Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Þetta þjappar okkur ennþá betur saman
Daniel í nýjum heimkynnum sínum í Reykjavík.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
fimmtudaginn 16. nóvember 2023 kl. 14:21

Þetta þjappar okkur ennþá betur saman

segir Daninn Daniel Mortensen hjá körfuknattleiksliði UMFG

„Ég kann mjög vel við mig í Grindavík, það hvarflaði aldrei að mér að yfirgefa skipið,“ segir danski körfuknattleiksmaðurinn Daniel Mortensen sem leikur með Grindavík í Subway deild karla. Daniel eins og aðrir útlendingar Grindavíkurliðsins, er alls ekki vanur jarðskjálftum og var staddur í sjúkrameðferð þegar lætin byrjuðu á föstudaginn. Hann er búinn að koma sér fyrir í íbúð í Reykjavík og er bjartsýnn á gengi Grindavíkurliðsins í vetur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Daniel segist aldrei hafa þurft að hafa áhyggjur af jarðskjálftum eða eldgosum í Danmörku en þegar hann var í háskóla í Miami í Bandaríkjunum þurfti að hann yfirgefa heimili sitt vegna fellibyls sem var væntanlegur á Flórídaskagann. „Ég viðurkenni fúslega að þegar skjálftarnir byrjuðu fyrir þremur vikum var ég hræddur fyrst en fólkið í kringum klúbbinn sagði mér að ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því að húsin myndu hrynja, þau væru það sterkbyggð og þá róaðist ég. Það var vissulega pirrandi að skjálftarnir væru á nóttunni því það truflaði svefninn og ég var í raun orðinn nokkuð vanur þessu en þegar þetta reið yfir á föstudaginn fann ég fljótlega að þetta var eitthvað mun meira en áður. Ég var í sjúkrameðferð hjá Stretsko og fór svo heim en leist svo ekki á blikuna og fór á Papas til að horfa á körfuboltaleikinn. Þar hitti ég aðra leikmenn og það var greinilegt að eitthvað mikið var í gangi, fljótlega var okkur sagt að yfirgefa Grindavík og félagið náði að koma okkur útlendingunum inn á Park inn hótelið í Reykjanesbæ, þar var okkur mjög vel tekið og kunnum starfsfólkinu bestu þakkir. Svo náði klúbburinn að redda okkur íbúð, ég er búinn að koma mér vel fyrir í Reykjavík og er búinn að ná í dótið mitt til Grindavíkur. Ég gat skotist á mánudaginn til að sækja það.“

Körfuboltinn heldur áfram að skoppa þrátt fyrir ástandið í Grindavík, liðið hefur æft víða í Reykjavík og á laugardaginn er „tvíhöfði“ í Smáranum, íþróttahúsi Breiðabliks en þá leikur kvennaliðið við Þór Akureyri klukkan tvö og karlaliðið leikur við Hamar klukkan  fimm. „Það var tilfinningaþrungin stund þegar við hittumst á fyrstu æfingunni eftir þessi læti. Við æfðum þá hjá ÍR-ingum, svo hjá Breiðabliki þar sem við spilum á laugardaginn, verðum hjá Stjörnunni í kvöld en það er greinilegt að allir á Íslandi vilja allt fyrir Grindvíkinga gera. Ég er á mínu þriðja tímabili og hef fengið ótal símhringingar frá Þór Þorlákshöfn þar sem ég byrjaði að spila og frá Haukum, þar sem ég var í fyrra. Allir eru boðnir og búnir að hjálpa, það er mjög fallegt að sjá það. Þegar lið lenda í svona stöðu, þjappar það oft mannskapnum betur saman og ég er viss um að sú verður raunin hjá okkur. Það hvarflaði aldrei að mér að flýja þetta ástand, ég kann ofboðslega vel við mig í Grindavík og fólkið í kringum klúbbinn er fyrsta flokks. Ég hef mjög mikla trú á okkar liði og eins og ég segi, ég er viss um að þetta mun þjappa okkur enn betur saman. Við ætlum okkur stóra hluti í vetur, ég tel okkur geta farið alla leið. Ég get ekki beðið eftir laugardeginum, ég er viss um að íþróttahúsið verði fullt af Grindvíkingum og það verði góð stemning,“ sagði Daniel.

Daniel í síðasta heimaleik Grindvíkinga á móti Þór Þorlákshöfn.