Vinstri Grænir
Vinstri Grænir

Íþróttir

Þróttur Vogum deildarmeistari
Þróttarar fögnuðu deildarmeistaratitlinum vel og innilega. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 11. september 2021 kl. 20:17

Þróttur Vogum deildarmeistari

Þróttarar tryggðu sér deildarmeistaratitilinn í annarri deild á heimavelli í dag þegar þeir mættu liði Magna frá Grenivík í fjörugum leik sem endaði með jafntefli.

Þróttarar voru þegar búnir að tryggja sér sæti í næstefstu deild í fyrsta sinn í sögu félagsins en þeir vildu lyfta bikarnum á heimavelli í dag fyrir framan stuðningsmenn sína sem fjölmenntu á völlinn en Sveitarfélagi Vogar bauð öllum frítt á leikinn.

Fiskisúpan var einstaklega góð – góð byrjun á góðum degi sögðu þessir hressu Þróttarar.

Það var mikil eftirvænting í loftinu fyrir leikinn og Vogabúar voru mættir vel fyrir leik þar sem þeir gæddu sér á ljúffengri fiskisúpu og myndaðist frábær stemmning meðal áhangenda sem voru mættir til að standa við bakið á sínu liði.

Viðreisn
Viðreisn

Magni byrjaði leikinn af krafti og það tók Þróttara sér smá tíma til að vinna sig inn í leikinn enda mikið í húfi. Þróttur náði samt undirtökunum fljótlega og átti nokkur hættuleg skot sem Vladan Dogatovic, markvörður Magna og fyrrverandi Grindvíkingur, mátti hafa sig allan við að verja.

Þegar rúmur stundarfjórðungur var liðinn af leiknum ætlaði allt um koll að keyra í stúkunni en þá kom Leó Kristinn Þórisson Þrótti yfir með fyrsta mark leiksins (18’). Þróttarar héldu þó forystunni ekki lengi því Magnamenn gáfust ekki upp og eftir góða sókn skömmu síðar jöfnuðu þeir leikinn með ágæti skallamarki sem Rafal Stefán Daníelsson náði ekki til (23’). Staðan var því jöfn í hálfleik, eitt mark gegn einu.

Leikurinn var harður en hvorugt lið gaf tommu eftir og var dómarinn oft óþarflega spar á flautuna og lét leikinn fljóta – fyrir vikið jókst harkan eftir því sem leið á leikinn.

Rubén skorar seinna mark Þróttar.

Rubén Lozano Ibancos hafði verið mjög ógnandi í fyrri hálfleik og verið nokkrum sinnum nálægt því að skora. Hann hélt uppteknum hætti í síðari hálfleik og hafði erindi sem erfiði á 62. mínútu þegar hann kom Þrótti yfir í annað sinn í leiknum.

Þegar stutt var eftir var ljóst að það sigldi í deildarmeistaratitil. Stúkan fagnaði þegar leikur Völsungs og KV var flautaður af en sá leikur fór í jafntefli og þá var ljóst að Þrótti myndi duga jafntefli til að landa titlinum. Stuðningsmenn voru enn að fagna þegar Magni jafnaði leikinn á ný (89’) eftir skyndisókn. Margir biðu óþreyjufullir eftir lokaflautinu en Magni sótti stíft á síðustu mínútunum, vörn Þróttar hélt fengnum hlut og titillinn var þeirra. Deildarmeistarar annarrar deilda karla 2021.

Stemmningin í stúkunni var frábær.

Nánar verður sýnt frá leiknum og viðtöl birt í Suðurnesjamagasíni á fimmtudaginn kemur klukkan 19:30 á Hringbraut og vf.is.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, og Hilmar Bragi Bárðarson, myndatökumaður sjónvarps Víkurfrétta, fönguðu stemmninguna í Vogum í dag eins og sjá má í meðfylgjandi myndasafni og myndskeiði neðst á síðunni.

Deildarmeistarar Þróttar og stuðningsmenn.

Njarðvík missti af lestinni

Eina von Njarðvíkur til að eiga möguleika á sæti í Lengjudeildinni á næsta ári var að Völsungur og KV, liðin í öðru og þriðja sæti, myndu gera jafntefli í sínum leik og þá varð Njarðvík að vinna þá tvo leiki sem þeir áttu eftir. Njarðvíkingar léku gegn Leikni Fáskrúðsfirði fyrir austan og það er skemmst að segja frá því að Njarðvík tapaði leiknum 3:1.

Með tapinu gufaði síðasta tækifæri þeirra upp og Njarðvík er nú í sjötta sæti þegar lokaumferðin ein er eftir.


Enn einn sigurinn hjá Reynismönnum

Reynir lék gegn Fjarðabyggð og landaði sigri í miklum markaleik.

Það voru Reynismenn sem skoruðu fyrsta markið (8’) en Fjarðabyggð svaraði með þremur mörkum.

Reynismenn lögðu ekki árar í bát og á síðasta hálftímanum skoruðu þeir fjögur mörk og innsigluðu glæsilegan sigur. Reynir er í sjöunda sæti, jafnt Njarðvík að stigum.

Þróttur - Magni (2:2) | 2. deild karla 11. september 2021