Safnahelgi
Safnahelgi

Íþróttir

Þetta hefur svolítið verið stöngin út hjá okkur í sumar
Magnús Þór Magnússon, fyrirliði Keflvíkinga, er ánægður með stígandann í liðinu. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 9. september 2022 kl. 07:20

Þetta hefur svolítið verið stöngin út hjá okkur í sumar

– segir Magnús Þór Magnússon, fyrirliði meistaraflokks Keflavíkur, en Keflvíkingar eru í harðri baráttu um að enda tímabilið í efri hluta Bestu deildar karla áður en úrslitakeppni Íslandsmótsins verður leikin.

Magnús hefur farið fyrir liði Keflavíkur í sumar sem hefur staðist þær væntingar sem voru gerðar til liðsins í upphafi móts og gott betur en það. Eftir góðan útisigur á Stjörnunni í síðustu umferð stendur Keflavík í sjöunda sæti Bestu deildar karla, tveimur stigum á eftir KR, þegar tvær umferðir eru óleiknar.

Það ættu að vera gleðifregnir fyrir Keflvíkinga að fyrirliðinn hefur framlengt samningi sínum við liðið til tveggja ára og verður því á mála hjá Keflavík út tímabilið 2024 að öllu óbreyttu.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Magnús Þór og Luka Jagačić, yfirmaður knattspyrnumála hjá Keflavík, handsala nýjan samning síðasta þriðjudag.


Víkurfréttir settust niður með Magnúsi eftir undirskriftina þar sem farið var yfir tímabilið í ár.

„Í heildina finnst mér tímabilið hafa verið mjög gott hjá okkur. Við byrjuðum ekki nógu vel enda var liðið ennþá að slípast saman í byrjun móts – en eftir því sem leið á tímabilið finnst mér við hafa sýnt það að við erum að spila mikið betur en búið var að spá fyrir mót,“ segir Magnús sem hefur átt gott tímabil í vörn liðsins í sumar.

Sterkara Keflavíkurlið í ár

„Við erum með mikið sterkara lið en á síðasta tímabili, hópurinn orðinn þéttari og farinn að ná betur saman. Innkoma þeirra Patrik [Johannesen] og Dani [Hatakka] hefur haft góð áhrif á liðið og styrkt það enn frekar.

Heildarbragurinn á liðinu hefur verið mjög góður í sumar, við erum farnir að þekkja betur inn á hvern annan og auk þess er leikreynslan farin að sjást á leik liðsins. Menn eins og Adam Ægir [Pálsson] og Adam Árni [Róbertsson] verið fjörugir í ár, þá hefur Sindri Snær [Magnússon] hefur komið sterkur inn á miðjuna eftir að hann jafnaði sig af meiðslum – en við vissum það svo sem þegar hann gekk til liðs við okkur. Svo má ekki gleyma framlagi Sindra [Kristins Ólafssonar] í markinu en hann hefur oft sýnt stórkostlegar vörslur og bjargað miklu í okkar leikjum. Það er gaman að sjá hann verða betri með hverju árinu,“ segir fyrirliðinn og fer aftur að tala um leiki liðsins.

Magnús segir að auk þess að hafa fengið þennan liðsstyrk þá hafa aðrir leikmenn liðsins einnig bætt sig talsvert frá síðasta tímabili.

„Eins og ég sagði þá byrjuðum við ekki nógu vel en við höfum unnið mikilvæga sigra í sumar þótt við höfum líka verið óheppnir með úrslit, verið að fá á okkur mark á síðustu mínútunum – þetta hefur verið svolítið stöngin út hjá okkur.“

Sindri Kristinn hefur oft og tíðum staðið í ströngu og sýnt snilldartakta á milli stanganna í sumar.
Adam Ægir skapar oft usla í vörn andstæðinganna með hraða sínum og tækni.

Finninn Dani Hatakka (t.v.) og Færeyingurinn Patrik Johannesen (t.h.) hafa leikið vel með Keflavík í sumar. 
Hér er Dani Hatakka búinn að skora sigurmarkið í 2:1 sigri á FH fyrr á tímabilinu.


Sindri Snær hefur komið sterkur inn á miðjuna eftir að hafa misst af stærstum hluta mótsins vegna meiðsla.

Þrátt fyrir það eruð þið samt í ágætis færi til að klára deildina í efri hlutanum.

„Já, algerlega – og það hefur verið yfirlýst markmið okkar á seinni hluta mótsins. Núna er þetta hörkubarátta á milli fjögurra liða um að enda meðal efstu sex. Við, Stjarnan, KR og Fram erum öll þarna um miðja deild og munar litlu á liðunum – en það eru tveir leikir eftir og núna einbeitum við okkur að næsta leik, sem verður á heimavelli gegn Víkingi um helgina. Við þurfum að ná í stig þar og þá gætu úrslitin ráðist í síðustu umferðinn þar sem við mætum Fram.“

Strákarnir hafa verið frábærir í sumar

Keflvíkingar mæta Íslandsmeisturum Víkings á HS Orkuvellinum næstkomandi sunnudag og Magnús segir að stemmningin á vellinum og stuðningur áhangenda skipti leikmenn miklu máli.

„Það er miklu skemmtilegra að spila þegar við finnum fyrir stuðningi úr stúkunni. Stemmningin á vellinum hefur verið mjög góð í sumar, strákarnir í Keflavíkursveitinni hafa verið alveg frábærir og heldur betur lífgað upp á leikina okkar. Ég vona að bæjarbúar mæti vel á næsta leik og stuðningsmennirnir okkar peppi okkur vel upp. Það er hungur og vilji í Keflvíkingum, allir eru heilir og vilja spila. Við erum mjög jákvæðir á að okkur takist að klára þetta tímabil með góðum árangri,“ segir Magnús bjartsýnn að lokum.

Strákarnir í Keflavíkursveitinni hafa verið alveg frábærir og heldur betur lífgað upp á leikina Keflavíkur í sumar.