bygg 1170
bygg 1170

Mannlíf

„Ameríka er svo stór að það er alltaf hægt að rekast á nýtt ævintýri“
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
mánudaginn 11. maí 2020 kl. 15:03

„Ameríka er svo stór að það er alltaf hægt að rekast á nýtt ævintýri“

Hulda Björk Stebbins býr í Dekalb, bæ í Illinois í Bandaríkjunum. Í bænum búa um 40.000 manns en bærinn er kenndur við Northern Illinois University, þar sem eru um 20.000 nemendur en samt talinn smábær eða sveitabær. Dekalb er rúmleg klukkutíma vestur af Chicago-borg.

Hulda Björk er meinatæknir og starfar hjá Northwestern Medicine sem á tíu spítala á Chicago-svæðinu og hefur rúmlega 7.000 manns í vinnu. Eiginmaður Huldu er forstöðumaður fjármála á flugvelli í úthverfi Chicago og þau eiga saman fimm börn á aldrinum fimmtán til 22 ára. Fjögur þeirra eru á lífi en elsta dóttir  þeirra, Hanna Margrét, lést eftir bílslys í nóvember á síðasta ári, aðeins 22 ára gömul.

Hulda Björk er fædd og uppalin í Keflavík. Hún er hálfamerísk og flutti til Bandaríkjanna efir fermingu með móður sinni.


Erfitt að flytja til Bandaríkjanna sem táningur

– Hvernig var að flytja til Bandaríkjanna á þeim tíma?

„Það var mjög erfitt að flytja til Bandaríkjanna sem táningur og skilja eftir stóra fjölskyldu og vini en ég fékk að koma á sumrin í íslenska frelsið og bjó þá hjá ömmu minni, Huldu Agnarsdóttur.“

– Hvers saknar þú mest frá Íslandi?

„Það sem ég sakna mest eru Agnars-púkarnir mínir á Suðurnesjum og að missa af og þekkja ekki yngri ættingja eins vel. Og jú, ég sakna líka íslensks matar eins og að fá slátur, fiskibollur, hrogn og lifur og fleira svoleiðis.“

– Er eitthvað framandi sem hefur komið þér á óvart þar sem þú býrð núna?

„Það er helst hugsunarháttur hjá mörgum, t.d, að fólk skuli fíla Trump. Það er furðulegt.“

Hulda Björk hefur búið í Bandaríkjunum í 37 ár. Á þeim tíma hefur hún búið að mestu á Chicago-svæðinu en einnig bjó hún um tíma í Washington State og Virginíu.

– Hverjir eru helstu kostir þess að búa þar sem þú býrð?

„Hér er nóg um að vera, góðir skólar og og næga atvinnu að hafa yfirleitt. Það er stutt í útivist og náttúruna og líka í borgir eins og Chicago, Milwaukee og Madison.“

Hulda Björk segir að mestu leiti er gott að ala upp börn þar sem hún býr í dag. „Það er boðið upp á margt sem krakkar geta tekið þátt í, íþróttir og fleira.“

Heim í hádeginu til að hleypa út hundinum

Hefðbundinn dagur hjá Huldu Björk er í vinnunni frá átta til fimm. „Ég er heppin að vera að vinna í fimm mínútna fjarlægð frá heimili okkar, svoleiðis að ég fer heim í hádeginu og get þá líka hleypt hundinum út. Svo er bara þetta venjulega elda, taka til, sjónvarp og sofa.“

Eitt af áhugamálum þeirra hjóna er að ferðast og að fara á flakk um helgar. „Við veljum bæ eða svæði sem við vitum lítið um, fara á rúntinn í blæjubílnum á sumrin, skoða okkur um, taka myndir, fara í göngu ef það er náttúra nálægt, kíkja inn á veitingastaði eða brugghús. Ameríka er svo stór að það er alltaf hægt að rekast á nýtt ævintýri, nýjan bæ. Nú er ekkert svona gert og lokað fyrir allt svona,“ segir Hulda Björk.

– En hver er uppáhaldsstaðurinn á Íslandi?

„Það er erfitt að velja ein uppáhaldsstað á Íslandi. Suðurnesin út af æskunni og ættingjum og Þingvellir út af fegurðinni og þjóðarstolti.“

– Hvað stefnirðu á að gera í sumar?

„Það er ekkert planað fyrr en við vitum hvernig COVID-málin þróast. Ég vonast til að geta allavega ferðast innanlands hér í Bandaríkjunum og þá kíkt á Stínu æskuvinkonu frá Keflavík sem byr í Ohio.“

– Hver voru plönin áður en veiran setti strik í reikninginn?

„Við hjónin vorum búin að plana tvær ferðir í vor. Eina til New Orleans um miðjan maí og svo búin að plana stór ferð til Ítalíu í endaðan maí með alla krakkana. Nú stendur maður í því að reyna að fá allt endurgreitt.“

COVID-19 hefur haft mikil áhrif

– Hvernig hefur COVID-19 verið að hafa áhrif þar sem þú býrð?

„Þetta COVID-19-ástand hefur haft mikil áhrif hér. Það er búið að loka háskólanum og öllum skólum. Allar búðir nema matvörubúðir eru lokaðar. Það er farið að vera minna til á hillunum í búðum sem ég hef aldrei séð áður. Flestir eru úti með grímur, varla bílar á götum þegar ég keyri í vinnuna. Veitingarstaðir eru bara opnir fyrir þá sem vilja taka með mat heim og við reynum styðja uppáhaldsstaðina og panta mat einu sinni til tvisvar í viku.“

– Hvernig hefur tilveran verið hjá þér undanfarnar vikur, hefur margt breyst?

„Ég er sem betur fer að vinna og það sem hefur breyst er að maður er fastur heimavið. Ekkert annað hægt að gera. Maður dútlar sér í garðinum eða fer út í göngu, sem er ekki svo slæmt. Maðurinn minn vinnur að heiman núna nokkra daga í viku og líkar vel við það.“

Fjölskyldan og samböndin skipta mestu máli

– Hvaða lærdóm getum við dregið af heimsfaraldrinum?

„Það er fjölskyldan og samböndin okkar sem skipta mestu máli. Allt annað er bara truflun. Við þurfum að hugsa vel um hvort annað, njóta lífsins á meðan við getum. Það sem ég hef líka lært er að við höfum ekkert vald yfir neinu og hvernig hlutirnir þróast og það er allt í lagi.“

– Hvaða aðferðir ertu að nýta til að eiga í samskiptum við fólk?

„Ég hef notað Facebook video-Messenger í Happy Hour einu sinni i viku til að spjalla við mínar íslensku vinkonur hér í Bandaríkjunum, skál!“

– Ef þú fengir bara að hringja eitt símtal í dag, hver fengi það símtal og hvers vegna?

„Ef lífið væri fullkomið þá myndi ég hringja í Hönnu mína en annars er ekki hægt að velja bara eina manneskju.“