Max 1
Max 1

Íþróttir

Vonbrigði – Afturelding hafði betur og Keflvíkingar þurfa að bíða lengur
Vonbrigðin leyndu sér ekki á svip Keflvíkinga eftir leik. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 28. september 2024 kl. 18:16

Vonbrigði – Afturelding hafði betur og Keflvíkingar þurfa að bíða lengur

Úrslitaleikur Keflavíkur og Aftueldingar í umspili Lengjudeildar karla í knattspyrnu fór fram á Laugardalsvelli í dag við frábærar aðstæður. Leiknum lauk með eins marks sigri Mosfellinga sem fyrir vikið leika í efstu deild að ári en Keflvíkingar sitja eftir með sárt ennið.

Það var búið að gera mikið úr viðburðinum og stuðningsmenn Keflavíkur fjölmenntu í Laugardalinn, fyrst í félagsheimili Þróttar þar sem Keflvíkingar undirbjuggu sig fyrir átökin í stúkunni. Stórsöngvarinn og Keflvíkingurinn Valdimar Guðmundsson tók m.a. nokkur lög til að ýta undir stemmninguna. Síðan tóku við níutíu mínútna spennandi knattspyrnuleikur sem því miður féll að lokum með Mosfellingum.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Keflavík - Afturelding (0:1)

Afturelding byrjaði af meiri krafti og það tók smá tíma fyrir Keflvíkinga til að komast inn í leikinn.

Eftir því sem leið á fór Keflavík að sækja framar á völlinn og ná betri tökum á leiknum. Keflvíkingar áttu nokkrar álitlegar sóknir en vantaði að síðasta sendingin hitti á samherja.

Besta færið í fyrri hálfleik áttu Keflvíkingar þegar Ásgeir Helgi Orrason náði góðu skoti úr teignum en Jökull Andrésson, markvörður Aftureldingar, sá við honum og varði glæsilega.

Jökull lokar markinu.

Þá var Kári Sigfússon hársbreidd að komast alla leið þegar Keflavík komst í skyndisókn. Kári gerði þá vel þegar hann braust framhjá varnarmanni á miðjum vellinum en hann var aðeins of lengi að athafna sig þegar hann var við það að komast í færi og Mosfellingum tókst að bægja hættunni frá.

Keflvíkingar urðu fyrir áfalli þegar einn besti maður liðsins, Sami Kamel, fór meiddur af velli skömmu fyrir hálfleik en það virtist þó ekki hafa áhrif á leik liðsins sem var sterkari aðilinn í seinni hálfleik.

Sami Kamel gengur af velli.

Eina mark leiksins kom tólf mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma þegar Mosfellingar sóttu, Arnór Gauti Ragnarsson náði skoti sem Ásgeir Orri Magnússon varði vel en Sigurpáll Melberg Pálsson náði frákastinu og stýrði boltanum í netið (78’).

Keflvíkingar reyndu allt til að jafna metin og voru ágengir við mark Aftureldingar en vörn þeirra hélt út og sigurinn féll þeim í skaut.


Jóhann Páll Kristbjörnsson, íþróttafréttamaður Víkurfrétta, tók myndir á Laugardalsvelli og ræddi við Hólmar Örn Rúnarsson, aðstoðarþjálfara Keflavíkur, og leikmanninn Sindra Snæ Magnússon eftir leik. Viðtölin og myndasafn eru hér að neðan.

Viðtal við Hólmar Örn Rúnarsson, aðstoðarþjálfara Keflavíkur.


Viðtal við Sindra Snæ Magnússon, leikmann Keflavíkur.

Keflavík - Afturelding (0:1) | Úrslit umspils Lengjudeildar karla 28. september 2024