Sigurður og Dolezaj öflugir í sigri á Haukum
Keflavík lagði Hauka í Subway-deild karla í körfuknattleik í gær 89:86. Keflvíkingar fóru með góða forystu inn í síðasta leikhluta en Haukar þjörmuðu að heimamönnum og náðu að hleypa spennu í leikinn með því að jafna. Að lokum hafði Keflavík þó betur 89:86.
Keflavík - Haukar 89:86
Leikurinn var nokkuð jafn í byrjun og lítið sem skildi liðin að framan af. Haukar náðu þriggja stiga forskoti en Keflvíkingar voru fljótir að snúa því við og leyfðu gestunum ekki að ná yfirhöndinni aftur. Keflavík leiddi með fjórum stigum eftir fyrsta leikhluta (26:22).
Keflvíkingar juku forystuna í öðrum leikhluta í tíu stig (54:44) og héldu áfram að auka muninn í þeim þriðja. Þegar komið var að fjórða leikhluta höfðu heimamenn sextán stiga forskot (76:60) og fátt sem benti til að Haukar væru líklegir til afreka.
Haukarnir voru samt ekki alveg búnir að játa sig sigraða og hófu harða gagnsókn í fjórða hluta. Þegar þrjár mínútur voru til leiksloka var staðan orðin jöfn (82:82) og spenna komin í leikinn.
Heimamenn náðu að hrinda ásókn gestanna og taka forystuna á nýjan leik og höfðu að lokum þriggja stiga sigur.
Sigurður Pétursson og Marek Dolezaj voru atkvæðamestir hjá Keflavík í gær, hvor um sig með tuttugu framlagspunkta. Sigurður var með fimmtán stig, sjö fráköst og þrjár stoðsendingar en Dolezaj með fjórtán stig, níu fráköst og þrjár stoðsendingar, Halldór Garðar Hermannsson var einnig með fimmtán stig eins og Sigurður og tók tvö fráköst að auki og Jaka Brodnik með fjórtán stig og tvö fráköst.