Ólöf Helga vinnur við áhugamálið
„Það er æðislegt að vinna við áhugamálið,“ segir Grindvíkingurinn Ólöf Helga Pálsdóttir en hún tók við umsjón á Bónus-körfuboltakvöldi kvenna á Sýn fyrr í vetur og ef hún er ekki fyrir framan myndavélina, þá er hún stödd í íþróttahúsinu að Hlíðarenda þar sem Valur er með sínar bækistöðvar og þjálfar þar unga og upprennandi körfuboltamenn - og konur. Ólöf hefur komið sér vel fyrir í Reykjavík en hugurinn leitar oft til Grindavíkur.
Þegar Ólöf byrjaði sjónvarpsferilinn var körfuboltakvöld hjá konunum ekki byrjað.
„Ég var fengin fyrir úrslitakeppni kvenna árið 2018 sem sérfræðingur en það ár mættust Haukar og Valur í úrslitunum. Svo byrjaði körfuboltakvöld hjá konum seinna og ég varð ein af sérfræðingunum eftir að ég hætti að þjálfa í efstu deild og hafði mjög gaman af þessu. Ég hef alltaf verið með sterkar skoðanir og hikaði ekki við að segja mína skoðun og þurfti aðeins að breyta um takt fyrir þetta tímabil þegar ég tók við umsjóninni. Þegar ég byrjaði þá var Kjartan Atli líka með körfuboltakvöld kvenna og svo tók Hörður Unnsteins við en mér var boðið starfið fyrir þetta tímabil. Ég er einstæð þriggja barna móðir svo þetta var ekki alveg einföld ákvörðun en vinnuveitendur mínir hjá Val hvöttu mig óspart og barnsfaðir minn og foreldrar bakka mig upp svo þetta hefur gengið vel til þessa. 
Mér líður alltaf betur og betur í þessu nýja hlutverki en það eru búnir sex þættir. Ég vona að það sjáist munur á fyrstu þáttunum og til dagsins í dag. Þættirnir eru venjulega í beinni útsendingu og það setur mann einhvern veginn meira upp á tærnar, þó svo að það sama eigi sér stað þegar þáttur er tekinn upp og sýndur síðar, þá er auðvitað hægt að grípa inn í og laga ef eitthvað fer úrskeiðis en það hefur reyndar ekki gerst. Þegar bein útsending er í gangi þá gírar maður sig einhvern veginn öðruvísi upp, ég get ekki alveg útskýrt það en ég kann alltaf betur við mig í beinni útsendingu. Ég er ennþá að læra í þessu nýja hlutverki, ég geri mistök en mér líður alltaf betur og betur og hlakka til að bæta mig enn frekar. Við vorum með skiptiborðið í fyrsta skipti í síðustu umferð, vorum þá í beinni útsendingu í þrjá klukkutíma. Það var öðruvísi en mjög skemmtilegt og munum við vonandi gera meira af því í vetur.
Uppgangurinn í körfuboltanum hefur verið ótrúlegur undanfarin ár og á Sýn stóran þátt í því með þessari miklu og faglegu umfjöllun og hefur verið gaman að vera þátttakandi. Þótt ég sé orðin þáttastjórnandi þá verð ég ekki vör við meiri athygli, það er helst að krökkunum sem ég er að þjálfa finnist skrýtið að sjá mig svona mikið í sjónvarpinu.“
Leikmaður og þjálfari
Íþróttir hafa alltaf skipað stóran sess í lífi Ólafar sem ólst upp í Grindavík og lék körfuknattleik og knattspyrnu jöfnum höndum og fótum upp að 23 ára aldri.
„Grindavík er mikill íþróttabær og kom ekkert annað til greina hjá mér þegar ég var ung en að æfa íþróttir. Pabbi spilaði fótbolta með Grindavík og ég æfði bæði fótbolta og körfubolta þar til ég varð 23 ára gömul. Ég myndi segja að ég hafi verið svipað góð í þessum greinum en valdi svo körfuboltann því ég var farin að glíma við hnémeiðsli, skiptin af parketinu yfir á grasið fór ekki vel í mig og ég ákvað að velja körfuna. Ef ég hefði valið fyrr hefði ég kannski náð lengra en knattspyrnuferlinum lauk með Keflavík. Ég spilaði lengst af með Grindavík í körfu, varð bikarmeistari með liðinu árið 2008 en elti svo Unndór Sigurðsson yfir til Njarðvíkur eftir að hann hafði komið liðinu í efstu deild tímabilið áður. Ég var með Njarðvík næstu ár og endaði ferilinn með þeim á besta máta þegar við unnum tvöfalt árið 2012 undir stjórn Sverris Þórs Sverrissonar. Ég var búin að skipta yfir í Grindavík en fór á vertíð á Vopnafjörð þaðan sem pabbi er en hann slasaði mig svo ferlinum lauk því hjá Njarðvík og kannski var það skrifað í skýin að honum ætti að ljúka sem fyrirliði Íslands- og bikarmeistara.
Ég byrjaði að þjálfa körfuknattleik þegar ég var átján ára, hef þjálfað marga bráðefnilega leikmenn sem eru orðnir góðir í dag og náði þeim merka áfanga um daginn að hafa þjálfað feðga, pabbann þegar ég var í Grindavík og son hans skömmu fyrir rýmingu. Ég tók frí frá þjálfun á meðan ég spilaði með Njarðvík, svo flutti ég til Bandaríkjanna en síðan ég kom heim árið 2015 hef ég verið að þjálfa á fullu. Ég þjálfaði fyrst unglingsstúlkur í Grindavík og var aðeins með puttana í meistaraflokknum. Ég tók síðan fyrst af alvöru við meistaraflokksþjálfun hjá Haukum árið 2018, tók svo við Grindavík 2020 og kom þeim upp í úrvalsdeildina árið 2021 en þurfti að hætta sökum barnsburðar. Var svo byrjuð að þjálfa ungviðið í Grindavík og var þá að þjálfa börnin mín svo það fór vel saman að blanda ástríðunni og fjölskyldunni. Svo gerist rýmingin í Grindavík og var mikið púsluspil að þjálfa þann vetur en ég er stolt af því að hafa farið með lið Grindavíkur á öll fjölliðamót vetrarins. Á einu mótanna tók framkvæmdastjóri Vals eftir mér, hann var þar með sitt barn og mér var boðið starf hjá Körfuknattleiksdeild Vals. Ég er bæði verkefnastjóri og þjálfa ungviðið svo það má segja að ég sé að vinna við áhugamálið, þjálfun á mjög vel við mig og mér finnst gaman að kenna ungum börnum fyrstu skrefin í körfuknattleik. Þegar þjálfun lýkur sest ég fyrir framan upptökuvélina og tala um körfuknattleik, ég gæti ekki verið ánægðari í vinnunni,“ sagði Ólöf Helga að lokum.







