnir upp til að ná verðmætum. Allt eru þetta dæmi sem hann nefnir.
„Við eigum að taka orðið rusl út og setja ‘endurvinnanlegt hráefni’ í staðinn. Þá berum við allt aðra virðingu fyrir hlutunum.“
En hann er líka alvarlegur þegar kemur að ímynd Íslands. „ ömurlegastasta sem samfélag getur fengið á sig er léleg ímynd vegna sóðaskapar,“ segir Tómas. „Það er svo stutt í að hægt sé að gera stuttmynd um sóðaskapinn og hún fari í spilun út um allan heim. Og það getur hver sem er gert þetta. Í dag er hver einasti einstaklingur fréttamaður með síma.“
Hann hefur margoft bent sveitarfélögum á lausnir, teygjur á tunnur, umbun fyrir þá sem skila inn hráefni og verkefni þar sem íþróttafélög og björgunarsveitir fá greitt fyrir að hreinsa svæði. „Þetta er ekkert flókið. Það kostar peninga að eiga hreina ímynd.“
„Við getum ekki lifað á ímyndinni einni“ – framtíð Bláa hersins
Tómas er ekki bjartsýnn á hið opinbera sem fjárhagslegan bakhjarl. „Við eigum ekki að stóla á hið opinbera. Ég hef bara slæma reynslu af því,“ segir hann hreinskilinn. Hann talar um sjóði sem runnu í önnur verkefni, loforð sem gufuðu upp og fundi þar sem honum hafi verið „nánast vísað á dyr“.
Lausnin að hans mati er samfélagssjóður, fyrirtæki og aðilar sem vilja sýna raunverulega samfélagslega ábyrgð. „Ég sé fyrir mér að Reykjanesskaginn, þessir 40 plús kílómetrar, þurfi 40–50 milljónir á ári. Skaginn tandurhreinn, besta auglýsing sem svæðið gæti haft.“
Framtíð Bláa hersins sér hann ekki endilega í eigin höndum. „Ég sé hann í höndum björgunarsveitanna og samfélagsaðila sem fá greitt fyrir að þrífa fjörur. Þau eiga tækin og tólin. Ég er alveg staðráðinn í að Blái herinn eigi eftir að lifa góðu lífi í höndum annarra – þegar sterkir aðilar taka sig saman og vilja halda ímyndinni okkar í toppi.“
Sjálfur hefur hann verið í sjálfboðavinnu í 25 ár og síðan verið „atvinnumaður í rusli“. „Ef ég fæ lítið af styrkjum er ég með léleg laun, ef ég fæ mikið vinn ég bara meira. Þetta er ekki flókið,“ segir hann og hlær.
En undir lokin verður hann aftur alvarlegur. „Við höfum verið að selja ímynd hreinleikans. Við megum þakka Guði fyrir að fréttamenn séu ekki búnir að tæta okkur í spað. Besta auglýsingin er ekki blöðrur og hátalarar, hún er hreint land og hreint haf.“
Svo bætir hann við, eins og til að festa lokaorðin: „Áfram Ísland.“






