ReykjanesOptikk
ReykjanesOptikk

Viðskipti

Suðurnesjamagasín: Rétta magnið af bílum
Föstudagur 14. nóvember 2025 kl. 16:08

Suðurnesjamagasín: Rétta magnið af bílum

Góður gangur hjá Blue Car Rental á fimmtán ára afmælisári. „Samfélagsleg ábyrgð líka mikilvæg,“ segir Þorstein Þorsteinsson, framkvæmdastjóri

Blue Car Rental fagnar 15 ára afmæli á árinu en fyrirtækið hóf starfsemi árið 2010 með nokkrum bílum. Í dag er fyrirtækið meðal stærstu bílaleiga landsins, með um þrjú þúsund bíla flota yfir háannatíma og um 120 starfsmenn. „Við byrjuðum með 5–9 bíla, fórum fljótt í 25 og svo tvöfaldaðist flotinn nánast á hverju ári,“ segir Þorsteinn Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Blue Car Rental. „Stærsta stökkið var þegar við fórum úr 500 bílum í 1.000 bíla á einu ári. Þá þurfti að stækka alla innviði samhliða.“ Við settumst niður með Þorsteini, sem segir frá því hvernig félagið stillir sig á „rétta magnið“ af bílum, hagræðir ferlum með tækni, og horfir til næstu skrefa í breyttu umhverfi.



Frá hraðri stækkun í sjálfbæran vöxt

Þorsteinn er yngri Blue-bróðirinn en hann kom inn í fyrirtækið eftir viðskiptanám árið 2014 og gerðist síðar 10% hluthafi ásamt Elísu Ósk Gísladóttur, en stofnendur þess og 45% hluthafar hvort um sig eru Magnús Sverrir bróðir hans og Guðrún Björgvinsdóttir.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Það er óhætt að segja að Blue hafi vaxið fiskur um hrygg. Árin 2018 og 2019 mörkuðu tímamót að sögn Þorsteins. „Þá fundum við réttan flöt, við hægðum á stækkun en bættum rekstur, ferla og nýtingu.“ Eftir faraldursárin hefur fókusinn verið skýr, að stilla bílafjöldann að eftirspurn. „Það snýst ekki um að eiga sem flesta bíla, heldur rétta magnið.“

Sögulegt sumar 2025

Þegar við spyrjum Þorstein út í nýliðið sumar en sumarmánuðirnir eru háannatími í bílaleigu þá segir hann sumarið 2025 hafa verið sögulegt. „Júlí og ágúst voru stærstu ferðamannamánuðir í sögu íslenskrar ferðaþjónustu. Aldrei hafa fleiri ferðamenn komið til Íslands en í júlí og ágúst í ár. Við getum ekki kvartað, eftirspurnin stóð undir sér.“ Þó bendir hann á að breytingar í flugi hafi áhrif á komufjölda og að raunáhrif skýrist ekki fyrr en seint á næsta ári.

Dacia Duster, táknmynd eftirspurnar

Vinsælasti bíll Blue Car Rental er Dacia Duster en hann er það líka hjá flestum bílaleigum landsins enda hentugur fyrir íslenskar aðstæður. „Það þarf ekki að fara langt út fyrir Reykjavík til að sjá hversu skynsamlegur kostur hann er. Fjórhjóladrifið hentar íslenskum aðstæðum, sérstaklega yfir vetur, og Evrópubúar hafa haft sérstakt dálæti á honum, Bandaríkjamenn eru líka ánægðir með hann, “ segir Þorsteinn.

24/7 þjónusta og tækni sem skiptir máli

Að halda utan um 3.000 bíla er ærið verkefni. „Það gerist ótrúlega margt á hverjum degi, frá smátjónum upp í alvarlegri atvik,“ segir hann. Þjónustan er allan sólarhringinn í gegnum spjall, síma og tölvupóst. Lykillinn að viðbragðsgetu er tæknin. „Við erum með staðsetningarbúnað -  í öllum bílum. Með honum sjáum við staðsetningu, ástandsvísa og högg.“ Næsta skref sé að senda rauntímaskilaboð til viðskiptavina. „Við viljum koma ábendingum og viðvörunum til fólks áður en eitthvað fer úrskeiðis, ekki bara eftir á.“

Reksturinn er mjög umfangsmikill og húsakynnin hafa stækkað á undanförnum árum. Þau eru á þremur  fjórum stöðum, á Keflavíkurflugvelli, á tveimur stöðum í Keflavík og í miðbæ Reykjavíkur. „Við skiptum um þúsundir dekkja á ári, um 1.000 framrúður, og seljum eða gerum upp hundruð bíla,“ segir Þorsteinn. Á álagstímum rennur nýr bíll út úr þvottastöðinni á um þriggja mínútna fresti. Sýnileiki og agi í daglegum ferlum hjálpast að, skjákerfi á vinnusvæðum sýna stöður verkefna og pöntunarlista, niður í smáatriði eins og aukahluti í farþegarými.

„Við erum tæknifyrirtæki sem rekur bílaleigu“

Þorsteinn lýsir fyrirtækinu sem tæknidrifnu. „Við segjum oft að við séum tæknifyrirtæki, frekar en bílaleiga. Við byggjum ferla á gögnum og tækni sem einfalda ferla okkar.“ Í innleiðingu lausna nýtir Blue Car Rental nátengt tæknifyrirtækið Dacoda, sem hjálpar að færa hugmyndir úr þróun yfir í rekstur.

„Við leggjum gríðarlega mikið á eigin sölurásir og höfum alltaf gert það,“ segir Þorsteinn. Áherslan er að forðast háar þóknanir endursöluaðila, 15 til 25 prósent, með því að efla eigin bókanir og gera upplifunina einfaldari og skýrari. „Þetta hefur skilað sjálfbærum vexti sem við stýrum sjálf.“

Ný ásýnd, frá greiningu til hönnunar

Á síðustu tveimur árum fór Blue Car Rental í ítarlega endurnýjun vörumerkis. „Greiningin var unnin með Brandr í Reykjavík, þar sem við litum inná við og bjuggum til okkar eigin vörumerkjabiblíu.“ Hönnunin var síðan unnin með Saffron í London. Útkoman er heildstætt myndmál, letur, mynstur og kerfi sem skapa stöðugleika og sérstöðu á markaði þar sem varan, sem er bíllinn, er oft sambærilegur milli keppinauta. „Við vildum skapa stöðugleika og ramma utan um vörumerkið okkar,” segir Þorsteinn en nýja merkið var kynnt síðla sumars og hefur verið tekið í notkun.

Fólkið og samfélagið

Blue Car Rental er með um 120 starfsmenn yfir háannatíma, flestir á Suðurnesjum, þó nokkrir sæki vinnu daglega úr borginni. Fyrirtækið hefur byggt upp samfélagsátakið Góðgerðarfest sem hefur skilað yfir 100 milljónum króna í styrki á síðustu 5 árum. Það byrjaði sem partý en hefur aldeilis vafið upp á sig. Eigendur Blue eru með viðskipti og samskipti við mörg fyrirtæki og aðila sem hafa tekið þessu styrktarverkefni mjög vel. Rúmlega 30 milljónir króna söfnuðust í Góðgerðarfestinu í ár. „Við erum stolt af þessu og við miðlum þessu markvisst til að hvetja fleiri til þátttöku.“

Utan kjarnareksturs nefnir Þorsteinn rekstur Brons, skemmtistaðar og veitingahúss, og nýlega fjárfestingu í ferðaþjónustu úti á landi, lóni sem tengist persónulegum rótum innan Blue. „Við höfum sent fólk út um allt land í mörg ár. Það verður gaman að geta nú boðið gestum á stoppa hjá okkur líka í Laugarás Lagoon.

Rafbílar, vilji til að kaupa, eftirspurn fylgir ekki

Stærsta stefnumálið næstu missera er rafbílavæðingin og mótsögnin milli stefnu og eftirspurnar. „Við myndum gjarnan vilja kaupa miklu fleiri rafbíla,“ segir Þorsteinn. „En ferðamenn eru einfaldlega ekki að biðja um þá í nægilega miklum mæli og það er mjög erfitt að leigja þá út.“ Á sama tíma hækka gjöld, eldsneyti, vörugjöld og möguleg kílómetragjöld, sem þrengja reksturinn.

Hann bendir á hegðunarhlið málsins. „Þeir sem eiga rafbíla á Íslandi þekkja kerfið og hlaða heima. Ferðamaður sem lendir á Íslandi þarf að læra á hleðsluinnviðina og áætlanir þeim tengdum í ókunnu landi. Margir nenna því einfaldlega ekki í fríi.“ Rafbílavæðing er víða skemmra á veg komin en á Íslandi, sérstaklega í Bandaríkjunum sem eru stór markaður fyrir Blue Car Rental. „Þetta tekur tíma, við munum halda áfram að prófa og læra, en núna er eftirspurnin of lítil á móti kostnaði. Og - ekki bara hjá okkur heldur öllum bílaleigum hér á landi.“

Viðkvæm jafnvægislist

Í stuttu máli er reksturinn jafnvægislist milli náttúru og nytsemi, að selja réttan bíl á réttum tíma, að halda ferlunum snörpum, innviðunum góðum, og viðskiptavininum öruggum. „Við erum sátt við árið, reksturinn góður, en við förum í næstu skref með bæði metnað og varfærni. „Það er áfram gakk, en á forsendum gæða, tækninnar og rétta magnsins,“ segir Þorsteinn að lokum.


Dubliner
Dubliner