ReykjanesOptikk
ReykjanesOptikk

Íþróttir

Síðustu púslin til að verða meiri töffarar
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 21. nóvember 2025 kl. 06:03

Síðustu púslin til að verða meiri töffarar

Knattspyrnudeild Njarðvíkur hefur ráðið Davíð Smára sem nýjan þjálfara meistaraflokks karla. Hjalti Már Brynjarsson, formaður deildarinnar, segir í samtali við VF að um sé að ræða draumaráðningu – Davíð hafi verið efstur á óskalistanum frá upphafi og félagið hafi beðið lengi eftir því að fá hann.

„Við erum ofboðslega fegnir að ná að landa Davíð,“ segir Hjalti. „Davíð er sannur sigurvegari og búinn að sýna það. Hann var fyrstur á lista hjá okkur og við erum búin að bíða rosalega þolinmóð eftir honum.“

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Sársaukafullt sumar – en lærdómurinn nýtist

Njarðvík var í toppbaráttu í sumar og spilaði að sögn Hjalta mjög góðan fótbolta, en missti af sæti í Bestu deildinni á lokasprettinum og tapaði meðal annars gegn nágrönnum sínum.

„Við náðum ekki okkar markmiðum. Við ætluðum okkur meira, lögðum mikið í þetta og ætluðum okkur að fara lengra. Það er tapsárt að ná ekki upp – og ennþá tapsárara að tapa fyrir nágrönnunum,“ segir hann og bætir við að nú sé bara eitt að gera: „Nú eru þeir komnir upp og við þurfum að fylgja þeim á eftir.“

Hann viðurkennir að reynsluleysi í svona stöðu hafi mögulega spilað inn í.

„Þetta eru strákar sem hafa spilað marga leiki, en stóru leikirnir skipta mestu máli. Við töpuðum ekki á einum leik heldur mörgum leikjum þar sem við hefðum getað náð í úrslit. Við spiluðum frábæran fótbolta en þurfum að fylgja því eftir með úrslitum.“

Þrátt fyrir vonbrigðin sér hann mikinn ávinning.

„Þetta sumar fer beint í reynslubankann. Við gleymum þessu aldrei. Við erum að þessu til að læra og lifa.“

„Við verðum að vera töffarar líka þegar byrjar að rigna“

Hjalti er minntur á að hann hafi lýst Njarðvík sem „sætustu stelpunni á ballinu“ þegar liðið var á toppnum í sumar. Sú líking standi enn, en hann segir að vantað hafi aðeins harðfylgni á lokakaflanum.

Enn sætasta stelpan

„Við vorum alltaf sætasta stelpan, en við vorum ekki nógu miklir töffarar í lokin,“ segir hann. „Við viljum vera félag sem leggur mikinn metnað í þetta allt árið, ekki bara yfir hásumarið þegar er heitt og gott veður. Við þurfum að vera töffarar líka þegar það byrjar að rigna og kunna að vinna leiki þá. Og ég held að við séum komnir með rétta manninn sem kann að vinna leiki í lokin líka.“

Hann segir að deildin hafi verið heppin með þjálfara og leikmenn undanfarin ár – og nefnir m.a. Gumma Steinars, Steinar, Rabba, Bjarna Jó og Bóa.

„Allir sem koma hingað leggja sína hönd á plóg og hjálpa okkur að verða meiri töffarar og meiri sigurvegarar. Við teljum að nú séum við komin með síðasta púsl sem við vildum til að standa beinir í baki.“

Hafnar sameiningarumræðu – treystir á gott fólk og styrktaraðila

Umræða hefur verið á svæðinu um mögulega sameiningu Keflavíkur og Njarðvíkur í fótbolta – og jafnvel körfubolta – en Hjalti segist lítið geta séð fyrir sér slíka vegferð.

„Á svæðinu eru ellefu fótboltalið á Suðurnesjum og mér finnst rosalega skrítin umræða að þurfa að sameina tvö stærstu félögin á meðan önnur geta ekki sameinast,“ segir hann. „Iðkendur í fótbolta eru rosalega margir. Við þurfum í raun bara betri umgjörð og betri mannvirki frá sveitarfélaginu. Þessi sameiningaumræða er fyrir mér bara ekkert í boði.“

Rekstur knattspyrnudeildar í næstefstu deild er krefjandi, en Hjalti segir félagið vel rekið.

„Verkefnið er mjög flókið, en við höfum sem betur fer gott fólk. Við erum rosalega lánsöm með stjórnarfólk, leikmannaráð, kvennaráð og allt þetta. Fólk er ofboðslega tilbúið að ná í peninga og styðja við félagið. Við höfum rekið okkur með hagnaði í öll okkar ár og það eru margir tímar sem fara í þetta, en líka mikill vinskapur sem mun alltaf vera okkur til góðs. Við erum gríðarlega lánsamt félag með marga góða styrktaraðila.“

Skýr markmið: Upp í Bestu deild

Að lokum er Hjalti beðinn um að setja orð á markmiðin fyrir næsta tímabil – og svarar án þess að hika.

„Stefnan er upp í Bestu deild. Við ætlum okkur þangað á næsta ári,“ segir formaðurinn ákveðinn, sannfærður um að með Davíð Smára við stjórnvölinn sé Njarðvík skrefi nær því að festa sig í sessi meðal bestu liða landsins.

Dubliner
Dubliner