Nýsprautun flutt
Nýsprautun flutt

Íþróttir

Suðurnesjaslagurinn í máli og myndum
Framlagshæstu leikmenn liðanna mætast í háloftunum. Aliya Collier úr Njarðvík var með 26 framlagspunkta en Daniela Wallen úr Keflavík með 29. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 3. nóvember 2022 kl. 08:58

Suðurnesjaslagurinn í máli og myndum

Viðureign Njarðvíkur og Keflavíkur í Subway-deild kvenna í körfuknattleik sem fram fór í gær var hin besta skemmtun. Eins og vanalega var allt lagt undir þessari grannaerju og fór eldmóður leikmanna ekki framhjá þeim sem á horfðu – þetta er leikurinn sem allir vilja vinna. Það fór svo að gestirnir í Keflavík höfðu betur þótt Njarðvíkingar hafi sótt hart að þeim í lokin. Keflavík er því enn ósigrað í deildinni en Njarðvíkingar hafa hins vegar unnið fjóra og tapað jafnmörgum. Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á leiknum í gær og tók meðfylgjandi myndir.
Bríet Sif Hinriksdóttir fagnar þriggja stiga körfu sinni sem kom Njarðvík í 5:0, það var eina skiptið sem Njarðvík var yfir í leiknum því gestirnir svöruðu með því að skora fimmtán stig í röð (5:15).

Gestirnir byrjuðu betur í gær og náðu að byggja upp ágætis forskot með hröðum varnarleik sem sló Njarðvíkinga út af laginu. Njarðvík skoraði fyrstu fimm stigin í leiknum en þá kom rúmlega fimm mínútna kafli þar sem heimakonur settu ekki niður stig, gestirnir sáu alfarið um það.

Keflavík varð fyrir áfalli um miðjan fyrsta leikhluta þegar Birna Valgerður Benónýsdóttir fór meidd af velli og virtist mjög kvalin. Birna virtist hafa snúið ökklann illa og kom ekki meira við sögu í leiknum. Það kom þó ekki að sök því maður kemur í manns stað og Keflavík er með breiðan og góðan leikmannahóp.

Birna virtist mjög kvalin þegar hún fór af velli.

Að loknum fyrsta leikhluta höfðu Keflvíkingar sex stiga forystu (15:21) og juku hana í tólf stig fyrir hálfleik (32:44). Njarðvíkingar voru hins vegar ekki búnar að játa sig sigraða og þær mættu af krafti inn í seinni hálfleikinn og tóku til við að saxa niður forskot gestanna.

Njarðvík minnkaði muninn í 46:48 í þriðja leikhluta og frá þeim tímapunkti var munurinn á liðunum yfirleitt á bilinu tvö til fimm stig. Aliyah Collier fór mikinn í liði Njarðvíkur og átti stóran þátt í endurkomu liðsins, hún fékk hins vegar sína fimmtu villu um miðjan fjórða leikhluta en þá var Njarðvík nýbúið að jafnan leikinn í 64:64. Stórt skarð var þar með hoggið í hóp ljónynjanna sem misstu Keflvíkinga fram úr sér og sigurinn þeirra að lokum (73:80).

Leikmenn gáfu ekkert eftir í gær eins og sést hér þegar Lavina Gomes sækir að Karina Konstantinova.

Leikurinn var stórskemmtilegur og bæði lið sýndu oft á köflum frábæra frammistöðu, bæði í vörn og sókn. Sennilega hefði frammistaða beggja liða nægt til sigurs á hvaða liði sem er í Subway-deildinni en annað liðið þurfti að vinna og í gær féll sigurinn með gestunum.

Fleiri myndir má sjá í meðfylgjandi myndasafni neðst á síðunni.

Nánar um leikinn.

Njarðvík - Keflavík (73:80) | Subway-deild kvenna 2. nóvember 2022