HS Veitur
HS Veitur

Íþróttir

Rúnar Þór er íþróttamaður Suðurnesjabæjar 2021
Fimmtudagur 6. janúar 2022 kl. 09:07

Rúnar Þór er íþróttamaður Suðurnesjabæjar 2021

Rúnar Þór Sigurgeirsson, knattspyrnumaður, var valinn íþróttamaður Suðurnesjabæjar 2021. Rúnar Þór hefur verið í lykilhlutverki hjá meistaraflokki Keflavíkur í knattspyrnu undafarin ár. Hann var valinn í A-lið íslenska landsliðsins á árinu 2021, en hefur áður spilað með U-21.
Rúnar Þór er framúrskarandi leikmaður í knattspyrnu og er Suðurnesjabæ til mikils sóma.
Afhending viðurkenninga fór fram í Ráðhúsinu í Sandgerði þann 4. janúar.

Eftirfarandi aðilar voru tilnefndir til íþróttamanns ársins og hlutu viðurkenningu fyrir góðan árangur árið 2021:

Birgir Þór Kristinsson, akstursíþróttir
Ástvaldur Ragnar Bjarnason, boccia
Daníel Arnar Ragnarsson, taekwondo
Rúnar Gissurarsson, knattspyrna
Björn Aron Björnsson, knattspyrna

Kristjana Halldóra Kjartansdóttir hlaut viðurkenningu íþrótta- og tómstundaráðs Suðurnesjabæjar

Kristjana Halldóra Kjartansdóttir hlaut viðurkenningu íþrótta- og tómstundaráðs Suðurnesjabæjar fyrir óeigingjörn störf sín í þágu æskulýðsmála í Suðurnesjabæ. Kristjana, eða Sjana eins og hún er oftast kölluð, hefur lagt krafta sína í ótalmörg verkefni í gegnum árin og má þar nefna, foreldramorgna, kirkjuskólann, bænahringi, endurreisn tónlistarskólans, gönguhóp 60 ára og eldri, leshópinn Unu, Kvenfélagið Gefn, Norrænafélagið, UA3 háskóli þriðja æviskeiðsins, Hollvinafélag Útskálakirkju, Hollvinafélag Unu Guðmundsdóttur í Sjólyst, Slysavarnafélagið Una og fleiri. Einnig hefur hún sett krafta sína í ýmis nefndarstörf og þessi misserin situr hún sem fulltrúi bæði í öldungaráði Suðurnesjabæjar og í stýrihóp heilsueflandi samfélags.

Sjana er ótrúleg kona sem allir bæir, þorp og samfélög þyrftu að eiga sem slíka. Myndir og frétt: sudurnesjabaer.is