Íþróttir

Stoltur að fá að uppfylla langvarandi draum
Sindri Kristinn Ólafsson hefur staðið sem klettur í marki Keflavíkur í sumar, hann fær nú tækifæri með A-landsliði Íslands. Myndir úr safni Víkurfrétta
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 29. október 2022 kl. 07:14

Stoltur að fá að uppfylla langvarandi draum

– segir Sindri Kristinn Ólafsson sem hefur verið valinn í A-landsliðshóp Íslands ásamt liðsfélaga sínum Rúnari Þór Sigurgeirssyni

Arnar Þór Viðarsson, þjálfari A landsliðs karla, hefur valið Keflvíkingana Sindra Kristinn Ólafsson og Rúnar Þór Sigurgeirsson í leikmannahóp Íslands fyrir fyrra nóvemberverkefni liðsins þar sem Íslands mætir Sádi-Arabíu í Sameinuðu arabísku furstadæmunum 6. nóvember og Suður-Kóreu í borginni Hwaseong í nágrenni Seúl þann 11. nóvember. Adam Ægir Pálsson, sem einnig leikur með Keflavík, er meðal þeirra fimm leikmanna sem eru valdir til vara.

„Ég get ekki sagt annað en að þetta leggist hrikalega vel í mig,“ sagði Sindri Kristinn Ólafsson, markvörður Keflvíkinga, sem er á leið til Sameinuðu arabísku furstadæmanna og Suður-Kóreu með A-landsliði Íslands síðar í mánuðinum.

„Maður er ótrúlega stoltur af því að vera valinn í landsliðið þótt það sé að mestu skipað leikmönnum sem eru að spila á Íslandi. Það er alveg geggjað að fá að uppfylla langvarandi draum að fá að taka þátt í A-landsliðsverkefni.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

– Það er ekki heldur leiðinlegt að fá að fara á svona framandi slóðir, er það?

„Meiriháttar að fá að fara til Abú Dabí og Seúl, það verður upplifun að koma á þessa staði sem maður hefur aldrei komið á eða neitt í líkingu við þá.“

Rúnar Þór Sigurgeirsson er einnig í hópnum en hann á einn leik með A-landsliðinu að baki.


Fleiri leikir eru nauðsynlegir til að taka skref fram á við

Við vendum nú kvæði okkar í kross og ræðum gengi Keflavíkur í ár og nýtt fyrirkomulag Íslandsmótsins. Sindra finnst liðinu hafa gengið mjög vel í deildinni og með smá heppni hefðu Keflvíkingar getað verið að keppa að einhverju stærra.

„Ef við hefðum unnið kannski tvo leiki til viðbótar þá værum við jafnvel óvænt í einhverri Evrópubaráttu. Svona heilt yfir getum við Keflvíkingar ekki verið annað en sáttir við tímabilið þótt það hafi verið óvenju margir vonbrigðaleikir í sumar, leikir sem við töpum á lokamínútunum eða töpum ósanngjarnt. Kannski með smá meiri leikreynslu hefðum við getað verið að berjast um eitthvað miklu meira.“

– Hvað finnst þér um þetta nýja fyrirkomulag

„Mér finnst hins vegar mjög leiðinlegt þegar fólk er að tala nýja fyrirkomulagið niður, mér þykir frábært að það séu fleiri leikir og það nauðsynlegt því annars getum við ekki verið að taka skref fram á við sem fótboltamenn – við þurfum fleiri leiki en mér finnst við þurfa að klára fyrr og mér skilst að eigi að verða þannig á næsta ári.

Við gætum spilað þéttar, tvo leikir í viku í staðinn fyrir að æfa alla daga í skítakulda í október. Ef það er hægt að klára mótið snemma í október þá er ég mjög hrifinn af þessu fyrirkomulagi, spila þéttar og hætta fyrr.

Það er svolítil óheppni að núna sé engin spenna í deildinni, hvorki á botni eða toppi – en það gæti gerst í hvaða deild sem er burtséð frá fyrirkomulagi. Það hefur oft gerst áður og á eftir að gerast aftur.“

– Nú ertu með lausan samning eftir þetta tímabil, ertu eitthvað farinn að huga að næsta samningi?

„Ég hef getað farið frá Keflavík áður en ekki gert það, þá hefur mér fundist ég ekki geta skilið við liðið á réttum stað og réttum tíma. Það hafa önnur lið verið að sýna mér áhuga en ég hef ekki samþykkt neitt tilboð. Ég hef átt í viðræðum við Keflavík og þær viðræður hafa gengið bæði vel og illa, við erum með allt uppi á borðinu og erum að tala saman. Ég vil hins vegar klára tímabilið áður en ég tek ákvörðun og skoða þau tilboð sem ég hef. Keflavík er alveg jafn mikið inni í myndinni og önnur lið – og þeir vita það. Svo þegar ég kem til baka úr þessari landsliðsferð þá væri ég bara til í að negla niður hvar ég muni leika á næsta tímabili,“ sagði Sindri Kristinn að lokum en Bestu deildinni lýkur um næstu helgi. Þá tekur Keflavík á móti Fram í toppslag neðri hluta deildarinnar.

Adam Ægir Pálsson hefur verið einn af betri mönnum Keflavíkurliðsins í ár.