Stuðlaberg Pósthússtræti

Íþróttir

Sveindís Jane á leið til besta liðs Þýskalands
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 19. desember 2020 kl. 10:30

Sveindís Jane á leið til besta liðs Þýskalands

Knattspyrnukonan Sveindís Jane Jónsdóttir úr Keflavík er líklega á leið til besta liðs Þýskalands á næstunni. Morgunblaðið greinir frá. Hún fór á kostum með liði Breiðabliks og landsliðinu á þessu ári en Sveindís var á láni frá Keflavík á árinu og varð Íslandsmeistari með Blikum.

Sveindís er 19 ára gömul, lék sinn fyrsta leik með Keflavík aðeins 15 ára gömul og þykir ein efnilegasta knattspyrnukona sem komið hefur fram á sjónarsviðið á síðustu árum. Hún skoraði 14 mörk í 15 leikjum í sumar og fékk hæstu einkunn allra leikmanna síðustu tvö sumur hjá Morgunblaðinu.

Sveindís lék sinn fyrsta landsleik í september og hún þótti hafa verið ein af bestu leikmönnum Íslands í leikjunum tveimur í nóvember þegar liðið tryggði sér sæti í úrslitum Evrópukeppninnar.

Sveindís er ekki fyrsta íslenska knattspyrnukonan sem leikur með Wolsburg því Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði lék með liðinu 2016 til ársins 2020. Wolfsburg hefur haft mikla yfirburði í þýsku deildinni undanfarin ár en liðið hefur orðið meistari í þýsku deildinni síðustu fjögur ár og bikarmeistari síðustu sjö ár. Liðið hefur komist tvisvar í úrslit Meistaradeildarinnar á síðustu þremur árum en tapað í bæði skiptin, nú síðast fyrir PSG sem Sara Björk gekk til liðs við á árinu, frá Wolfsburg.